Ekkert misræmi er í þeim kosningamálum Framsóknarflokksins að nýr Landspítali rísi á Vífilsstöðum en flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni, að mati Lilju Daggar Alfreðsdóttur, varaformanns Framsóknarflokksins sem leiðir lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður. En öryggishagsmunir hafa ítrekað verið nefndir sem ástæða áframhaldandi veru flugvallarins í Vatnsmýrinni.
„Það er náttúrulega verið að loka neyðarbrautinni og borgaryfirvöld eru ekki alveg búin að finna hvert á að setja flugvöllinn,“ segir Lilja Dögg og kveður mun styttra frá Reykjavíkurflugvelli á Vífilstaði eða önnur svæði á höfuðborgarsvæðinu. „Þannig að þetta fer alveg saman.“
Frétt mbl.is: Flugvöllur í Vatnsmýri þó að spítali verði á Vífilstöðum
Spurð hvort umferðarteppa á háanna tíma, geti ekki haft áhrif öryggi flutninga frá flugvellinum segir hún framsóknarmenn þess vegna hafa talað fyrir því að áfram verði höfð bráðaþjónusta nálægt flugvellinum, t.d. á núverandi Landspítala, en framtíðarsjúkrahúsið verði byggt annars staðar.
„Þannig geta öryggissjónarmið varðandi það að hafa þessa bráðaþjónustu áfram á þessu svæði gengið upp, en stóra sjúkrahúsið þar sem allar deildir eru og samhæfð þjónusta fari annað.“
Framsóknarflokkinn telji því ekki þörf á öðrum flugvelli á höfuðborgarsvæðinu að svo stöddu. Lilja Dögg segir staðfasta trú sína að það fari betur á því að finna sjúkrahúsinu nýjan stað, frekar en að koma því fyrir í 17 byggingum á því svæði þar sem nú er gert ráð fyrir að spítalinn rísi.
„Framtíðarsjúkrahúsið okkar er eitt mikilvægasta heilbrigðismálið og við viljum fá skýra stefnu. Það eru gríðarlega miklir fjármunir sem munu fara í þennan málaflokk á næstu fimm árum,“ segir hún. Á fimm ára ríkisfjármálaáætlun sé verið að tala um að setja 75 milljarða í sjúkrahúsið.
„Við erum sannfærð um það út frá þeim samtölum sem við höfum átt við sérfræðinga að annað staðaval sé betra og erum þeirrar skoðunar að það eigi að byggja nýtt og nútímalegt sjúkrahús frá grunni á góðum og aðgengilegum stað.“
Langt er síðan síðasta faglega úttekt á þessu máli var gerð og full ástæða til að gera nýja úttekt. „Við erum að leggja það til að við förum strax eftir kosningar í að gera nýja og heilstæðari úttekt á málinu þar sem verði farið yfir hvar besta staðsetningin sé.“