„Ekki að fara að mynda stjórn núna“

Fulltrúar fjögurra flokka funda nú á Lækjarbrekku um mögulegt samstarf …
Fulltrúar fjögurra flokka funda nú á Lækjarbrekku um mögulegt samstarf að loknum kosningum. mbl.is/Golli

Full­trú­ar Bjartr­ar framtíðar, Pírata, Sam­fylk­ing­ar og Vinstri-grænna funda nú á Litlu Lækjarbrekku um mögulegt stjórnarsamstarf að alþingiskosningum loknum. Fundurinn hófst klukkan 11 en fyrir fundinn sögðust fulltrúar flokkanna flestir bjartsýnir á góðan fund. 

Frétt mbl.is: Ræða mögulega vinstri stjórn

Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata segir að til umræðu á fundinum verði málefnin og hvort finna megi sameiginlegan flöt á þeim málum sem Píratar leggja aðal áherslur á eftir kosningar. „Ég er bjartsýn að upplagi, alltaf," sagði Birgitta við fréttamenn fyrir utan Litlu Lækjarbrekku um væntingar sínar til fundarins.

„Við ætlum bara að ræða aðeins stöðuna, skoða samstarfsfleti. Við höfum unnið ágætlega saman á þinginu núna í þrjú og hálft ár þannig að við ætlum bara svona aðeins að fara yfir málin," sagði Óttar Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, þegar hann mætti á fundinn. 

Óttar segir um að ræða sjálfstæða flokka, Björt framtíð sé frjálslyndur miðjuflokkur, svo flokkarnir séu því ekki sammála um öll mál. „Við höfum til dæmis lagt mikla áherslu á róttækar breytingar í landbúnaðarkerfinu, leggjum mikla áherslu á umsókn að ESB, jöfnun atkvæðisréttar og svo framvegis.“

„Við erum fyrst og fremst að tala saman, við erum ekki að fara að mynda stjórn núna. Það er ekki búið að kjósa, það er almenningur sem ræður því hverjir komast á þing, þannig að við erum ekki komin þangað," sagði Óttar jafnframt áður en hann gekk inn á fundinn.

Þá kvaðst Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, viss um að fundurinn muni ganga vel, enda hafi fundir þeirra flokka sem um ræðir yfirleitt gengið mjög vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka