Þau ummæli Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á Alþingi 15. ágúst að útlit væri fyrir að afgangur á ríkisfjármálunum á þessu ári yrði meiri „en allur uppsafnaður halli vinstri stjórnarinnar frá 2009-2013“ voru rétt. Þetta segir Bjarni á Facebook-síðu sinni í dag en Staðreyndavakt Vísindavefsins heldur því fram að ummælin hafi verið röng. Uppsafnaður halli A-hluta ríkissjóðs á tímabilinu var 388,5 milljarðar króna.
Bjarni bendir á að umfjöllun Staðreyndavaktarinnar byggi ekki á frumvarpi til fjáraukalaga heldur fjárlagafrumvarpinu. Þegar ummælin hafi verið látin falla hafi ekki verið búið að taka ákvörðun um að greiða tugi milljarða króna til LSR vegna skuldar ríkisins við sjóðinn. Fyrir vikið hafi þá verið gert ráð fyrir rúmlega 400 milljarða afgangi en ekki 326 milljörðum eins og fram komi í umfjöllun Staðreyndavaktarinnar.
Frétt mbl.is: Afgangurinn ekki meiri en hallinn
Bjarni segir að Staðreyndavaktin hefði betur miðað við frumvarpið til fjáraukalaga. Síðan hafi það ennfremur gerst að greiðslan til LSR hafi verið felld út á Alþingi og fyrir vikið hafi fjáraukalögin verið afgreidd í vikunni með 408,8 milljarða króna áætluðum afgangi.
Bjarni segir Þórólf einnig notast við allt annan mælikvarða en miðað hafi verið við þegar ummælin féllu á Alþingi. Þannig tíðkist í umræðum um ríkisfjármál í þinginu að fjalla um ríkisfjármálastærðir á borð við halla á ríkissjóði eða heildarútgjöld á svonefndum rekstrargrunni samkvæmt þeim reikningsskilareglum sem lagðar séu til grundvallar í árlegum fjárlögum og ríkisreikningi. Þórólfur hafi hins vegar kosið að notast við þjóðhagsgrunn Hagstofunnar „sem af ýmsum reikningshaldslegum ástæðum getur gefið all nokkuð frábrugðna niðurstöðu frá einu ári til annars.“
„Svar staðreyndarvaktarinnar er því einfaldlega rangt. Staðreyndavaktin hefur ekki eingöngu komist að rangri niðurstöðu heldur er það einnig augljóslega ómálefnalegt og ósanngjarnt að bera ummæli mín saman við það sem síðar kom fram í útgjaldatillögu til fjáraukalaga. Að ekki sé nú talað um þegar sú tillaga var að lokum felld eins og hér hefur verið rakið. Það þarf ekki að biðjast afsökunar,“ segir Bjarni að lokum.