Ekki viðunandi umgengni við Alþingi

Helgi Hjörvar.
Helgi Hjörvar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þingmenn stjórnarandstöðunnar voru óánægðir með að boðað hefði verið til þingfundar í dag og kröfðust þess að þingfundi yrði slitið undir liðnum fundarstjórn forseta. Ekkert hefði verið rætt við þingflokksformenn um málin.

„Tvær starfsáætlanir eru farnar í ruslakörfuna og samkvæmt síðari áætlun á þingfundum að vera lokið. Ekki hefur verið gerð ný áætlun um annað og ekkert samráð um annað,“ sagði Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar um fundarstjórn forseta en óundirbúnar fyrirspurnir áttu að hefjast klukkan 10.30.

„Þetta er lýðræðisstofnun og henni er ekki stjórnað með tilskipunum. Menn verða að ræða þetta,“ bætti Helgi við og kallaði eftir hléi á þingfundi þar til fundur með þingflokksformönnum hefði farið fram. 

„Við látum hér eins og allt sé eðlilegt en það er ekki svo. Það er ekki viðunandi umgengni við Alþingi að koma hér með dagskrá eins og ekkert sé eðlilegra. Tími þingmeirihlutans og þessarar ríkisstjórnar er runninn út,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og fleiri þingmenn stjórnarandstöðunnar tóku undir með áðurnefndum þingmönnum.

Verulegur hiti var í þingmönnum stjórnarandstöðunnar en þeir voru einnig óánægðir með að hvorki formaður Sjálfstæðisflokksins né formaður Framsóknarflokksins eru í þingsalnum.

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, tók fram að hlé yrði gert á þingfundi í hádeginu og fundað yrði með þingflokksformönnum flokkanna í hádeginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka