Endanlegur listi afgreiddur á morgun

Ljósmynd/Birkir Fanndal

Segja má að þröngt hafi verið á þingi á tvöföldu kjördæmisþingi Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi sem fram fór í Skjólbrekku í Mývatnssveit í dag. Listi liggur fyrir yfir fimm efstu sætin í kjördæminu en kjörstjórn vinnur nú að því að fullklára listann. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hlaut afgerandi kosningu í fyrsta sæti listans og marka mátti af andrúmsloftinu á þinginu að Sigmundur nýtur gríðargóðs stuðnings í kjördæminu.

Endanlegur listi afgreiddur á morgun

„Það gekk bara mjög vel fyrir sig og kannski á betri tíma heldur en við ætluðum,“ segir Eyþór Elíasson, formaður kjörstjórnar Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, í samtali við mbl.is. Þingið hófst stundvíslega klukkan 11 í dag og því lauk um klukkan 15:30.

„Það var að vísu þröngt á okkur en þetta gekk allt saman vel í góðu samstarfi við þingfulltrúa,“ segir Eyþór. Hann ætlar að kosningaþátttaka hafi verið í kringum 70% en flestir greiddu 238 fulltrúar atkvæði af um 370 manns sem gátu tekið þátt.

„Nú er það hlutverk okkar í kjörstjórn að klára listann og við leggjum hann fram til afgreiðslu fyrir reglubundið kjördæmisþing sem fram fer á morgun.“

Afgerandi stuðningur við Sigmund

Kjör í efstu fimm sæti listans var eina málið á dagskrá þingsins sem hófst með kynningarræðum frambjóðenda er sóttust eftir 1. sæti. Sigmundur Davíð kvaddi sér fyrstur hljóðs þar sem hann fór um víðan völl, en lagði þó einna helst áherslu á árangur Framsóknarflokksins á yfirstandandi kjörtímabili og vék að því að líklega verði hart skotið í komandi kosningabaráttu í ljósi atburða undanfarinna missera. Þegar Sigmundur hafði lokið ræðu sinni reis fólk úr sætum og klappaði ákaflega fyrir formanninum.

Fréttmbl.is: „Ég er ekki fullkominn maður“

Höskuldur í ræðustól á kjördæmisþinginu.
Höskuldur í ræðustól á kjördæmisþinginu. Ljósmynd/Birkir Fanndal

Höskuldur Þórhallsson var beittur í garð Sigmundar Davíðs í ræðu sinni þar sem hann tók fram að hann teldi að Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, vera besta kost Framsóknarflokksins til að gegna forystu. Sagði hann trúnaðarbrest ríkja milli Sigmundar Davíðs, þingmanna, framsóknarmanna og þjóðarinnar eins og hún leggur sig. Ekki er laust við að andrúmsloftið hafi verið rafmagnað í salnum þegar Höskuldur lauk máli sínu, sem þó hlaut þó nokkuð lófatak, en heyra mátti skvaldur og lágt hvísl víða um salinn.

Frétt mbl.is: Höskuldur vegur hart að Sigmundi

Það kvað heldur við annan tón í ræðum þeirra Þórunnar Egilsdóttur og Líneikar Önnu Sævarsdóttur. Báðar töluðu þær meira um feril sinn í stjórnmálum, reynslu sína, bakgrunn og menntun og hugsjónir sínar og þau málefni er þær brenna fyrir. Þær Þórunn og Líneik sóttust eftir 1.- 2. sæti og 1.-3. sæti og var þeim jafnframt fagnað dátt er þær höfðu lokið máli sínu. Svo fór að lokum að Þórunn hafnaði í 2. og Líneik í því 3. 

Frétt mbl.is: Þórunn styður formanninn

Frétt mbl.is: Líneik segir markmiðinu náð

Talsverð spenna ríkti í loftinu þegar formaður kjörstjórnar steig í pontu til að kunngera úrslit kosninga um fyrsta sætið. Þegar ljóst varð að Sigmundur Davíð hafi hlotið afgerandi kosningu með rúm 72% atkvæða ætlaði allt um koll að keyra og var honum fagnað dátt og innilega. Tók það fjölmiðlafólk á svæðinu því nokkurn tíma að komast að Sigmundi Davíð til að ná af honum tali þar sem hamingjuóskunum rigndi yfir hann. 

Margrét Jónsdóttir og Höskuldur Þórhallsson.
Margrét Jónsdóttir og Höskuldur Þórhallsson. Ljósmynd/Birkir Fanndal

Höskuldur kveður

Þegar komið var að framsögum frambjóðenda er gáfu kost á sér í 2. sæti á lista kvaddi Höskuldur sér meðal annars hljóðs þar sem hann tilkynnti að hann myndi ekki sækjast eftir sæti á listanum, lýsti yfir vonbrigðum sínum með úrslitin um fyrsta sæti og þakkaði samstarfsfólki sínu á þingi fyrir samstarfi. Höskuldur var nokkuð meir í máli sínu en eftir því sem blaðamaður kemst næst fór hann úr húsi að ræðunni lokinni.

Frétt mbl.is: Höskuldur hættir á þingi

Sem fyrr segir er það nú í höndum kjörstjórnar að klára listann og verður hann lagður fyrir hefðbundið kjördæmisþing á morgun en hér neðst í fréttinni má finna helstu úrslit kosninganna í dag samkvæmt þeim upplýsingum er fyrir liggja hjá kjörstjórn.

1. sæti á lista Framsóknarflokks í NA-kjördæmi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson 72,34%

Þórunn Egilsdóttir 16,6%

Höskuldur Þórhallsson 10,2%

Líneik Anna Sævarsdóttir 0,85%

2. sæti

Í kjöri voru þau Líneik Anna Sævarsdóttir, Þórunn Egilsdóttir og Hjálmar Bogi Hafliðason. Þau Líneik og Hjálmar dróu framboð sitt í 2. sæti til baka og var Þórunn því réttkjörin í sætið. Kosning fór ekki fram.

3. sæti - 1. umferð:

Líneik Anna Sævarsdóttir 45,9%

Sigfús Karlsson 28,2%

Hjálmar Bogi Hafliðason 25,9%

3. sæti - 2. umferð:

Líneik Anna Sævarsdóttir 67,14%

Sigfús Karlsson 32,86%

4. sæti

Sigfús Karlsson u.þ.b. 57%

Hjálmar Bogi Hafliðason u.þ.b. 42%

Margrét Jónsdóttir hlaut 3 atkvæði.

5. sæti

Margrét Jónsdóttir var ein í framboði til 5. sætis á lista og var hún því réttkjörin í sætið. Ekki fór fram kosning.

Frá kjördæmisþinginu í Mývatnssveit.
Frá kjördæmisþinginu í Mývatnssveit. Ljósmynd/Birkir Fanndal
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert