Draga framboð sín til baka

Gústaf Níelsson.
Gústaf Níelsson. mbl.is/Jim Smart

„Við tökum þessa ákvörðun vegna þess að formaður Íslensku þjóðfylkingarinnar er fullkomlega áhugalaus um framgang hugsjóna og stefnu flokksins,“ segir Gústaf Adolf Níelsson sagnfræðingur í samtali við mbl.is en hann og Gunnlaugur Ingvarsson bifreiðarstjóri hafa ákveðið að draga framboð sín fyrir Íslensku þjóðfylkinguna til baka. Gústaf var oddviti flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður og Gunnlaugur leiddi framboðslistann í Reykjavíkurkjördæmi suður.

„Stjórnmálaflokkur verður að njóta traustrar forystu, eigi árangur að nást. Íslenska þjóðfylkingin nýtur þess ekki. Ítrekað hefur formanni flokksins verið bent á það, að hann ræður ekki við verkefnið. Hann man ekki að kvöldi, hvað hann sagði að morgni, hann veit ekki hvort hann er að koma eða fara og er óöruggur í allri framgöngu, undirförull og óheill,“ segir í yfirlýsingu sem þeir Gústaf og Gunnlaugur hafa sent til fjölmiðla vegna málsins.

Gústaf segir aðspurður að afskiptum þeirra af framboði Íslensku þjóðfylkingarinnar sé þar með lokið. „Við munum ekki taka þátt í einu eða neinu þarna á meðan hlutirnir eru með þessum hætti.“ Mælirinn hafi einfaldlega verið orðinn fullur.

Gunnlaugur Ingvarsson.
Gunnlaugur Ingvarsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert