Deilt um völd og pólitíska fortíð

Deilur í röðum Pírata gengu svo langt fyrr á þessu …
Deilur í röðum Pírata gengu svo langt fyrr á þessu ári að Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður flokksins, sá ástæðu til þess að lýsa samskipum innan hans við ofbeldissamband. mbl.is/Hjörtur

Miklar deilur hafa geisað í röðum Pírata að undanförnu í tengslum við prófkjör flokksins í Norðvesturkjördæmi sem keimlíkar eru fyrri deilum innan hans. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, og fleiri í forystu flokksins hafa verið sakaðir um að hafa haft óeðlileg afskipti af prófkjörinu. Hringt hafi verið í trúnaðarfólk Pírata í kjördæminu og farið þess á leit að niðurstöðum prófkjörsins yrði breytt þannig að frambjóðendur þeim þóknanlegir skipuðu efstu sæti framboðslista flokksins. Meðal annars að þeir sem hlutu kosningu í efstu sætin færðu sig neðar á listann.

Fullyrt er að þegar ekki hafi verið orðið við þessum kröfum hafi þessir forystumenn beitt sér fyrir því að framboðslistanum yrði hafnað og kosningarnar endurteknar með kosningu á landsvísu. Sem síðan varð raunin. Áður en kosið var um nýjan lista drógu nokkrir frambjóðendur sig í hlé. Þar á meðal Þórður Guðsteinn Pétursson sem kosinn hafði verið oddviti framboðslistans í upphaflegu kosningunni. Hann hafði verið harðlega gagnrýndur af forystufólki í Pírötum. Þar á meðal af Birgittu. Var hann einkum sakaður um að brjóta reglur með því að smala í prófkjörið. Einnig kom fram í umræðunni að hann hefði áður verið á framboðslista hjá framsóknarmönnum.

Þeir sem gagnrýnt hafa Birgittu og fleiri forystumenn Pírata eru nokkrir núverandi og fyrrverandi trúnaðarmenn Pírata í Norðvesturkjördæmi. Þar á meðal Lilja Magnúsdóttir, fyrrverandi fulltrúi í kjördæmisráði Pírata í Norðvesturkjördæmi, og Hafsteinn Sverrisson, fyrrverandi varaformaður Pírata í kjördæminu. Birgitta hefur vísað þessum ásökunum á bug. Hún hafi engar slíkar skipanir gefið. „Því sem er haldið þarna fram er særandi og á ekki við nein rök að styðjast,“ sagði hún á Pírataspjallinu. „Ég hafna þessum ásökunum en vil ekki taka slag við félaga mína í fjölmiðlum.“

Gagnrýnir framboðslistann áfram

Deilurnar urðu til þess að einn þeirra, sem gagnrýnt höfðu hvernig staðið var að málum í Norðvesturkjördæmi, Ágúst Smári Beaumont, fundaði með Birgittu og Sigríði Bylgju Sigurjónsdóttur, framkvæmdastjóra Pírata um stöðuna sem upp væri komin. Eftir fundinn var send út sameiginleg yfirlýsing þess efnis að Ágúst hefði beðist afsökunar á ásökunum sínum í garð Birgittu og að enginn fótur væri fyrir þeim. Um misskilning hefði verið að ræða. Birgitta hefði hringt í hann til þess að ræða prófkjörið en ætlunin hafi ekki verið að gefa fyrirskipanir í þeim efnum.

Jafnframt kom fram í yfirlýsingunni að Ágúst hefði lýst yfir fullum stuðningi við framboðslistann sem samþykktur var eftir að þeim fyrri var hafnað. Sama dag tilkynnti Ágúst á Twitter-síðu sinni að afskiptum sínum af stjórnmálum væri lokið. Á laugardaginn sendi Ágúst hins vegar frá sér yfirlýsingu þar sem hann ítrekaði fyrri gagnrýni á síðari framboðslistann og framkvæmd prófkjörsins. Sakaði hann Pírata um tvöfalt siðgæði. Smölun væri leyfð ef hún hentaði flokksmönnum fyrir sunnan. Þórður hefði verið „aflífaður“ með „óásættanlegum og niðrandi hætti“ á netinu og í fjölmiðlum.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er ólíðandi að við í Norðvesturkjördæmi sem aðhyllumst nýja nálgun og betri stjórnmál skulum þurfa að sitja uppi með þennan lista óbreyttan,“ segir Ágúst í tilkynningunni. Hann segir að úrslit síðara prófkjörsins hafi komið félagsmönnum um allt land á óvart í ljósi þess að Gunnar Ingiberg Guðmundsson hefði farið úr 6. sæti listans í 2. sæti. Síðar hefði verið staðfest að mikil smölun hefði átt sér stað til þess að tryggja það. Ágúst segir að Gunnar hafi einnig haft samband við fjölda Pírata til þess að fá þá til þess að fella fyrri framboðslistann og kjósa hann í efsta sætið. Birgitta hefur verið sökuð um að hafa viljað fá Gunnar meðal annars ofar á listann og beitt sér fyrir því.

Telur að Birgitta hafi verið misskilin

Þingmaður Pírata, Ásta Guðrún Helgadóttir, telur að Birgitta hafi verið misskilin. Vegna þess hversu „stór fígúra“ Birgitta væri í röðum Pírötum kunni fólk að hafa tekið því þannig að það sem hún segði væru lög. Birgitta mætti hafa sínar skoðanir en hefði hins vegar ekkert valdboð. „Þegar ég talaði við Birgittu sagði hún að þetta hafi verið eitt samtal við þennan einstakling [Ágúst Smára], þar sem hún væri að velta upp einhverjum sviðsmyndum. Hún væri ekki að skipa nokkrum manni fyrir,“ sagði Ásta Guðrún í útvarpsþættinum Vikulokin á Rás 2 á laugardaginn fyrir viku.

Sjálf sagðist Ásta Guðrún allajafna hafa átt í góðum samskiptum við Birgittu. Oft væri það hins vegar svo með fólk sem væri mjög skapandi „og með hugsun út á við“ að það „segði svolítið margt.“ Með aðstoð vinnustaðasálfræðings hafi henni hins vegar gengið betur að skilja hvað Birgitta ætti við. „Mín samskipti við Birgittu hafa nánast að öllu leyti verið mjög jákvæð, ekki síst eftir að við fengum vinnustaðasálfræðing við að búa til ferla til að gera greinarmun á upplifun okkar á orðum fólks og því sem manneskjan var virkilega að segja,“ sagði Ásta Guðrún ennfremur.

Ljóst er að trúnaðarmenn í röðum Pírata, sem gagnrýnt hafa hvernig staðið var að prófkjörinu í Norðvesturkjördæmi, hafa ekki dregið gagnrýni sína til baka. Lilja Magnúsdóttir ítrekaði þannig gagnrýni sína í umfjöllun um málið sem birtist á fréttavefnum Pressunni um helgina en þar voru að miklu leyti endurteknar fyrri ásakanir sem komið höfðu fram í bréf frá henni til fjölmiðla fyrr í þessum mánuði. Gagnrýnin var á hliðstæðum nótum og hjá Ágústi. „Þeir sem kvörtuðu yfir smölun voru alsælir með að þeirra eigin smölun bar tilætlaðan árangur og að þeirra maður varð sigurvegari,“ sagði hún meðal annars.

Líkti samskiptum við ofbeldissamband

Hliðstæðar deilur hafa áður komið upp í röðum Pírata þar sem stór orð hafa ekki síður verið látin falla. Þannig hefur Birgitta verið sökuð um að taka sér völd innan flokksins án þess að hafa til þess umboð. Þær deilur gengu svo langt að Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sá ástæðu til þess að líkja samskiptum innan flokksins við veru í ofbeldissambandi þar sem ekki væri hægt að ræða það sem fólki lægi á hjarta af ótta við að afleiðingarnar yrðu „hreint út sagt hræðilegar.“ Deilurnar urðu meðal annars til þess að þingflokkur Pírata ákvað að leita sér aðstoðar vinnustaðasálfræðings til að bæta samskiptin.

Tilefni deilnanna, sem komu upp fyrr á þessu ári, voru ásakanir Birgittu í garð frjálshyggjumanna um að þeir áformuðu að taka flokkinn yfir. Greindi hún frá því að hún ætlaði að sækjast eftir þingmennsku þriðja kjörtímabilið, þrátt fyrir að hafa sagt fyrir síðustu kosningar að engum væri hollt að sitja á þingi lengur en tvö kjörtímabil, til þess að koma í veg fyrir meinta yfirtökutilraun. Var hún gagnrýnd fyrir þau ummæli meðal annars af Helga Hrafni og Ernu Ýr Öldudóttur, þáverandi formanni framkvæmdaráðs Pírata, sem síðar sagði af sér formennsku eftir ítrekaða árekstra við Birgittu.

Helgi Hrafn, þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn, þingmaður Pírata. mbl.is/Styrmir Kári

Erna Ýr sakaði Birgittu meðal annars um að titla sig formann Pírata í fjölmiðlum án þess að hafa til þess umboð eða heimild samkvæmt lögum flokksins. Birgitta sagði á móti að það hafi ekki verið að hennar frumkvæði. Hún hefði aldrei titlað sig með þeim hætti í samskiptum við fjölmiðla og hefði ekki tíma til að eltast við fjölmiðlamenn í þeim efnum. Sakaði Birgitta Ernu um ítrekaða óvild í sinn garð og eilíft niðurrif sem væri ómaklegt, særandi og væri farið að hafa djúpstæð áhrif.

Sagði Píratar með leiðtoga án aðhalds

Helgi Hrafn sakaði Birgittu um að hafa misnotað sér aðstöðumun sem þingmaður til þess að rægja félagsmann í Pírötum sem hún sakaði um að standa að baki meintri yfirtökutilraun á flokknum. Sagði hann Birgittu ennfremur hafa rægt fleiri en þennan eina félagsmann. „Mér finnst það skjóta skökku við að manneskja í valdastöðu, sem í þokkabót hefur opinberlega rægt aðra, þó nokkuð oft og mikið, taki þessu svona og upplifi sjálfa sig í fórnarlambshlutverki,“ sagði Helgi þegar deilurnar stóðu sem hæst í febrúar.

Helgi ræddi síðan í framhaldinu um það fyrirkomulag Pírata að hafa engan formann„Við höfum verið að segja okkur að við séum ekki með leiðtoga, en það er einfaldlega ekki rétt. Við erum með leiðtoga, án aðhalds og án þess að hann hafi verið kosinn. Kannski er ekki lausnin að vera með formannsembætti, en við verðum að horfast í augu við að þessi tilraun að útrýma leiðtogavaldinu í okkar röðum hefur mistekist.“ Vísaði hann þar til Birgittu. Reynslan sýndi að valdið væri til staðar og misbeiting þess hefði ekki aðrar afleiðingar en baktal og undirliggjandi gremju „sem ekki brýst út fyrir en allt springur í loft upp“.

Síðar baðst Helgi afsökunar á að hafa verið með bombur í fjölmiðlum. Hann hefði lofað Birgittu að gera það ekki. Birgitta baðst einnig afsökunar á því ef hún hafi sært einhvern á meðan á deilunum stóð. „Það er mér ljúft og skylt að biðjast opinberlega afsökunar á því ef ég hef sært einhvern. Það var ekki ætlun mín en ég veit að ég get stundum verið hvatvís og þver.“ Sagði hún misklíð lengi hafa grasserað í röðum Pírata sem þyrfti að laga. Píratar í öðrum löndum hefðu farið flatt á því að reyna að ræða allt innan sinna raða fyrir opnum tjöldum.

Til marks um bata að leita til sálfræðings

Vinnustaðasálfræðingur var kallaður til í kjölfar þessara deilna til þess að bæta samskiptin innan þingflokks Pírata líkt og áður segir. Fram kom í fréttatilkynningu af því tilefni í lok febrúar að þingflokkurinn hefði þegar hafist handa við að vinna úr þeim erfiðleikum sem komið hefðu upp undir handleiðslu vinnustaðasálfræðingsins og að það hafi verið mannbætandi ferli sem þingmennirnir nytu þegar góðs af með lausnarmiðaðri aðferðafræði um hvernig mætti vinna betur saman með umburðarlyndi og sátt að leiðarljósi.

Sú ákvörðun vakti taksverða athygli og þótti til marks um alvarleika deilnanna innan þingflokks Pírata. Helgi Hrafn sagði það hins vegar þvert á móti til marks um bata. „Það er öfugt, það er til merkis um bata. Það er ekki tabú að sækja sér sérfræðiaðstoð af þessu tagi. Það er algerlega sjálfsagt. Jafnvel heilbrigt fólk ætti að að kíkja til sálfræðings af og til af sömu ástæðu og það er hollt að fá álit sérfræðings á líkamlegri heilsu af og til. Sálfræðiþjónusta, jafnvel fyrir fullkomlega heilbrigt, fullorðið fólk er ekki tabú.“ Helgi tilkynnti í júlí að hann ætlaði ekki að bjóða sig fram aftur til Alþingis en þess í stað einbeita sér að innra starfi Pírata.

Hvað deilur Pírata um prófkjörið í Norðvesturkjördæmi varðar virðist ekki sjá fyrir endann á þeim þó framboðslisti flokksins í kjördæminu liggi fyrir. Hvort deilurnar um um listann eigi eftir að hafa einhverjar afleiðingar fyrir Pírata í kosningabaráttunni sem fram undan er á eftir að koma í ljós. Hins vegar er ljóst að greina má ákveðin líkindi með deilunum nú og fyrr á árinu þar sem tekist hefur verið meðal annars á um völd innan flokksins og deilt um það hvort æskilegt sé að einstaklingar með ákveðinn pólitískan bakgrunn komist til áhrifa innan hans.

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata.
Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka