Píratar útiloka stjórnarflokkana

Píratar á blaðamannafundi í dag – Einar Aðalsteinn Brynjólfsson, Smári …
Píratar á blaðamannafundi í dag – Einar Aðalsteinn Brynjólfsson, Smári McCarthy og Birgitta Jónsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Píratar ætla ekki í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum né Framsóknarflokknum eftir næstu kosningar. Þetta er meðal þess sem fram kom á blaðamannafundi þriggja frambjóðenda flokksins í dag.  Píratar hafa sent fjórum flokkum bréf um mögulegar stjórnarviðræður eftir kosningar. Það eru Björt framtíð, Samfylkingin, VG og Viðreisn.

Píratar boðuðu til blaðamannafundar klukkan 11 í morgun og þar kynntu umboðsmenn Pírata hvernig flokkurinn hyggst standa að stjórnarmyndunarviðræðum fyrir komandi Alþingiskosningar.

Píratar munu bjóða öðrum flokkum að funda með sér og skila svo skýrslu um þær viðræður til kjósenda þann 27.október næst komandi.

„Við göngum til kosninga á undan áætlun vegna þeirrar spillingar sem afhjúpuð var fyrir umheiminum í Panamaskjölunum. Fimm ráðherrar urðu uppvísir að spillingu á kjörtímabilinu. Í fjölmennustu mótmælum Íslandssögunnar sýndi almenningur vilja sinn til breytinga,“ er haft eftir Birgittu Jónsdóttur í tilkynningu.

Erindi Pírata byggir á kröfu um nauðsynlegar kerfisbreytingar, siðbót í stjórnmálum og stríð á hendur spillingu og sjálftöku, segir í tilkynningu.

Píratar leggja því þunga áherslu á að færa þjóðinni fullveldi sitt og sjálfræði að nýju. Sú hefð hefur skapast í íslenskum stjórnmálum að loforð eru einatt svikin eftir kosningar og bera menn fyrir sig „pólitískum ómöguleika,“ eins og frægt er orðið. Hefðin er sú, að stjórnmálaflokkar sem mynda ríkisstjórnir á Íslandi skýla sér bakvið málamiðlanir í stjórnarmyndun. Þannig tekst þeim ítrekað að svíkja kjósendur sína.

Við Píratar viljum koma í veg fyrir pólitískan ómöguleika. Við viljum kerfisbreytingar. Við ætlum ekki að blekkja kjósendur. Við munum ekki taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfi með þeim flokkum sem ekki geta skuldbundið sig til ákveðinna verka fyrir kosningar. Við gerum okkur grein fyrir því að okkar stefnuskrá er okkar óskalisti.

Stjórnmál eru list hins mögulega; enginn fær allar sínar óskir uppfylltar í samningum við aðra. Kjósendur eiga rétt á að vita hvað atkvæði þeirra merkir fyrir kosningar, ekki aðeins að þeim loknum. Píratar eru tilbúnir til að hefja strax formlegar viðræður um samstarf við aðra flokka út frá fimm megin áherslum Pírata. Við höfum sent bréf þess efnis til formanna þeirra stjórnmálaflokka sem við viljum ræða við hið fyrsta,“ segir í fréttatilkynningu.

Samkvæmt erindisbréfi umboðsmanna Pírata sem samþykkt var í kosningakerfi Pírata hafa þeir umboð til umræðna við forsvarsmenn annarra stjórnmálaflokka um myndun ríkisstjórnar bæði fyrir og eftir kosningar.

Umboðsmenn Pírata skipa: Birgitta Jónsdóttir, 1. sæti Reykjavík Norður, Smári McCarthy, 1. sæti Suðurkjördæmi og Einar Brynjólfsson, 1. sæti Norðausturkjördæmi.

„Píratar eru tilbúnir til að hefja strax formlegar viðræður um samstarf við aðra flokka út frá fimm megin áherslum Pírata til þess að geta lagt drög að stjórnarsáttmála áður en þjóðin gengur til kosninga.

Ákvörðun þessi var tekin á grundvelli þess að Píratar trúa á mikilvægi upplýstrar ákvarðanatöku og að kjósendur eigi heimtingu á því að vita hvaða þýðingu atkvæði þeirra hefur þegar þeir skila því í kjörkassann á kjördag.

Alltof oft hefur það gerst að þeir flokkar sem fara saman í stjórnarsamstarf brjóti kosningaloforð sín um leið og stjórnarsáttmáli er undirritaður og svíkja þannig kjósendur sína og bera við „pólitískum ómöguleika“. Það vilja Píratar ekki gera og því var ákveðið að fara þessa leið,“ segir í fréttatilkynningu frá Pírötum.

„Með þessu móti eru Píratar að stuðla að því að kjósendur viti fyrirfram hvaða loforð flokkar munu ætla sér að standa við og geta því tekið upplýstari ákvörðun um val sitt á kjördag,“ segir enn fremur í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert