„Enginn fótur er fyrir ásökunum um að Birgitta Jónsdóttir hafi haft óeðlileg afskipti af uppröðun lista í NV kjördæmi heldur reyndust þær fullyrðingar byggðar á skorti á samskiptum. Ágúst Beaumont, sem lagði þessar ásakanir fram, hefur beðist afsökunar og lýst yfir fullum stuðningi við listann og flokkinn.“
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Pírata, hefur sent á fjölmiðla vegna ásakana um afskipti Birgittu í prófkjöri Pírata í Norðvesturkjördæmi.
Tilkynningin er svohljóðandi í heild:
„Enginn fótur er fyrir ásökunum um að Birgitta Jónsdóttir hafi haft óeðlileg afskipti af uppröðun lista í NV kjördæmi heldur reyndust þær fullyrðingar byggðar á skorti á samskiptum. Ágúst Beaumont, sem lagði þessar ásakanir fram, hefur beðist afsökunar og lýst yfir fullum stuðningi við listann og flokkinn. Þetta er niðurstaða einlægs og uppbyggilegs fundar sem haldinn var í dag. Fundinn sátu Ágúst, Birgitta og Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Pírata.
Birgitta baðst afsökunar á því að hafa hringt í Ágúst, þó svo að um óformlegt spjall hafi verið að ræða, þar sem mögulega hafi verið hægt að mistúlka það almenna samtal sem einhverskonar valdboð. Tilefni símtalsins var einfaldlega að ræða ólíkar sviðsmyndir til að lægja öldu óánægju í kjördæminu, ekki að fara fram á einhverja tiltekna lausn.
Ágúst biðst afsökunar á að hafa farið með þetta mál í fjölmiðla án þess að gera tilraun til að fá nánari útskýringar á tilgangi samtalsins. Þá staðfestir Ágúst að hann hafi enga vitneskju um að Birgitta hafi hringt í aðra, heldur hafi komið í ljós að umræddar símhringingar hafi ekki átt uppruna sinn frá þingmanninum eða öðrum tengdum henni.“