„Hlýt að vera ánægður með þetta“

Páll Magnússon.
Páll Magnússon. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

„Ég gaf kost á mér í fyrsta sætið og fékk það með miklu meiri og viðtækari stuðningi en ég hafði nokkurn tímann gert mér í hugarlund að gæti orðið niðurstaðan. Þannig að ég hlýt að vera mjög ánægður með þetta,“ segir Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri, sem varð í fyrsta sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi sem fram fór í gær.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, skipaði fyrsta sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu þingkosningar en hún lenti í fjórða sæti í prófkjörinu. Þingmennirnir Ásmundur Friðriksson og Vilhjálmur Árnason hlutu annað og þriðja sætið en Unnur Brá Konráðsdóttir alþingismaður lenti í fimmta sætinu.

Rétta leiðin ekki að skerða lýðræðislega valkosti

Mikil gleði ríkti í kosningamiðstöð Páls í Vestmannaeyjum í gærkvöldi og nótt en hann segir aðspurður að fjöldi manns hafi litið inn. „Ég hef ekki nákvæma tölu á því en þá hafa þarna verið 200 manns eða fleiri. Mikil gleði ríkti í mínum herbúðum.“ Spurður hvernig honum lítist á framboðslistann eins og hann lítur út eftir prófkjörið segir Páll:

„Það á auðvitað eftir að ganga endanlega frá frá listanum en þetta eru mjög öflugir einstaklingar sem hafa valist á listann. Ég get tekið undir það að það hefði gert ásjónu listans betri ef konur hefðu borið stærri hlut frá þessu borði. En það er mikið atgervisfólk á listanum engu að síður.“ Vísar hann til þess að karla séu í þremur efstu sætunum.

„Það verður náttúrulega aldrei nógsamlega undirstrikað að leiðin til þess að auka hlut kvenna í stjórnmálum, hvort sem það er í þessum flokki eða öðrum, getur aldrei verið sú að karlar sem telji sig eiga erindi í pólitík láti það vera að gefa kost á sér í pólitík. Það væri dálítið afkáraleg afskræming á lýðræðinu ef auka ætti hlut kvenna með því að skerða lýðræðislega valkosti. Þannig að það getur aldrei verið leiðin,“ segir hann.

Taka þarf lýðræðinu með kostum og göllum

Hins vegar sé um að ræða umhugsunarefni fyrir alla sem hafa áhuga á samfélagsmálum og stjórnmálum. „Þegar stjórnmálaflokkur hefur ákveðið að velja á sína lista með þessari lýðræðislegu aðkomu stuðningsmanna sinna þá á maður auðvitað erfitt með að sjá með hvaða hætti sá sem það hefur valið að gera ætlar síðan að ganga gegn niðurstöðunni.“

Þá vakni sú spurning hvort lýðræðið eigi að stjórnast af einhverjum öðrum og veigameiri sjónarmiðum en lýðræðinu sjálfu. „Því lýðræðið er ekki bara aðferð til þess að gera eitthvað heldur líka markmið í sjálfu sér. Og þá hljóta menn að taka því með kostum og göllum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert