Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tók fyrstur frambjóðenda til máls á tvöföldu kjördæmisþingi Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi sem nú stendur yfir í Skjólbrekku í Mývatnssveit.
Frétt mbl.is: Höskuldur vegur hart að Sigmundi
„Ég er ekki sjálfur fullkominn maður og sannarlega ekki fullkominn stjórnmálamaður. Stjórnmálamaður á ekki aðeins að bæta sig sem stjórnmálamaður heldur einnig sem manneskja, og það mun ég gera,“ sagði Sigmundur Davíð í kynningarræðu sinni.
„Það verður að okkur sótt, við vitum það. Það verður sótt að mér og það verður sótt að okkur öllum,“ sagði Sigmundur jafnframt ,en segir hann sig og flokkinn taka því fagnandi enda þiggi hann alla athygli. Kvaðst hann vita að fast yrði skotið í kosningabaráttunni en „því fastar sem verður skotið því betra.“
Frétt mbl.is: Sigmundi spáð sigri
Í ræðu sinni vék Sigmundur jafnframt að baráttunni við alþjóðafjármálakerfið sem hann segir hafa náð allt of miklu valdi á kostnað almennings. Sagði Sigmundur að þar hafi einn flokkur, Framsóknarflokkurinn, haft betur og það ekki bara einu sinni heldur þrisvar.
„Það hefur verið átaka tími í stjórnmálum á Íslandi en við höfum náð ótrúlegum árangri,“ sagði Sigmundur. Þá ræddi hann jafnframt málefni eldri borgara og heilbrigðismál þar sem hann telur Framsóknarflokkinn geta lagt sitt af mörkum til úrbóta.