Óvinsæl ríkisstjórn í miðju góðæri

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, á flokkráðsfundi flokksins á Akureyri …
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, á flokkráðsfundi flokksins á Akureyri í kvöld. mynd/Auðunn Níelsson

Margt af því sem Vinstri grænir sögðu fyrir áratug síðan þótti róttækt og jafnvel neikvætt en er í dag komið á dagskrá og fólk hefur gleymt að þau voru neikvæð. Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, á flokksráðsfundi flokksins á Akureyri í kvöld. Katrín sagði talsmenn ríkisstjórnarinnar „hafa keypt sér sósíalskar sauðagærur á afslætti fyrir þessar kosningar“ til að líta betur út. Hefðu þeir lofað bót og betrun í velferðarmálum en þegar litið væri á bak við gæruna væri ekki að sjá að slík málefni hefðu verið ofarlega á lista ríkisstjórnarflokkanna.

„Hver eru hin raunverulegu gildi á bak við það hjá flokkum sem reyndu að leggja á komugjöld á sjúkrahús, en voru stöðvaðir af öflugri stjórnarandstöðu, felldu ítrekað tillögur stjórnarandstöðuflokkanna um kjarabætur fyrir aldraða og öryrkja, skáru niður heilt ár af framhaldsskólunum og lokuðu þeim fyrir eldri nemendum og hrósa sér af hækkuðum framlögum á nemanda í háskólum með því að fækka nemendum?“ sagði Katrín á fundinum.

Aðrir flokkar hljómi í raun eins og Vinstri grænir

Þá sagði hún ríkisstjórnina hafa dregið fram „grænþvottaduftið“ í tengslum við að segja að engin stóriðja væri í spilunum lengur. Sagði hún aðra flokka í raun hljóma eins og Vinstri græna, „talandi um nýsköpun og skapandi greinar. Það vantar bara fjallagrösin.“

Hún gaf þó ekki mikið fyrir þessa stöðu núna og benti á að ríkisstjórnin hefði afturkallað ný náttúruverndarlög og tekið rammaáætlunina úr sambandi, en verið hrakin til baka vegna þess máls. „Það væri gaman að trúa þessum nýju andlitum en við vitum ósköp vel að þessar áherslur verða því aðeins endingargóðar að Vinstri græn fái myndarlega útkomu í kosningunum,“ sagði Katrín.

Skuldaleiðréttingin sólundun á opinberu fé

Þá fór hún yfir skattamál og sagði að núverandi ríkisstjórn hefði einbeitt sér að því að lækka skatta og gjöld á þá ríkustu en vanrækt uppbyggingu innviða, hvort sem það væri í heilbrigðisþjónustu, menntun, samgöngum eða fjarskiptum.

Gagnrýndi Katrín skuldaleiðréttinguna og sagði ríkisstjórnina hafa sólundað opinberu fé þar í mál sem breytti litlu fyrir raunverulegan efnahag heimilanna. Á móti sagði hún lág- og millitekjufólk nú átta sig á að vaxta- og barnabætur hafi verið skertar á móti.

Óvinsæl ríkisstjórn í miðju góðæri

Katrín sagði ríkisstjórnina hafa tekið við prýðilegu búi en ekki náð að byggja upp traust á sjálfri sér. Hún væri „ríkisstjórn hinna glötuðu tækifæra“ með stefnu í þágu auðmagnsins gegn fólkinu í landinu.

„Hún er ekki óvinsæl vegna þess að hún tók við erfiðu búi og hún er ekki óvinsæl vegna erfiðra ytri aðstæðna. Þvert á móti hefur henni tekist að verða óvinsæl í miðju góðæri, í ferðamannaævintýrinu mikla. Hún hefur stundum varla verið starfhæf vegna hneykslismála,“ sagði Katrín á fundinum í kvöld.

Frá fundinum á Akureyri í kvöld.
Frá fundinum á Akureyri í kvöld. mynd/Auðunn Níelsson

Ítrekaði Katrín mikilvægi náttúruverndar og sagði að menn hefðu hlegið þegar Einar Benediktsson hafi reynt að selja norðurljósin. Nú komi fjöldi ferðamanna og borgi mikið fyrir að sjá þau. „Menn hlógu líka þegar hvalaskoðun var fyrst nefnd, núna hlæja hvalaskoðunarfyrirtæki á leið í bankann. Kannski hlær einhver líka fyrst að því sem ég segi nú: að miðhálendisþjóðgarður gæti líka skapað mikil verðmæti. Ekki vanmeta færin í slíkum garði.“

Forgangsröðun í þágu heilbrigðiskerfisins

Þá sagði Katrín að á fyrstu hundrað dögum ef Vinstri grænir kæmust í ríkisstjórn yrði sett niður sex ára aðgerðaáætlun um forgangsröðun fjármuna út frá mati sérfræðinga. Þar verði forgangsraðað í þágu hins opinbera kerfis sem hefur orðið út undan í þróun heilbrigðismála. Sagði hún einkarekstur í ágóðaskyni ekki eiga heima í velferðarþjónustunni. Þá sagði hún að ljúka ætti byggingu nýs Landspítala við Hringbraut.  

Varðandi fjármögnun á þessu sagði hún að efst á lista væru þrjár leiðir. Ekki þyrfti að hækka skatta á almenning og fyrirtæki í landinu.

Þrjár leiðir til að fjármagna útgjöldin

Efst á lista var að bæta skattaframkvæmd og eftirlit til að koma í veg fyrir skattaundanskot og notkun skattaskjóla. sagði hún stórar upphæðir þar í gangi. Þá þyrfti að tryggja að stór alþjóðleg fyrirtæki með starfsemi hér myndu borga skatta hér á landi. Að lokum að séð yrði til þess að þeir sem nýti auðlindir þjóðarinnar greiði fyrir þær eðlilegt gjald og að hinir ríkustu borgi hlutfallslega meira en aðrir hópar í skatta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka