Sjálfstæðisflokkurinn fengi 26% atkvæða, Píratar 20% og Vinstri græn 17% ef gengið yrði til alþingiskosninga nú. Er þetta niðurstaða nýrrar könnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, sem unnin var fyrir Morgunblaðið dagana 23. september til 5. október síðastliðinn.
Viðreisn fengi 12% atkvæða, Framsóknarflokkurinn 10% og Samfylkingin 6%. Aðrir flokkar næðu ekki inn þingmönnum.
Af þeim stjórnmálaflokkum sem ekki næðu inn mönnum á þing má nefna Bjarta framtíð, sem mælist í könnun með 4% fylgi, Flokk fólksins, með 3% og Íslensku þjóðfylkinguna, en sá flokkur fengi 2% atkvæða.
Þegar rýnt er í tölur í einstökum kjördæmum kemur m.a. í ljós að Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar og oddviti flokksins í Suðurkjördæmi, kemst samkvæmt könnuninni ekki inn á þing. Sömu sögu er að segja um Össur Skarphéðinsson, oddvita Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, Guðjón Brjánsson, oddvita Samfylkingar í Norðvesturkjördæmi, og Karl Garðarsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Tvær leiðir voru notaðar til að ná til kjósenda, alls í 1.750 manna úrtaki. Annars vegar var hringt í 750 manna tilviljunarúrtak úr þjóðskrá og hins vegar var send netkönnun til 1.000 manna úrtaks úr netpanel Félagsvísindastofnunar. Alls fengust svör frá 977 svarendum og var svarhlutfall 57%.