Með mannúð að leiðarljósi

Flóttafólk frá Sýrlandi sem kom hingað í febrúar.
Flóttafólk frá Sýrlandi sem kom hingað í febrúar. Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson

Flestir þeirra stjórnmálaflokka, sem eiga fulltrúa á þingi eða mælast með yfir 5% fylgi í skoðanakönnunum, telja að leggja eigi aukið fé í að taka á móti flóttafólki. Stytta eigi meðferðartíma í kerfinu og Ísland eigi, líkt og önnur ríki í Evrópu, að axla sameiginlega ábyrgð á að taka við fólki frá stríðshrjáðum svæðum. Móttaka flóttafólks er eitt af þeim málefnum sem brenna þyngst á heimsbyggðinni um þessar mundir og hefur Ísland ekki farið varhluta af þeirri umræðu. 

Svíþjóð hefur staðið framarlega þegar kemur að móttöku flóttafólks og hælisleitenda. Eftir að rúmlega 163 þúsund flóttamenn komu þangað í fyrra ákváðu yfirvöld að grípa til aðgerða til þess að koma í veg fyrir að svo margir myndu leita þangað í ár. Það hefur gengið eftir en Bengt Lindroth, rithöfundur og fyrrverandi fréttamaður og fréttastjóri, telur að Svíar hafi ekki getað annað en að grípa til aðgerða. Lindroth skrifaði bókina Väljarnas hämnd. Populism och nationalism i Norden þar sem hann fjallar um popúlisma og þjóðernishreyfingar á Norðurlöndum, einkum í Svíþjóð.

Hann segir að fátt sé eins mikið rætt í Svíþjóð þessi misserin og málefni flóttafólks, ekki síst af stjórnmálamönnum sem virðast hafa vaknað upp við vondan draum undir lok síðasta árs. Koma svo margra flóttamanna til landsins hafi verið of mikið fyrir velferðarkerfið líkt og utanríkisráðherra Svíþjóðar, Margot Walström, bendir á en hún sagði í fyrra að ef svo héldi áfram myndi velferðarkerfið hrynja.

Allir íslensku stjórnmálaflokkarnir sem svöruðu spurningum blaðamanns mbl.is segja að Ísland eigi að taka á móti flóttafólki enda neyðin gríðarleg. En á Ísland að vera opið öllum þeim sem eru á flótta? Misjafnar skoðanir eru um það meðal íslenskra stjórnmálaflokka líkt og fram kemur í svörum þeirra.

Ísland á aðild að Dyflinnar-samstarfinu og hér gildir því ákvæði Dyflinnar-samningsins sem kveður á um heimild til þess að senda hælisleitendur aftur til þess ríkis Evrópu sem viðkomandi kom fyrst til. Hart hefur verið deilt um þetta ákvæði hér á landi og telja margir að fólk sé sent til ríkja þar sem öryggi viðkomandi er ekkert. Stjórnmálaflokkarnir hafa ólíkar skoðanir á beitingu ákvæðisins hér á landi líkt og sést á svörum flokkanna.

Hér á eftir verða birt svör þeirra sjö stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi eða munu eiga fulltrúa þar eftir kosningarnar í næsta mánuði ef marka má Þjóðarpúls Gallup frá því í byrjun september og könnun MMR. Um er að ræða Bjarta framtíð, Framsóknarflokkinn, Pírata, Samfylkinguna, Sjálfstæðisflokkinn, Viðreisn og Vinstri græna.

Björt framtíð: 

Björt framtíð mun leggja áherslu á málefni flóttafólks í komandi alþingiskosningum enda er fólkið okkar víðsýnt og frjálslynt. Við teljum það skyldu okkar Íslendinga að taka vel á móti fólki sem leitar griðlands og alþjóðlegrar verndar utan síns heimalands vegna stríðsátaka. Björt framtíð horfir til þess mannauðs sem í flóttamönnum býr og þess virðis sem þeir geta fært íslensku samfélagi en ekki eingöngu til þess kostnaðar sem í því felst að taka á móti fólki í neyð.

Framsóknarflokkurinn:

Ljóst er að málefni flóttafólks og fólksflutningavandinn eru aðkallandi verkefni fyrir heimsbyggðina alla, og ekki síst fyrir ríki Evrópu eins og staðan er nú. Því miður er fyrirsjáanlegt að þessi vandi muni fremur aukast en minnka og Íslendingar verða að taka tillit til þess raunveruleika. Fólksflutningavandinn er því mikilvægt málefni sem án vafa verður í umræðunni og til úrlausnar fyrir alla stjórnmálaflokka landsins næstu ár.

Píratar:

Píratar vilja auka réttarvernd þeirra flóttamanna sem hingað leita í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands en áherslumál flokksins fyrir kosningar snúa fyrst og fremst að nýrri stjórnarskrá, betra heilbrigðiskerfi og aukinni réttarvernd einstaklinga.

Samfylkingin:

Já, við höfum alltaf lagt á það áherslu að Ísland taki á móti fleira flóttafólki og lögðum til dæmis fram tillögu að þingsályktun á Alþingi um að taka eigi á móti 500 flóttamönnum á næstu þremur árum. Staða flóttafólks verður áfram áherslumál okkar.

Sjálfstæðisflokkurinn:

Málefni flóttamanna eru mjög í brennidepli í heiminum og Ísland hefur fylgst náið með því. Hér er bæði átt við flóttamenn og hælisleitendur en hvort tveggja lýtur alþjóðlegum skuldbindingum og lögum. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að taka vel á móti þeim sem hér setjast að og leggur áherslu á að íslenskt samfélag sé vel í stakk búið til að gera það. Í því skiptir miklu máli að gæta að því að flóttamenn geti aðlagast samfélaginu hér, lært íslensku og með öðrum hætti verið hluti af þjóðfélaginu. Að því hefur Sjálfstæðisflokkurinn unnið á þessu kjörtímabili og mun leggja sitt af mörkum til þess að svo verði áfram.

 Viðreisn:

Viðreisn stendur fyrir opið samfélag og virka þátttöku Íslands í alþjóðlegri samvinnu; málefni flóttamanna falla skýrt þar undir. Viðreisn er jákvæð í garð móttöku flóttamanna.

Vinstri grænir:

Já. Vinstrihreyfingin – grænt framboð grundvallar stefnu sína á jöfnum rétti allra án tillits til kynferðis, kynhneigðar, trúarbragða, litarháttar og uppruna. Fjallað er um málefni flóttafólks í uppfærðri stefnuskrá Vinstri-grænna og í nýjustu landsfundarályktunum VG. Kvótaflóttamenn eru þeir sem stjórnvöld ákveða að taka á móti en umsækjendur um alþjóðlega vernd eru þeir sem komast hingað af sjálfsdáðum en mikilvægt er að bæta móttöku þeirra síðarnefndu, enda njóta þeir ekki sömu réttinda og kvótaflóttamenn. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur ályktað að það sé langur vegur frá því að nú sé tekist á við málefni flóttafólks og hælisleitenda með fullnægjandi hætti og mun flokkurinn leggja meiri áherslu á málefni flóttafólks en nú er gert ef flokkurinn kemst til valda.

Sýrlenskir flóttamenn á Akureyri.
Sýrlenskir flóttamenn á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson


Maskína vann könnun fyrir Íslandsdeild Amnesty International í sumar þar sem spurt var um afstöðu Íslendinga til flóttafólks. 

Tæp 85% aðspurðra í skoðanakönnun Maskínu töldu að flóttafólk sem flýr stríð eða ofsóknir ætti að geta leitað hælis í öðrum löndum en rúm 15% voru ósammála þeirri fullyrðingu. 

Björt framtíð:

Móttaka flóttafólks þarf að byggja á skynsemi, yfirvegun, mannúðarsjónarmiðum og skilvirkni til að tryggja að fólk fái þá aðstoð sem til þarf til að það hafi möguleika á að koma undir sig fótunum í nýju og öruggara samfélagi.

Flokkurinn ályktaði á fundi sínum í september 2015 að taka þyrfti á móti fleira flóttafólki hingað til lands. Ályktunin hljómar svo, í heild sinni:

„Árs­fund­ur Bjartr­ar framtíðar skor­ar á stjórn­völd að end­ur­skoða taf­ar­laust fyr­ir­ætlaðar aðgerðir varðandi mót­töku flótta­fólks og auka fjölda þeirra sem hingað koma til mik­illa muna. Neyðarástand það sem blas­ir við vax­andi fjölda flótta­fólks, sem leit­ar til Evr­ópu að alþjóðlegri vernd, kall­ar á rót­tæk og snör viðbrögð. Börn, kon­ur og karl­ar standa frammi fyr­ir gríðarleg­um hörm­ung­um og sí­fellt ber­ast frétt­ir af dauðsföll­um sök­um ástands­ins.

Ísland get­ur boðið mun fleira flótta­fólk vel­komið og okk­ur ber siðferðileg skylda til að leggja okk­ar af mörk­um. Koma flótta­fólks auðgar jafn­framt ís­lenskt sam­fé­lag.

Við eig­um jafn­framt að bregðast við með því að bjóða mun meiri aðstoð á svæðum þar sem hörm­ung­arn­ar eiga sér stað, á hvern þann hátt sem við best get­um. Sýn­um í verki að við vilj­um standa vörð um mann­rétt­indi og rétt­indi fólks til ör­uggs lífs!“ 

Framsóknarflokkurinn:

Lykilatriði er að vinna að fólksflutningavandanum á heildstæðan hátt þar sem tekið sé á málefnum flóttamanna sem boðið er til Íslands, hælisleitenda og annarri alþjóðlegri aðstoð sem Íslendingar veita á heildstæðan hátt. Íslendingar þurfa áfram að sýna ábyrgð í samfélagi þjóðanna. Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að alþjóðlegar skuldbindingar og ráðgjöf alþjóðastofnana og fagfólks í málefnum flóttafólks séu hafðar að leiðarljósi. Á undanförnum árum hefur Framsóknarflokkurinn, og ríkisstjórn undir forystu hans, lagt áherslu á að veita aðstoð á svæðum þar sem neyðin er mest, að bjóða til landsins hópum flóttamanna með áherslu á minnihlutahópa og áhættuhópa og veita auknu fé og hraða starfi þeirra aðila sem sjá um móttöku hælisleitenda. Mikilvægt er að bæta það kerfi með það í huga að minnka óvissu og biðtíma þeirra sem til landsins koma af eigin rammleik.

Píratar:

Samkvæmt nýsamþykktri stefnu flokksins um málefni útlendinga liggur fyrir að Píratar vilja auka ferðafrelsi allra einstaklinga eftir fremsta megni, sérstaklega á milli þjóðríkja. Auka beri ferðafrelsi eftir fremsta megni, sérstaklega á milli þjóðríkja. Þar að auki ályktaði aðalfundur Pírata árið 2015 að Íslendingar gætu gert betur í mannúðarstarfi en að taka á móti 50 flóttamönnum á ári og því ætti að bjóða fleiri flóttamenn velkomna hingað til lands.

Píratar vilja stefna að jöfnum tækifærum, aðgengi og réttindum alls fólks með búsetu á Íslandi. Við óskum þátttöku innflytjenda, flóttamanna, hælisleitanda og ríkisfangslausra í málefnum sem varða þá. Því viljum við stefna að því að samræma íslenska innflytjendastefnu með það að markmiði að jafnræðis sé gætt gagnvart öllum erlendum ríkisborgurum, hvort sem þeir sækja um hæli eða dvöl, óháð uppruna þeirra.

Samfylkingin:

Við viljum að fleiri fjölskyldum frá stríðshrjáðum ríkjum verði boðið hingað og við viljum að hælisleitendum sem koma hingað á eigin vegum sé mætt með mannúð að leiðarljósi, tekið sé hratt á þeirra málum og börnum sé veitt sérstök þjónusta. Við leggjum áherslu á að hælisleitendur fái fljótt skorið úr sínum málum og að þeir sem fái stöðu flóttafólks komist fljótt á vinnumarkaðinn eða í starfstengt nám. Aðlögun foreldra að samfélaginu og tengsl við Íslendinga er lykilatriði svo að flóttafjölskyldur geti átt gott líf hér.

Sjálfstæðisflokkurinn:

Líkt og fram kemur í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins er móttaka flóttamanna sjálfsögð. Þar hafa íslensk stjórnvöld jafnframt aukið fé til málaflokksins og Sjálfstæðisflokkurinn fagnar ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að auka fjármagn til flóttamannaaðstoðar í kjölfar neyðar sem skapast hefur í Evrópu undanfarin misseri.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að kerfið sé í stakk búið að takast á við aukinn fjölda hælisleitenda og flóttamanna. Það á bæði við um móttökukerfið og þegar fólk er hingað komið og hefur nýtt líf í nýju landi. Við þurfum að vanda okkur, gera það sem við getum og gera það vel. 

Viðreisn:

Í stefnuskrá Viðreisnar, sem samþykkt var á stofnfundi flokksins 24. maí sl., segir: Móttaka flóttamanna og hælisleitenda er á ábyrgð Íslendinga eins og annarra þjóða. Stytta þarf úrvinnslutíma eins og kostur er. Tryggja þarf með markvissum hætti aðlögun þeirra sem setjast hér að og veita nauðsynlega aðstoð til þess.

Þar segir jafnframt: Mannréttindi eru einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu. Þau eru óaðskiljanlegur hluti alþjóðastjórnmála en ekki einkamál sérhverrar þjóðar. Ísland leggi sitt af mörkum til þróunaraðstoðar og móttöku flóttafólks.

Móttaka flóttafólks er þó ekki eina málefnið sem skiptir máli heldur má stórbæta aðstoð við þá sem þegar hafa hlotið hæli eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hér á landi. Eftirfylgni hefur oft verið ábótavant sem getur ýtt undir einangrun þeirra sem hingað koma. Samfélagið hefur mikinn hag af því að allir sem flytji hingað verði virkir samfélagsþegnar í gegnum nám eða vinnu.

Vinstri grænir:

Það er yfirlýst stefna VG að íslensk stjórnvöld eigi að taka á móti fleiri flóttamönnum en nú þegar er gert. Þingmenn VG voru, ásamt öðrum þingmönnum stjórnarandstöðunnar, flutningsmenn á tillögu Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur um að tekið yrði á móti 500 flóttamönnum hér á landi á árunum 2015, 16 og 17 en því miður hefur ríkisstjórnin sett markið talsvert lægra. Landsfundur VG sem haldinn var í október sl. fagnaði sérstaklega viljayfirlýsingum ríflega tuttugu sveitarfélaga um að taka við fleira flóttafólki.

Í stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs segir m.a. að Íslendingar eigi að beita sér fyrir alþjóðlegu átaki í málefnum flóttamanna. Landflótta beri að uppræta með því að stórauka efnahagslegan jöfnuð meðal þjóða og auðvelda fólki að búa sér betra líf í sínum heimahögum.

Þórunn Ólafsdóttir hefur unnið sem sjálfboðaliði í flóttamannabúðum í Grikklandi.
Þórunn Ólafsdóttir hefur unnið sem sjálfboðaliði í flóttamannabúðum í Grikklandi. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Þórunn Ólafsdóttir, sem hefur undanfarið ár unnið við flóttamannaaðstoð í Grikklandi, telur að Ísland geti gert meira, en það sem gert hefur verið, hefur verið gert mjög vel. „Mér finnst metnaður í því hvernig Ísland hefur tekið á móti kvótaflóttafólki og ekki hægt að gagnrýna það. En mér fannst í upphafi að allir væru að stíga svo varlega til jarðar og búið að ákveða fyrir fram að þarna væru alls konar vandamál sem þyrfti að leysa. Fólk vissi kannski ekki alveg við hvað væri að fást og hvaða aðstoð fólk þurfti á að halda,“ segir Þórunn.  

Það sé mikið í húfi því flóttafólk sé í raun að ganga í gegnum meiri raunir en þörf er á vegna þess að það er pólitísk tregða í móttöku flóttafólks meðal stjórnvalda í mörgum ríkjum Evrópu.  

„Við hjá Akkeri (sam­tökum áhuga­fólks um starf í þágu flótta­manna) höfum verið að leggja áherslu á að sækja fólk til Grikklands til þess hreinlega að rjúfa þessa samtöðu Evrópuríkja um að gera ekki neitt,“ segir Þórunn.

AFP

Aldrei áður hafa jafnmargir sótt um vernd á einum mánuði hér á landi og í ágúst síðastliðnum, samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun. Heildarfjöldi umsókna um vernd það sem af er ári er þegar meiri en allt síðasta ár sem gerir árið 2016 þar með metár í fjölda hælisumsókna.

Það sem af er september hefur ekkert lát verið á þessari þróun en á fyrstu 12 dögum mánaðarins sóttu um 60 manns um vernd eða að meðaltali um fimm manns á hverjum degi.
Móttöku- og þjónustuteymi Útlendingastofnunar vinna að því hörðum höndum að tryggja fólkinu þak yfir höfuðið og sjá til þess að grunnþarfir þess séu uppfylltar. Húsnæðisúrræði á vegum Útlendingastofnunar og samstarfsaðila eru fullnýtt og leggur stofnunin nú allt kapp á að útvega fleiri úrræði.

Í ágústmánuði sóttu 67 einstaklingar frá 14 löndum um vernd á Íslandi. Heildarfjöldi umsækjenda á fyrstu átta mánuðum ársins var 384 en á sama tíma á síðasta ári höfðu 156 umsóknir borist. Eins og sjá má á myndinni hér að neðan komu flestir umsækjendur um vernd árið 2015 í ágúst, september og október og má leiða líkum að því að sömu mánuðir verði einnig stærstir á þessu ári.

Niðurstaða fékkst í 38 mál í ágústmánuði. Nítján mál voru tekin til efnislegrar meðferðar, 10 mál voru afgreidd með ákvörðun um endursendingu á grundvelli Dyflinnar-reglugerðarinnar og átta umsækjendum var synjað vegna þess að þeir höfðu þegar fengið vernd annars staðar. Einn umsækjandi dró umsókn sína til baka.

Af þeim 19 málum sem tekin voru til efnislegrar meðferðar lauk sjö málum með ákvörðun um veitingu verndar, einu máli lauk með veitingu viðbótarverndar og 11 málum lauk með synjun. Af efnismálunum 19 voru 11 mál afgreidd á grundvelli forgangsmeðferðar.

Umsækjendur sem fengu vernd eða viðbótarvernd í mánuðinum komu frá El Salvador (5), Írak (1) og Pakistan (2). Flestir þeirra sem fengu synjun komu frá Albaníu (6).

Þann 31. ágúst 2016 voru 189 umsóknir um vernd í vinnslu hjá Útlendingastofnun.

Maryam Raísi og Torpikey Farrash frá Afganistan.
Maryam Raísi og Torpikey Farrash frá Afganistan. Af Petitons24.is

„Það eru flóttamenn á Íslandi sem koma frá löndum sem ekki teljast örugg en samt á að vísa þeim héðan. Til að mynda afgönsku mæðgurnar Maryam Raísi og Torpikey Farrash frá Afganistan en kærunefnd útlendingamála hefur úrskurðað að senda eigi þær til baka til Svíþjóðar á grundvelli Dyflinnar-reglugerðarinnar sem virðist alltaf vera fyrsti kostur hér á landi og fólk sent héðan til þess ríkis sem það kom fyrst til, þrátt fyrir að viðkomandi eigi miklu fremur heima undir verndarvæng okkar Íslendinga þar sem fólk hefur jafnvel komið sér upp stuðningsneti hér á landi og nýtur öryggis,“ segir Þórunn.

Samkvæmt Dyflinnar-reglugerðinni ber það aðildarríki reglugerðarinnar sem hælisleitandi kemur fyrst til ábyrgð á afgreiðslu umsóknar hans. Allar umsóknir um hæli hér á landi eru því fyrst skoðaðar með hliðsjón af því hvort öðru aðildarríki sé skylt að fjalla um umsóknina og taka aftur við umsækjanda.

Þær mæðgur eru síja múslimar og tilheyra minnihlutahópi Hazara sem á undir högg að sækja í Afganistan. „Staðreyndir um líf kvenna í Afganistan eru vel þekktar og landið eitt hið versta þegar kemur að réttindum og öryggi kvenna í heiminum. Fyrir utan að tilheyra minnihlutahópum eru þær Maryam og Torpikey konur án verndar á stríðsátakasvæði og í feðraveldissamfélagi,“ segir í áskorun um að þeim verði veitt hæli hér á landi.

„Þær mæðgur hafa verið á flótta í áraraðir og hefur Maryam í raun aldrei kynnst annars konar lífi en flótta. Torpikey þjáist af alvarlegri áfallastreituröskun og langvarandi kvíða vegna þessa og vegna óvissu um framtíð dóttur sinnar. Lokasynjun hér á landi og endursending þeirra mæðgna til Svíþjóðar yrði þeim báðum enn eitt áfallið í ævilangri leit að öryggi og vernd. Verði þeim vísað til Svíþjóðar eiga þær fyrir höndum vonlitla baráttu til þess að fá leiðrétt mistök í meðferð máls þeirra og þar liggur fyrir að þær verði umsvifalaust sendar til baka til Afganistan þar sem þær yrðu í bráðri hættu,“ segir í áskorun til stjórnvalda.

Þórunn segir að í máli þeirra eigi Dyflinnar-reglugerðin augljóslega ekki við enda séu öll mannréttindi brotin á þeim. „En þær eru ekki einar á báti þar því dæmin eru fleiri,“ segir Þórunn.

„Við hjálpum ekki einu sinni þeim sem hafa lagt á sig erfitt ferðalag hingað og komist alla leið. Enda viðkvæðið oft að það myndi bara þýða að það kæmu fleiri. En er það ekki bara í lagi? Við ráðum alveg við það,“ segir Þórunn.

 Björt framtíð:

Þingmenn Bjartrar framtíðar og flokksmenn hafa ítrekað bent á að Dyflinar-reglugerðin er reglugerð sem Íslendingar eru ekki bundnir af, heldur sé um að ræða valfrjálsa notkun á henni. Það að beita henni án þess að gefa kost á efnislegri meðferð máls sé ómannúðlegt. Vegna þess styður Björt framtíð að hvert og eitt mál verði tekið til efnislegrar meðferðar til að tryggja mannúðlega meðferð, skilvirkni og tryggja að Íslendingar uppfylli siðferðilegar skuldbindingar sínar við alþjóðasamfélagið. Björt framtíð mun beita sér fyrir endurskoðun á eftirfylgni reglugerðarinnar hérlendis í þeim tilgangi að tryggja ofangreint.

Framsóknarflokkurinn:

Dyflinnarsamstarfið er hluti af Schengen-samstarfinu og hefur að gera með málsmeðferð í málefnum hælisleitenda.  Þar er sett fram skilgreining á því hvaða ríki eigi að fjalla um hælisumsókn og er þar almennt miðað við fyrsta land sem hælisleitandi kemur til. Þannig er heimild til að senda hælisleitanda aftur til þess Schengen-lands sem hann kom fyrst til.

Mikilvægar undantekningar eru frá þessu. Þannig ber t.d. að líta til þess hvort viðkomandi einstaklingar eigi á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð ef þeir eru sendir til baka. Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að þessi sjónarmið séu höfð í heiðri í allri málsmeðferð. Því beri að skoða hvert mál fyrir sig og meta það út frá þessum þáttum.

Píratar:

Píratar vilja efla og vernda ferðafrelsi allra einstaklinga, líka flóttamanna, og vilja því taka óskir allra um að dvelja hér á landi til skoðunar í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Píratar vilja efla og vernda borgararéttindi og önnur mannréttindi og vilja því koma í veg fyrir að flóttamenn á Íslandi séu sendir til landa þar sem hætta er á að þeir verði fyrir pyntingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð.

Dyflinnar-reglugerðin felur í sér samkomulag milli Evrópuríkja um samræmdar reglur um móttöku hælisumsókna, inniheldur lágmarksréttindi hælisleitenda og heldur utan um kerfi sem ætlað er að tryggja að hver umsókn fái aðeins efnismeðferð í einu Evrópuríki. Reglugerðin tilgreinir margvíslegar breytur sem ráða því hvaða aðildarríki ber ábyrgð á því að taka einstaka umsókn til efnismeðferðar. Píratar styðja beitingu Dyflinnar-reglugerðarinnar að því leyti sem hún tryggir lágmarksréttindi flóttamanna.

Sæki flóttamaður um hæli í öðru landi en því sem samkvæmt Dyflinnar-reglugerðinni ber ábyrgð á umsókninni, er yfirvöldum þess lands heimilt að flytja flóttamanninn til þess lands sem ábyrgðina ber. Þessi heimild er stundum kölluð endursendingarheimild Dyflinnar-reglugerðarinnar.

Til þess að hægt sé að nýta endursendingarheimildina gerir Dyflinnar-reglugerðin ráð fyrir því að mál hvers einstaklings sé skoðað sérstaklega þó að aðildarríkjum beri ekki ávallt skylda til þess að taka hælisumsókn til efnislegrar meðferðar. Þannig ber aðildarríkjum að skoða hvort umsækjandi eigi fjölskyldu í einu aðildarríkjanna og skal þá eftir fremsta megni tryggja sameiningu fjölskyldunnar. Píratar styðja beitingu Dyflinnar-reglugerðarinnar þegar hún stuðlar að fjölskyldusameiningu flóttamanna.

Aðildarríki mega ekki senda hælisleitanda til annars aðildarríkis þar sem líkur eru á að hann hljóti ósanngjarna málsmeðferð, muni búa við óviðunandi aðstæður eða eigi á hættu að verða fyrir pyntingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Píratar styðja beitingu Dyflinnar-reglugerðarinnar til verndar flóttamönnum frá pyntingum og annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð.

Ef umsækjandi á enga fjölskyldu fyrir í Evrópu ber yfirvöldum að skoða hvort umsækjandi fór ólöglega yfir landamæri eins aðildarríkjanna frá ríki sem ekki er aðili að reglugerðinni. Aðildarríkið sem farið var inn í ber þá ábyrgð á umsókninni. Þetta ákvæði gerir það að verkum að örfá ríki innan Evrópu bera ábyrgð á langflestum hælisleitendum innan álfunnar vegna landfræðilegrar staðsetningar sinnar. Um er að ræða t.d. Grikkland, Ítalíu, Möltu og Spán.

Aðstæður flóttamanna í Grikklandi eru svo slæmar að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur lýst því yfir að endursending flóttamanna til Grikklands á grundvelli Dyflinnar-reglugerðarinnar feli í sér ómannúðlega og vanvirðandi meðferð, í trássi við sáttmálann. Svipaða sögu er að segja af aðstöðu flóttamanna á Ítalíu, þar sem flóttamenn búa oft við skort, húsnæðisleysi og ósanngjarna málsmeðferð.

Í ljósi landfræðilegrar staðsetningar Íslands er mjög sjaldgæft að Ísland beri ábyrgð á hælisumsóknum samkvæmt ákvæðum Dyflinnar-reglugerðarinnar. Byrðin á þau lönd er eiga landamæri við Miðjarðarhaf er mjög þung og þau hafa ekki burði til þess að sinna öllu því fólki sem leita til þeirra dag hvern. Það er því algjört lágmark að Ísland sendi ekki flóttamenn til baka til Grikklands og Ítalíu þar sem aðstæður fyrir flóttamenn eru mjög slæmar.

Núverandi framkvæmd íslenskrar stjórnsýslu á endursendingarheimild Dyflinnar-reglugerðinnar er ekki alltaf í samræmi við reglugerðina sjálfa né alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar Íslands. Flóttamenn eru endursendir til Ítalíu þrátt fyrir mjög bágar aðstæður flóttamanna þar í landi. Fjölskyldum er sundrað í trássi við Dyflinnar-reglugerðina, Flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna sem og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Píratar eru alfarið á móti endursendingu hælisleitenda til Grikklands og Ítalíu sem og endursendingum sem sundra fjölskyldum.

Samfylkingin:

Samfylkingin styður endurskoðun á Dyflinnar-reglugerðinni. Eins og kom í ljós í flóttamannakrísunni í Evrópu á síðasta ári dreifðist flóttafólk með ójöfnum hætti um álfuna. Ríki Evrópu verða að axla sameiginlega ábyrgð á því að taka á móti fólki frá stríðshrjáðum löndum og Ísland á að taka þátt í því.

Sjálfstæðisflokkurinn: 

Dyflinnarsamstarfið byggir á Dyflinnarsamningnum (e. Dublin Convention) frá árinu 1990. Núgildandi reglugerð um Dyflinnarsamstarfið (nr. 604/2013) var samþykkt af Evrópuþinginu og ráðinu árið 2013. Markmið samstarfsins er að ákvarða hvaða ríki sé ábyrgt fyrir meðferð umsóknar einstaklings um alþjóðlega vernd og á að tryggja að hver einstaklingur fái skorið úr sínu máli á sanngjarnan hátt í einu ríkjanna. Einstaklingur getur því eingöngu sótt um og fengið afgreiðslu á umsókn sinni um alþjóðlega vernd hjá einu samstarfsríkjanna. Meginreglan er sú að samstarfsríki það þar sem umsókn um alþjóðlega vernd er fyrst lögð fram ber ábyrgð á umsókn einstaklings. Við komu umsækjanda um alþjóðlega vernd er kannað hvort viðkomandi hafi sótt um alþjóðlega vernd í öðru samstarfsríki og hvort það ríki beri ábyrgð á meðferð umsóknar.

Við mat á því hvort heimilt sé að endursenda umsækjanda þarf m.a. að kanna hvort aðstæður í viðtökuríki kunni að brjóta gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sé svo er óheimilt að senda umsækjandann þangað og skal þá taka umsókn viðkomandi til efnismeðferðar hér, sbr. 1. mgr. 17. gr. Dyflinnar-reglugerðarinnar. 

Þetta samstarf hefur ákveðinn tilgang. Vega þarf og meta kosti og galla þátttöku Íslands í Schengen á hverjum tíma. Sjálfstæðisflokkurinn telur veru Íslands í Schengen mikilvæga og þar með að þátttaka í Dyflinnarsamstarfi sé mikilvægur og í raun órjúfanlegur hluti samstarfsins.

Í þeim löndum þar sem veikleikarnir eru það miklir er fólk ekki sent til baka af stjórnvöldum. Endursendingum umsækjenda um vernd til Grikklands frá Íslandi var hætt árið 2010 vegna þess að aðstæður í gríska hæliskerfinu voru taldar ófullnægjandi. Hinn 15. október 2015 ákvað Útlendingastofnun að láta í bili af endursendingum umsækjenda um vernd til Ungverjalands. Var það gert í ljósi mikils og skyndilegs álags sem er á hæliskerfi landsins og vegna gagnrýni á aðstæður umsækjenda um vernd þar í landi. Í desember 2015 sendi innanríkisráðuneytið frá sér greinargerð um endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Ítalíu. Hafa einstaklingar sem teljast vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu ekki verið sendir til Ítalíu vegna aðstæðna og aðbúnaðar þar. Fylgst er vel með þróun mála í Evrópu og staðan er endurmetin eftir því sem þörf er á.

Viðreisn:

Viðreisn styður ekki að fólk sé sent til svæða þar sem aðbúnaður er ómannúðlegur eða þar sem lífi fólks eða öryggi er stefnt í hættu.

Vinstri grænir:

Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur til að hætt verði að endursenda fólk á grundvelli Dyflinnarsáttmálans. Það sé siðferðilega rangt að skýla sér á bak við Dyflinnarsáttmálann og síst til þess fallið að bæta vandann hnattrænt.

Á meðan Dyflinnar-reglunni er beitt býr fjöldi fólks við einangrun, stöðugan ótta við tafarlausan brottflutning og óhóflegar tafir á úrvinnslu umsókna.  Nauðsynlegt er að Ísland axli ábyrgð á forréttindastöðu sinni í alþjóðasamfélaginu og deili auðlegð sinni með þeim sem mest þurfa á því að halda. Það skýtur líka skökku við að á sama tíma og stjórnvöld hafi ákveðið að taka á móti flóttamönnum, séu margir sendir burt frá Íslandi á forsendum Dyflinnar-reglugerðarinnar. Við eigum ekki að þurfa að skoða einstaka mál fyrir sig, heldur þurfum við að skoða málefni hælisleitenda og flóttamanna heildrænt, koma á flýtimeðferð við úrvinnslu mála, endurskoða beitingu Dyflinnar-reglugerðarinnar og setja okkur framtíðarmarkmið í málefnum flóttamanna og hælisleitenda. Bæði flóttamenn og hælisleitendur eiga það sammerkt að þeir búa við ógnanir í heimalandi sínu og eru þess vegna að sækja um alþjóðlega vernd. Það er skoðun VG að tryggja að við fylgjum þeim sjónarmiðum sem Ísland er aðili að í gegnum mannréttindayfirlýsingu SÞ um að hver og einn maður eigi rétt á að lifa því besta mögulega lífi sem hægt er og það skipti ekki máli af hvaða uppruna fólk er.

Það eru milljónir á flótta í heiminum. Til að mynda …
Það eru milljónir á flótta í heiminum. Til að mynda þessir Sýrlendingar en í heimalandi þeirra hefur geisað stríð í rúmlega fimm ár. AFP

Tæplega 74% aðspurðra í könnun Maskínu voru sammála þeirri fullyrðingu að íslensk stjórnvöld ættu að gera meira til að hjálpa þeim sem eru á flótta undan stríði eða ofsóknum. Þeir svarendur sem voru ósammála fullyrðingunni voru rúm 26%. 

Samkvæmt könnun Maskínu eru konur mun líklegri til að styðja þá fullyrðingu að íslensk stjórnvöld ættu að gera meira til að hjálpa fólki sem flýr stríð eða ofsóknir eða 81,5% á móti 66,5% karlmanna. 

Þá töldu tæp 83,5% aðspurðra yngri en 25 ára að íslensk stjórnvöld ættu að gera meira til að aðstoða fólk sem flýr stríð eða ofsóknir og rúm 66% aðpurðra á aldrinum 35-44 ára voru sammála fullyrðingunni.

Björt framtíð:

Í samræmi við ályktun landsfundar 2015 mun Björt framtíð beita sér fyrir móttöku fleiri flóttamanna en hingað til hefur verið gert.

Framsóknarflokkurinn:

Í ríkisstjórnartíma Framsóknarflokksins hefur verið tekið á móti hópum flóttamanna frá Sýrlandi. Sú stefna hefur reynst vel og stefnt er að því að bjóða fleiri slíkum hópum til landsins frá flóttamannabúðum í löndunum í kring um Sýrland, þar sem neyðin er mest, í samvinnu við fagaðila eins og Rauða krossinn og Flóttamamannahjálp SÞ. Að sama skapi er augljóst að fjöldi hælisleitenda mun aukast næstu ár og mikilvægt er að bregðast við þeirri áskorun á afgerandi hátt.

Píratar:

Fyrst og fremst þurfum við að virða alþjóðlegar skuldbindingar og vera sátt við okkar framlag til mannúðar sem þjóð. Alþjóðastofnanir hafa gefið út viðmið um æskilegan fjölda flóttamanna sem lönd ættu að reyna taka við á ári og til þessa hefur Ísland alltaf verið undir því viðmiði. Alls hafa 64 ein­stak­ling­ar fengið stöðu flótta­manns eða dval­ar­leyfi af mannúðarástæðum eft­ir um­sókn um hæl­i á þessu ári en Rauði krossinn hefur sagt það raunhæft að Ísland taki við nokkur hundruð flóttamönnum á árunum 2016-2018. Við getum því gert betur og það án þess að færast of mikið í fang. Píratar munu því beita sér fyrir því að Ísland leggi sitt af mörkum.

Samfylkingin:

Við munum taka á móti fleira flóttafólki frá stríðshrjáðum löndum, enda þörfin gríðarleg og fer vaxandi. Við erum opin og gestrisin þjóð. Við höfum tekið vel á móti fjölda flóttafólks og getum gert það áfram. 

Sjálfstæðisflokkurinn:

Árið 2015 sóttu 354 um vernd á Íslandi og hlutu 82 þeirra vernd. Aldrei áður hafa jafnmargir hlotið vernd þó að meirihluta umsókna sé synjað. Skýrist synjunarhlutfallið af því hversu hátt hlutfall umsókna kemur frá löndunum á vesturhluta Balkanskaga (42% umsókna). Synjunarhlutfall er almennt mjög hátt meðal þessa hóps bæði hér á landi, sem og almennt í ríkjum Vestur-Evrópu eða að meðaltali í kringum 98%.

Ný lög um útlendinga voru samþykkt á Alþingi nú í vor, af öllum flokkum og í þverpólitískri sátt. Markmiðið með endurskoðun útlendingalaga var að tryggja betur en áður að mannúð, jöfnuður og skilvirkni ríki við meðferð stjórnvalda í málefnum útlendinga hér á landi, sem og að koma til móts við margbreytilegar þarfir íslensks samfélags, þar á meðal atvinnulífsins og háskólasamfélagsins. Ný löggjöf tekur þannig annars vegar mið af og samræmir þarfir íslensks samfélags með tilliti til hagvaxtar, aukinnar kröfu um samkeppnishæfni á alþjóðavísu og hins vegar mannúðar og réttindaverndar þeirra sem hingað koma. Breytingar hafa verið gerðar til að einfalda umsókna- og afgreiðsluferli hælisumsókna, hraða málsmeðferð og skýra ýmsa óvissuþætti, m.a. til að tryggja að stjórnsýslan sé betur í stakk búin til að takast á við aukinn fjölda umsækjenda. Auk þessa eru ýmsar breytingar og uppfærslur í samræmi við alþjóðlega staðla og þróun.

Ný útlendingalög breyta ekki í aðalatriðum þeim skilgreiningum sem stuðst er við þegar umsókn um vernd er metin. Eftir sem áður er notast við flóttamannahugtak Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Ísland er bundið af sömu alþjóðasamningum og áður og er því ekki um efnislegar breytingar að ræða varðandi mat á umsóknum. Nýju lögunum er ætlað að standa vörð um þá stefnu að veita þeim vernd sem hennar þurfa og ekki síður að bregðast með skýrum og skilvirkum hætti við þeim umsóknum sem eru tilhæfulausar.

Viðreisn:

Viðreisn viðurkennir ábyrgð Íslands í samfélagi þjóðanna og mun beita sér fyrir því að tekið verði á móti þeim fjölda flóttamanna sem samfélagið og innviðir þess geta borið.

Vinstri grænir:

Vinstri hreyfingin grænt framboð mun beita sér fyrir því að Ísland taki á móti fleiri flóttamönnum en hingað til hefur verið gert. 

Bengt Lindroth, rithöfundur og fyrrverandi fréttamaður og fréttastjóri.
Bengt Lindroth, rithöfundur og fyrrverandi fréttamaður og fréttastjóri. mbl.is/Rax

Bengt Lindroth segir að flóttamannastraumurinn til Evrópu hafi aukið enn á vanda Evrópusambandsins sem glímdi við næg vandamál fyrir. Hann segir sambandið ekki virka eins og það eigi að gera og segist spyrja sjálfan sig hvað hafi orðið um friðarbandalagið sem ESB var ætlað að vera.

Afar truflandi er að sjá mismundi áherslur ríkja í Evrópu í móttöku flóttafólks, segir Lindroth, og tekur Breta sem dæmi en þeir taka við mjög fáum flóttamönnum. Þeir reyni að afsaka það með því að það séu svo margir sem eru að reyna að komast til Bretlands sem innflytjendur og það sé erfitt fyrir þá að taka við fleirum þar fyrir utan. 

Mjög margir íbúar ríkja innan ESB og Evrópska efnahagssvæðisins hafi komið til Bretlands í von um vinnu og bætt lífskjör. Þar megi nefna Pólverja en milljónir Pólverja búa og starfa í Bretlandi. Lindroth segir að bresk yfirvöld geri engan greinarmun á hvort þú komir frá Póllandi eða Afganistan. Þeir líti alla útlendinga sömu augum og það oft mjög neikvæðum augum og telja útlendinga stela störfum þeirra og velferðarkerfinu frá þeim. 

Björt framtíð:

Eitt af því sem þingmenn Bjartrar framtíðar hafa gagnrýnt eru fjárveitingar á fjárlögum til málaflokksins. Þannig þurfi að auka verulega við þær til að okkur auðnist að vinna verkefnið með ásættanlegum hætti. Björt framtíð mun því beita sér fyrir því að auknu fé verði varið til  málaflokksins.

Framsóknarflokkurinn:

Ríkisstjórnin lagði 2 milljarða í málefni flóttamanna fyrir árin 2015. Það er ljóst að aukinn fjöldi hælisleitenda mun kalla á auknar fjárveitingar. Einnig er mikilvægt að auknu fé verði veitt til móttöku flóttamannahópa úr flóttamannabúðum á stríðshrjáðum svæðum og að halda áfram því mikillvæga starfi sem Íslendingar vinna og styðja þar sem neyðin er mest.

Pírtatar:

Veita þarf nægt fé til tungumálakennslu og áfallahjálpar fyrir þá sem hingað koma. Með því að stefna strax að fullri þátttöku þeirra sem leita hingað í samfélaginu og þá sérstaklega atvinnulífinu mun þó ekki þurfa eins mikla fjármuni og sumir óttast. Það hefur ekki komið til tals að auka eða minnka það fé sem lagt er í þennan málaflokk. En við leggjum áherslu á að íslenskunám, áfallahjálp og borgararéttindi séu tryggð.

Samfylkingin:

Það verður nauðsynlegt að leggja meira fé í málaflokkinn ef fjölga á svokölluðu kvótaflóttafólki, þ.e. fólki sem býr í flóttamannabúðum og er boðið að koma hingað til lands. En jafnframt er straumur hælisleitenda sem koma hingað af sjálfsdáðum að aukast og það þarf að leggja fé í að flýta meðferð umsókna þeirra og gera móttökuna sem mannúðlegasta.

Sjálfstæðisflokkurinn:

Verulega auknu fé hefur verið varið í hæliskerfið (sem heyrir undir innanríkisráðuneytið). Meðfylgjandi mynd sýnir þróun fjárheimilda til alls málaflokksins, þ.e. útlendingamála, sem heyrir undir innanríkisráðuneytið. Mest aukning hefur verið vegna aukins fjölda hælisumsókna. Árið 2011 námu fjárveitingar til málaflokksins 314 m. kr. en það ár sóttu 76 um hæli hér á landi. Árið 2015 voru hælisleitendur 354 sem er aukning um 366%. Sama ár námu fjárheimildir til málaflokksins 1.323 m.kr. sem er aukning um 260%. Það hefur því verið lagt verulega aukið fé til málaflokksins sl. ár.

Viðreisn:

Það fylgir auknum áherslum á málefni flóttafólks að meira fé þarf að leggja í málaflokkinn. Þó er rétt að benda á að styttri meðferðartími í kerfinu sparar fé sem annars fer í að halda umsækjendum uppi og þegar fólki er auðveldað að komast á vinnumarkað skilar það sér margfalt til baka, bæði í formi skattfjár og almennrar velferðar. Aukin fjárframlög til málaflokksins kunna því að leiða til sparnaðar fyrir samfélagið ef rétt er staðið að.

Vinstri grænir:

Í samræmi við áherslur sínar um að taka á móti fleiri flóttamönnum en nú ert gert, mun Vinstri hreyfingin – grænt framboð beita sér fyrir því að auka fé til málaflokksins til að uppfylla alþjóðlegar og siðferðislegar skyldur okkar er varðar móttöku flóttafólks. Nýting og dreifing fjármuna í málaflokkinum verði með faglegum hætti og til að byggja upp líf flóttafólks svo það megi dafna og búa við frið og öryggi hér á landi.

Fjárheimildir til útlendingamála og hælisleitenda.
Fjárheimildir til útlendingamála og hælisleitenda. Innanríkisráðuneytið

Bengt Lindroth segist taka undir margt sem Morten Østergaard, þingmaður Radikal venstre í Danmörku og fyrrverandi ráðherra, segir en hann hefur ítrekað rætt um málefni flóttafólks í þinginu sem og fjölmiðlum.

Østergaard gagnrýnir aðgerðaleysi Evrópusambandsins í málefnum flóttafólks og telur að tryggja verði betur gæslu á ytri landamærum Schengen-svæðisins svo ekki þurfi að reiða sig á góðvild Tyrkja hvað varðar komu fólks yfir Miðjarðarhafið.

Lindroth segist sammála Østergaard um að setja eigi háar fjárhæðir í flóttamannaaðstoð meðal ríkja Evrópu en þeir fjármunir eiga að renna í flóttamannabúðir í nágrannaríkjum Sýrlands, Afganistan og Íraks.

Þar eigi að bjóða fólki upp á mannsæmandi líf. Meðal annars með góðum skólum fyrir börn á flótta og heilbrigðisþjónustu. Strax við komuna eigi að taka vel á móti fólki sem er að flýja hörmungar heima fyrir og ríki ESB eigi að koma að rekstri slíkra búða í samstarfi við Rauða krossinn og Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna.

„Ein ástæða þess að fólk leggur á sig hrikalegt ferðalag til Evrópu er hversu illa er búið að flóttafólki á þessum slóðum,“ segir Lindroth og bendir á að ekki sé hægt að ætlast til þess að þessi ríki, sem kannski hafa þegar tekið við fleiri hundruð þúsund flóttamönnum standi ein að móttökunnni enda séu þau ekki fær um það.

Morten Østergaard, þingmaður Radikale venstre í Danmörku.
Morten Østergaard, þingmaður Radikale venstre í Danmörku.

Lindroth telur að tryggja eigi þeim flóttamönnum sem þegar eru komnir til Evrópu rétt á að komast inn á vinnumarkaðinn og aðstoða fólk við að fá vinnu við hæfi, svo sem í samræmi við menntun þeirra.

„Flóttamannastraumurinn hefur ekki stöðvast og mun ekki gera það á næstunni. Flóttafólk sem þegar er komið til Evrópu frá Sýrlandi er ekki á leiðinni heim aftur á næstunni. Það sjái allir sem kynni sér stöðu mála þar,“ segri Lindroth.

Hann segist telja að með því að veita fólki á flótta góðan aðbúnað í nágrannaríkjum heimalandsins er meiri möguleiki fyrir fólk að snúa aftur heim þegar stríðinu lýkur.

„Það er hins vegar ekki gert nema með því að vestræn ríki taki sig saman um að veita þjáðri þjóð, eins og Sýrlendingum, aðstoð. Evrópusambandið getur gert miklu meira og það sama á við um mörg ríki, svo sem Bandaríkin,“ segir Lindroth.

Björt framtíð:

Björt framtíð leggur áherslu á að taka á móti fólki sem býr við erfiðastar aðstæður, ekki síst konum og börnum. Þeir hópar koma gjarnan frá Sýrlandi og nærliggjandi löndum þar sem stríðsástand er alvarlegast. Með því útilokum við þó enga hópa en teljum að það sé brýnt að horfa sérstaklega til þessara hópa sem minnsta björg geta sér veitt.

Framsóknarflokkurinn:

Áhersla Framsóknarflokksins hefur verið að vinna að fólksflutningavandanum á heildstæðan hátt þar sem tekið sé á málefnum flóttamanna sem boðið er til Íslands, hælisleitenda og annarri alþjóðlegri aðstoð sem Íslendingar veita á heildstæðan hátt. Skv. ábendingum Rauða krossins og Flóttamannahjálpar SÞ er gífurleg þörf fyrir aðstoð í flóttamannabúðum í kringum Sýrland. Að sama skapi er augljóst að fjöldi hælisleitenda mun aukast næstu ár og mikilvægt er að Íslendingar bregðist við þeirri áskorun á afgerandi hátt.

Að auki er rétt að benda á samþykkt 33. flokksþings Framsóknarflokksins 2015 um málefni innflytjenda og flóttamanna þar sem segir m.a.:

Framsóknarflokkurinn berst fyrir mannréttindum, virðingu fyrir einstaklingnum og fjölskyldunni og hafnar hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki t.d. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða stjórnmálaskoðunum eða stöðu að öðru leyti. Umfjöllun um mannréttindi fléttast að öðru leyti inn í aðra kafla í ályktun þessari.

Framsóknarflokkurinn vill stuðla að samfélagi þar sem allir geta verið virkir þátttakendur og hafi jöfn réttindi óháð þjóðerni og uppruna. Mikilvægt er að við móttöku útlendinga sé unnið með mannréttindi að leiðarljósi, að framkvæmd laga sé skilvirk og vel sé staðið að skipulagi hvort sem er vegna umsókna um dvöl, atvinnuréttindi eða þjónustu samfélagsins.

Leggja þarf áherslu á góða upplýsingagjöf opinberra aðila til innflytjenda. Þjónusta skóla og velferðarkerfis þarf að taka mið af auknum hreyfanleika fólks milli landa og huga þarf að þörfum innflytjenda, eins og annarra hópa samfélagsins, við opinbera stefnumótun og aðgengi að opinberri þjónustu. Mikilvægt er að skipulag menntakerfisins tryggi að fullorðnir innflytjendur eigi greiðan aðgang að námi í íslensku og fræðslu um íslenskt þjóðfélag. Enda er þekking á tungumálinu og þjóðfélaginu lykill að virkri þátttöku í samfélaginu.

Tryggja þarf aðgengi að þjónustu túlka og samfélagstúlka eftir því sem við á. Nauðsynlegt er að tvítyngdir nemendur leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla eigi kost á námi í íslensku og eigin móðurmáli. Tryggja þarf að fjölbreytt forvarna- og átaksverkefni nái til tvítyngdra barna. Leita þarf leiða til að auka þátttöku barna og ungmenna af erlendum uppruna í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi og vinna þarf markvisst gegn brottfalli innflytjenda úr framhaldsskólum.

Framsóknarflokkurinn vill stuðla að því að fjölbreyttur bakgrunnur fólks leiði til betri og samkeppnishæfari vinnumarkaðar og að ólík færni starfandi fólks ýti undir framþróun atvinnulífs og skili þannig árangri fyrir samfélagið allt. Brýnt er að fólki af erlendum uppruna séu kynnt réttindi og skyldur bæði starfsmanna og vinnuveitenda. Auka þarf möguleika innflytjenda til að fá menntun sína metna hérlendis enda er menntun þeirra auður sem gæti nýst öllu samfélaginu til hagsbóta.

Bæta þarf tækifæri innflytjenda til þátttöku í félagsstarfi, lýðræðislegri umræðu og stjórnmálum. Stuðla þarf að faglegri, vandaðri og upplýsandi umfjöllun um málefni innflytjenda og þátttöku þeirra í samfélaginu. Leggja skal áherslu á að draga fram tækifærin sem felast í ólíkum menningarlegum bakgrunni landsmanna og nýta þekkingu innflytjenda til að efla íslenskt samfélag. Mikilvægt er að efla stuðningsnet innflytjenda og vinna þarf markvisst gegn ofbeldi í garð innflytjenda.

Íslendingar þurfa að halda áfram að sýna ábyrgð í samfélagi þjóðanna við móttöku á flóttafólki og fagnar flokksþingið þeim áherslum sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur lagt á móttöku minnihlutahópa, m.a. með móttöku hinsegin fólks og kvenna í hættu. Af mannúðarástæðum er mikilvægt að flýta málsmeðferð og lokaniðurstöðum í málefnum hælisleitenda.

Framsóknarflokkurinn hefur væntingar um að starf þverpólitískrar þingmannanefndar sem vinnur að umbótum í útlendingamálum skili árangri og fagnar þeim skrefum sem stigin hafa verið á kjörtímabilinu til skilvirkari vinnu á þessu sviði.

Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að alþjóðlegir samningar og skuldbindingar séu hafðar að leiðarljósi, m.a. mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna, alþjóðasamningur um afnám alls kynþáttamisréttis, samningur Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gegn konum, samningur Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna.

Framsóknarflokkurinn styður mannréttindi í sinni víðustu mynd og hafnar mismunun í hvaða mynd sem er.

Píratar:

Hver flóttamaður er manneskja, einstaklingur sem nýtur réttinda rétt eins og við öll. Við gerum ekki greinarmun á flóttafólki eftir uppruna þeirra.

Hafa skal það í huga að það er jákvætt fyrir okkur að taka á móti manneskjum sem vilja koma hingað og verða partur af íslensku samfélagi. Sérstaklega ef þær koma hingað með menntun og þekkingu.

Samfylkingin:

Brýnast er náttúrulega að bjóða fólki sem býr við hörmulegar aðstæður í flóttamannabúðum að komast í öruggt skjól. Staða margra Sýrlendinga í Evrópu er líka slæm og sjálfsagt að skoða það en með það að leiðarljósi að forgangsraða eftir þörf, þar sem við getum.

Sjálfstæðisflokkurinn:

Við styðjum að tekið sé á móti flóttamönnum frá stríðshrjáðum svæðum eins og við þekkjum frá Sýrlandi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur, með þátttöku sinni í ríkisstjórn, stutt dyggilega við að tekið sé á móti flóttamönnum frá Sýrlandi, svokölluðum kvótaflóttamönnum og mun gera það áfram.

Viðreisn:

Viðreisn mun beita sér fyrir því að jafnræðis verði gætt við úrlausn mála fólksins sem hingað leitar.

Vinstri grænir:

Hér er vísað til svars varðandi Dyflinnarreglugerðina hér að framan en þar kemur meðal annars fram að Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur til að hætt verði að endursenda fólk á grundvelli Dyflinnarsáttmálans. Það sé siðferðislega rangt að skýla sér á bak við Dyflinnarsáttmálann og síst til þess fallið að bæta vandann hnattrænt.

Að lokum má nefna að fulltrúar VG tóku virkan þátt í vinnu við ný útlendingalög og bindum við vonir við að þau leiði til almennra úrbóta í þessum málaflokki, segir í skriflegu svari frá Vinstri grænum.

Sýrlenskir flóttamenn í Kokkinotrimithia-flóttamannabúðunum skammt frá höfuðborg Kýpur, Nicosia.
Sýrlenskir flóttamenn í Kokkinotrimithia-flóttamannabúðunum skammt frá höfuðborg Kýpur, Nicosia. AFP

Tekið skal fram að sex samhljóða spurningar voru sendar á stjórmálaflokkana sjö sem svöruðu þeim skriflega. Það eru þau svör sem birtast hér.

Frá því síðdegis á mánudag hefur vopnahlé gilt í Sýrlandi og virðist það hafa haldið að mestu. Að minnsta kosti hafa ekki borist fregnir af mannfalli meðal almennra borgara. Hluti samkomulagsins felur í sér að hjálpargögnum verði komið til bágstaddra og standa vonir til þess að hægt verði að hefja flutning þeirra til borga eins og Aleppo í dag. Þar eru um 250 þúsund almennir borgarar lokaðir inni en borgin er að hluta undir yfirráðum stjórnvalda en að hluta undir yfirráðum stjórnarandstæðinga.

Stefnt er að vikulöngu vopnahléi en þrátt fyrir fögur fyrirheit oft áður hafa slíkir samningar alltaf verið brotnir og átök blossað upp á nýjan leik. En fyrir íbúa landsins getur þetta verið spurning um líf eða dauða, ekki bara pennastrik á blaði. 

Hvort sem friður kemst á í Sýrlandi eður ei er ljóst að flóttamenn verða áfram til staðar. Því Sýrland er ekki eina ríkið í heiminum sem glímir við slíkt ástand. Sérfræðingar telja að fólki sem flosnar burt frá heimaslóðum sínum vegna loftslagsbreytinga eigi eftir að fjölga næstu árin ef ekkert verður að gert. 

AFP
Frá Aleppo.
Frá Aleppo. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert