Þórunn styður formanninn

Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.
Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins. Af vef Framsóknarflokksins

„Ég bara er mjög þakklát að hafa fengið þennan mikla stuðning í annað sætið og er bara stolt af því og þakklát fyrir það,“ segir Þórunn Egilsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, í samtali við mbl.is. Þórunn hreppti annað sæti á lista flokksins í Norðausturkjördæmi á tvöföldu kjördæmisþingi sem nú stendur yfir í félagsheimilinu Skjólbrekku í Mývatnssveit en segist Þórunn styðja formann flokksins, sem hún bauð sig fram gegn í fyrsta sæti listans.

Frétt mbl.is: Sigmundur með afgerandi forystu

Þórunn sóttist eftir 1.-2. sæti á lista en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson bar afgerandi sigur úr bítum í fyrsta sætið. Þórunn hlaut næstflest atkvæði í fyrsta sætið, 16,6%, sem þó er langt frá tæpum 73% Sigmundar Davíðs. Þrír aðrir gáfu kost á sér í 2. sæti en drógu þeir allir framboð sitt til baka og var Þórunn því sjálfkjörin í 2. sætið.

Spurð hvort úrslitin hafi komið sér á óvart segir Þórunn aldrei vera neitt gefið í þessum efnum. Það á enginn neitt gefið í þessu þannig að „Það bara kemur í ljós alltaf þannig að ég svo sem vissi ekki neitt frekar en aðrir hvernig það myndi fara,“ segir Þórunn.

Segist styðja formanninn

Innt eftir því hvort hún hafi gefið kost á sér í 1. sæti listans þar sem hún teldi Sigmund Davíð ekki fýsilegan kost til að leiða listann í komandi kosningum segir Þórunn svo ekki vera. „Ég vildi bara bjóða upp á fleiri valkosti, flokksmenn kölluðu mikið eftir því og það var bara á þeim grunni sem ég bauð mig fram,“ útskýrir Þórunn og bætir við að hún styðji formann flokksins.

„Nei, það ætla ég ekki að gera,“ segir Þórunn, spurð hvort hún hafi sjálf hug á því að gefa kost á sér til forystu flokksins á flokksþingi sem fram fer í byrjun október. Þá segir Þórunn það verða að koma í ljós hvort Sigurður Ingi muni gefa kost á sér í hlutverk formanns flokksins. „Nú get ég ekki svarað fyrir hann, það kemur bara í ljós og þá velja flokksmenn þá forystu sem þeir vilja,“ segir Þórunn að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert