Áherslur stærstu stjórnmálaflokkanna í menntamálum eru töluvert ólíkar. Sjálfstæðisflokkur vill stefna að fjölgun einkarekinna skóla á yngri stigum en Píratar vilja stefna að því að tryggja öllum í framhalds- og háskólanámi skilyrðislausa grunnframfærslu og að skólaskylt nám verði gjaldfrjálst.
mbl.is skoðaði nokkrar áhugaverðar áherslur sjö stærstu flokkanna í menntamálum, en áður hafa efnahags-, utanríkis-, og heilbrigðismálaflokkarnir verið teknir til skoðunar.
Í myndskeiðinu sem fylgir fréttinni eru tínd til þrjú atriði hjá hverjum stjórnmálaflokki í málaflokknum. Reynt var að halda tryggð við orðalagið sem var á heimasíðum flokkanna. Við miðuðum við að skoða flokkana sem hafa mælst með meira en 5% fylgi í könnunum og teljast líklegir til að ná fólki inn á þing í kosningunum sem fram fara 29. október.