Sigmundur „ekkert hrópandi kátur“

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra hringdi í Sigmund Davíð Gunnlaugsson, núverandi formann Framsóknarflokksins, áður en hann tilkynnti um formannsframboð sitt. Sigurður segist ekki vera að svíkja loforð og að farsælast sé að lægja öldurnar innan flokksins með lýðræðislegri kosningu á flokksþingi.

Frétt mbl.is: Sigurður Ingi ætlar í formanninn

„Hún hefur í sjálfu sér verið að gerjast með mér síðustu daga,“ segir Sigurður spurður að því hvenær hann tók ákvörðun  um framboð, “og þrýstingur á mig aukist, meðal annars í tengslum við fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna.

Og síðan var auðvitað þingflokksfundur í dag þar sem við ræddum þessi mál, sem ég geta því miður ekki verið á allan tímann. Þetta var hreinskiptinn fundur og mér varð ljóst bara svona í ag að það væri gáfulegast að taka þessa erfiðu ákvörðun og gefa flokksmönnum færi á að velja á flokksþingi hvernig menn vildu sjá forystuna en ekki hafa þessa ólgu einhvern veginn grasserandi í flokknum án þess að hægt væri að höggva á þann hnút.“

Sigurður sagðist í samtali við mbl.is ekki vilja tjá sig um það hvort formannskjörið sem slíkt var til umræðu á þingflokksfundinum í dag en staðfesti að hann hefði ekki tilkynnt um framboð sitt á fundinum.

Spurður að því hvort hann lét Sigmund Davíð vita af fyrirætlun sinni áður en hann tilkynnti um hana í samtali við RÚV í kvöld, svarar hann játandi. „Já, ég gerði það. Ég hringdi í hann áður.

Hvernig brást Sigmundur við?

„Ja, þú í sjálfu sér verður að spyrja hann út í það. Hann var í sjálfu sér ekkert hrópandi kátur með það en það er á milli okkar.“

Sigmundur Davíð sagði í samtali við mbl.is fyrr í september að hann ætti ekki von á því að Sigurður Ingi byði sig fram á móti sér.

„Við Sigurður Ingi höfum unnið lengi saman og ræðum bara málin okkar á milli. Hann hefur sagt alloft, bæði opinberlega og á fundum með mér, að hann myndi aldrei bjóða sig fram gegn mér. Og það var raunar það síðasta sem hann ítrekaði þegar ég bað hann um að koma inn í Stjórnarráðið fyrir mig á meðan mál væru að skýrast síðasta vor. Þannig að ég hef enga ástæðu til að ætla að einhverjar breytingar hafi orðið á því þó kannski þurfi ekki að koma á óvart að þeir sem af einhverjum ástæðum hafa ekki verið sáttir við mig um árabil skori á hann,“ sagði Sigmundur.

En hvað segir Sigurður Ingi, er hann að svíkja loforð?

„Nei, ég er ekki að gera það. Það sem ég hef gert alveg frá því í vor þegar ég tók við sem forsætisráðherra var að verja [Sigmund] og búa til svigrúm til að hann kæmist inn í pólitík. Mér hefur orðið það ljóst á síðustu vikum að á því eru skiptar skoðanir innan Framsóknarflokksins og þess vegna hef ég fengið allar þær áskoranir sem ég hef fengið, og þess vegna tel ég eðlilegast að útkljá þetta með lýðræðislegum hætti í staðinn fyrir að hafa ólguna grasserandi í flokknum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka