Fulltrúar Bjartrar framtíðar, Pírata, Samfylkingar og Vinstri-grænna ætla að hittast og ræða mögulegt samstarf milli flokkanna á sunnudag klukkan 11. Fundurinn fer fram á Litlu Lækjarbrekku.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, tilkynnti þetta á Facebook síðu sinni fyrir stundu. Í færslunni kemur fram að fulltrúar flokkanna muni fara yfir sín forgangsmál og ræða samstarfsfleti í framhaldi kosninga.
Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, útilokaði fyrr í dag að flokkurinn myndi vinna með Sjálfstæðisflokki eftir kosningarnar.
„Það er alvanalegt í aðdraganda kosninga að miðjuflokkar reyni að setja af stað orðróm um að vinstri flokkurinn á hverjum tíma ætli að taka upp samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Slík herferð er nú farin af stað í þessum anda,“ segir í Facebook færslu Svandísar.
Svandís segir jafnframt að samstarf af þessu tagi hafi einhvern tíma verið á dagskrá fyrr á árum. Það sé hins vegar ekki möguleiki nú. „Það er óhugsandi við núverandi kringumstæður eftir aðdraganda kosninganna, uppljóstranirnar úr Panama-skjölunum og viðbrögð forystumanna stjórnarflokkanna. Þetta hljóta allir að sjá.“
Miðað við niðurstöður nýjustu könnunar Félagsstofnunar Háskóla Íslands sem gerð var fyrir Morgunblaðið er tveggja flokka meirihlutastjórn ekki möguleg, en allnokkrir möguleikar eru á þriggja flokka stjórn.