Sjálfstæðisflokkurinn stærsti flokkurinn

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærsti flokkurinn í skoðanakönnun sem Fréttablaðið, Stöð 2 og Vísir létu gera á mánudagskvöld, Píratar tapa hins vegar um 10% fylgi samkvæmt könnuninni, sem bendir til þess að núverandi stjórnarmeirihluti gæti haldið.

Samkvæmt könnuninni, sem birt er í Fréttablaðinu í dag, mælist Sjálfstæðisflokkurinn nú með 34,6% fylgi, Píratar með 19,9% og  bæði Framsóknarflokkurinn og Vinstri græn mælast með 13% fylgi. Þá fengi Viðreisn 7,3% yrði gegnið til kosninga nú, Samfylkingin 5,9% og Björt framtíð 3,6%. 

Yrðu þetta niðurstöður kosninganna  fengi Sjálfstæðisflokkurinn 24 þingmenn, Píratar 13,  Framsóknarflokkurinn 9, VG 8, Viðreisn 5 og Samfylkingin 4, en Björt framtíð kæmi ekki inn manni.

Þetta er nokkuð frábrugðið niðurstöðu MMR sem birti fylgiskönnun í gær. Samkvæmt henni er  fylgi Pírata mest eða 21,6%. Í þeirri könnun mældist Sjálfstæðisflokkurinn með 20,6% fylgi og Framsóknarflokkurinn með rúmlega 12% fylgi.

Í könnun Fréttablaðsins var hringt í 960 manns við gerð könnunarinnar, þar til náðist í 800 manns samkvæmt lagskiptu úrtaki þann 26. september. Svarhlutfallið var 83,3%. Spurt var: Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til þingkosninga í dag? Ef ekki fékkst svar var spurt: Hvaða flokk er líklegast að þú myndir kjósa? Ef ekki fékkst svar var spurt: Er líklegra að þú myndir kjósa Sjálfstæðisflokkinn, eða einhvern annan flokk?

51,5% þeirra sem náðist í tóku afstöðu til spurningarinnar.

Píratar tapa um 10% fylgi samkvæmt könnun Fréttablaðsins.
Píratar tapa um 10% fylgi samkvæmt könnun Fréttablaðsins. mbl.is/
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert