Stjórnmálaflokkarnir aðhyllast flestir blandaða leið samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda og mótvægisaðgerða til að berjast gegn loftslagsbreytingum, fyrir utan Sjálfstæðisflokk, sem leggur mesta áherslu á endurheimt votlendis. Hægriflokkarnir telja olíuvinnslu ekki stangast á við loftslagsmarkmið en Framsóknarflokkurinn stefnir einn á hana.
Loftslagsbreytingar sem eru til komnar vegna stórfelldrar losunar manna á gróðurhúsalofttegundum eru taldar eitt stærsta vandamálið sem mannkynið stendur frammi fyrir um þessar mundir og verður það næstu áratugina og jafnvel aldirnar. Þessar hröðu umhverfisbreytingar eru taldar munu hafa geysileg áhrif á allt líf á jörðinni og valda hörmungum fyrir mannkynið, meðal annars með tíðari þurrkum, meiri úrkomu, meiri öfgum í veðurfari, hækkun yfirborðs sjávar og súrnun hafsins svo eitthvað sé nefnt.
Í desember náðu ríki heims saman um Parísarsamkomulagið svonefnda til að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum. Íslensk stjórnvöld hafa sagst ætla að taka þátt í sameiginlegu markmiði Evrópusambandsríkja og Noregs um að draga úr losun um 40% fyrir árið 2030 en enn á eftir að semja um hver hlutdeild Íslands verður í því markmiði.
Markmið Parísarsamkomulagsins er að halda hnattrænni hlýnun innan við 2 °C miðað við tímabilið fyrir iðnbyltinguna og helst innan við 1,5 °C ef nokkur kostur er á til að hægt verði að forðast verstu afleiðingar loftslagsbreytinga. Miðað við þær aðgerðir sem þjóðir heims hafa boðað er þó ekki útlit fyrir að þau markmið náist nema gripið verði til róttækari aðgerða.
Mbl.is lagði fjórar grunnspurningar um sýn og stefnu í loftslagsmálum fyrir þá sjö stjórnmálaflokka sem skoðanakannanir benda til að nái mönnum inn á þing í alþingiskosningunum 29. október. Tekið skal fram að samantekt á stefnu flokkanna hér er aðeins byggð á þeim svörum sem fulltrúar flokkanna sendu Mbl.is en ekki á stefnuskrám eins og þær birtast á vefsíðum þeirra eða í opinberri ræðu eða riti annars staðar.
1) Er hagsmunum Íslands ógnað af loftslagsbreytingum af völdum manna og er það forgangsmál fyrir íslensk stjórnvöld að berjast gegn þeim?
Allir flokkarnir eru sammála um að hagsmunum Íslands standi ógn af hnattrænni hlýnun og að Íslendingar þurfi að axla sína ábyrgð í að taka á vandanum. Nokkrir þeirra lýsa áhyggjum af áhrifum súrnunar sjávar á fiskistofna í hafinu og hlýnunar á Golfstrauminn.
Vinstri græn benda jafnframt á að til lengri tíma litið geti bráðnun jökla sem eru uppspretta virkjaðra jökuláa leitt til þess að endurhugsa þurfi orkukerfi landsins.
Björt framtíð
Björt framtíð er mjög meðvituð um að loftslagsbreytingar af mannavöldum ógna hagsmunum allra jarðarbúa og Íslendingar eru þar ekki undanskildir. Hækkuð sjávarstaða, ofsafengnari veður, þurrkar og hitabylgjur víða um heim munu snerta okkur beint eða óbeint, rétt eins og alla aðra. Jafnvel þó að sum spálíkön sýni að loftslag hérlendis gæti orðið hagstætt til aukinnar matvælaræktunar síðar á þessari öld, þá þarf Golfstraumurinn ekki að raskast mikið til að hér verði ekki mjög byggilegt. Það er því forgangsmál fyrir íslensk stjórnvöld að bregðast við afleiðingum loftslagsbreytinga af fullri alvöru.
Framsóknarflokkurinn
Framsóknarflokkurinn telur að ógn af loftsbreytingum eigi að vera eitt af forgangsmálum stjórnvalda. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur lagt áherslu á aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og er Ísland meðal ríkja sem hafa fullgilt Parísarsamninginn og gefið fyrirheit um sinn hlut innan hans.
Framsóknarflokkurinn fagnar því að ríkisstjórnin hefur tekið ógn loftslagsbreytinga alvarlega, en strax í nóvember 2015 kynnti hún öflug verkefni Sóknaráætlun í loftslagsmálum til þriggja ára. Sóknaráætlunin eflir starf í loftslagsmálum og fær fleiri til að til að taka þátt og leggja línurnar varðandi markvisst starf til lengri tíma við að minnka losun og efla kolefnisbindingu.
Píratar
Píratar telja hagsmunum Íslands ógnað vegna loftslagsbreytinga. Það á að vera forgangsmál stjórnvalda að grípa strax til aðgerða og koma þannig í veg fyrir súrnun sjávar og aðrar óafturkræfar afleiðingar á lífríkið. Píratar telja að Ísland eigi að vera leiðandi í þessari mikilvægu baráttu, uppfylla Parísarsamkomulagið og aðrar alþjóðlegar skuldbindingar í málaflokknum og gera gott betur.
Samfylkingin
Hlýnun jarðar er stærsta áskorunin sem mannkynið stendur frammi fyrir. Já, hagsmunum Íslands og alls heimsins er ógnað af loftslagsbreytingum sem eru af mannvöldum. Það er forgangsmál íslenskra stjórnvalda að berjast gegn þeim heima og að heiman.
Sjálfstæðisflokkurinn
Náttúruvá vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum verður að taka alvarlega og við þurfum að leggja okkar af mörkum í þeim efnum. Sjálfstæðisflokkurinn vill að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda með minni bruna og kolefnisbindingu með eflingu gróðurlenda og mun beita sér fyrir raunhæfum aðgerðum á næsta kjörtímabili.
Viðreisn
Engin þjóð verður ósnortin af áhrifum loftlagsbreytinga. Því ber Íslendingum að axla sinn hlut í sameiginlegri ábyrgð mannkyns á loftslagsbreytingum. Hvað hagsmuni Íslands varðar þá er ljóst að okkur gæti stafað veruleg ógn af súrnun sjávar sem er bein afleiðing af auknum koltvísýringi í andrúmslofti og hækkandi hitastigi jarðar. Í ljósi þessa og hversu mikil ógn þær eru við marga íbúa jarðar, er það stefna flokksins að berjast af krafti gegn loftslagsbreytingum af manna völdum, þannig að Ísland geti orðið öðrum þjóðum gott fordæmi í þeim efnum.
Vinstri græn
Já, hagsmunum Íslands er mjög ógnað af loftslagsbreytingum. Loftslagsbreytingar munu að öllum líkindum orsaka meiri ófrið á alþjóðavísu á komandi áratugum. Stríð í öðrum heimshlutum geta haft mikil áhrif á Íslandi, hvort sem það er í formi aukins fjölda flóttamanna eða ótryggara stjórnmálaástands og það má jafnvel ímynda sér að það geti ógnað fæðuöryggi þjóðarinnar því við flytjum inn mikið af matvælum. Staðbundnu áhrifin munu svo til dæmis verða þau að jöklarnir gætu horfið innan 150-200 ára, sem hefur gríðarleg áhrif á raforkuframleiðslu hér, sem er að stórum hluta framleidd með virkjunum í jökulám.
Við þurfum því að endurhugsa orkukerfið hér ef fram fer sem horfir. Bráðnun jökla hefur líka í för með sér landris sem getur valdið tíðari eldsumbrotum. Úrkomumynstur á landinu mun breytast töluvert og líklega aukast, sem getur haft áhrif á landbúnað og haft í för með sér aukna flóðahættu. Nokkur óvissa ríkir um hver áhrif hækkandi sjávarborðs á heimsvísu verða hér á landi, en þau gætu orðið þónokkur. Líklega munu svo nýjar tegundir nema land, sem geta haft mikil áhrif á vistkerfi.
Alvarlegustu áhrifin eru þó ekki beinlínis vegna loftslagsbreytinga, heldur vegna súrnunar sjávar, sem er aukaafurð af losun koltvísýrings. Hafið tekur upp um 1/3 af losuninni sem veldur því að hann súrnar. Súrt haf leysir upp skel kalkmyndandi lífvera. Þær eru undirstöður mjög stórra vistkerfa í hafi, og hrynji þær tegundir eru allri keðjunni ógnað, þar á meðal tegunda sem Ísland byggir sjávarútveg á.
2) Hvað ætlar flokkurinn að gera til að draga úr losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum komist hann í ríkisstjórn eftir kosningar, hvenær eiga þær aðgerðir að komast til framkvæmda og hversu mikið eiga þær að draga úr losun Íslands?
Þegar kemur að aðgerðum til að vinna gegn útblæstri koltvísýrings og hnattrænni hlýnun eru flokkarnir nær sammála um að grípa skuli til aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi á nær öllum sviðum og til mótvægisaðgerða til að binda kolefni, meðal annars með landgræðslu og endurheimt votlendis.
Píratar setja sér róttækustu markmiðin, en þeir stefna á 40% samdrátt í losun fyrir árið 2025 og að Ísland verði orðið jarðefnaeldsneytislaust árið 2040, tíu árum fyrr en Vinstri græn stefna á að landið verði kolefnishlutlaust. Flokkurinn vill jafnframt að endurheimt votlendis verði lokið þegar árið 2025.
Vinstri græn og Píratar vilja enn fremur að frekari stóriðjuuppbyggingu verði hætt.
Sjálfstæðisflokkurinn sker sig nokkuð úr í áherslunni á endurheimt votlendis sem framlag Íslands til að draga úr losun. Í svari hans kemur vissulega fram að draga skuli úr losun með minni bruna en enn fremur að endurheimt votlendis sé fljótlegasta, árangursríkasta og ódýrasta leiðin til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Skoða ætti að færa fé sem rennur til niðurgreiðslu á lífeldsneyti í átak við endurheimt votlendis.
Viðreisn tekur undir að langstærstu tækifærin felist í endurheimt votlendis. Flokkurinn bendir hins vegar á að í bili sé losun Íslands að aukast mest vegna stefnunnar í ferðamálum og vill mæta henni með ýmsum mótvægisaðgerðum, samdrætti í losun og kolefnisbindingu, sem er í anda þess sem hinir flokkarnir boða. Í því samhengi vilja Vinstri græn að losun skipa og flugvéla verði tekin inn í losunarbókhald þjóða.
Hagrænir hvatar, grænir skattar og skattaívilnanir, til að draga úr mengun og stuðla að vistvænum lausnum eru á stefnuskránni hjá Pírötum, Samfylkingu, Viðreisn og Vinstri grænum (sjá einnig svör við spurningu 3).
Björt framtíð
Björt framtíð mun beita sér fyrir því að Ísland dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir árið 2030. Síðustu árin hafa verið unnar á vegum ríkisins mjög ítarlegar skýrslur þar sem núverandi staða er greind sem og hvar tækifærin til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda liggja. Vitneskjan um hvað er hægt að gera og hvernig best er að framkvæma er til staðar en hefur því miður aldrei verið lögð saman að fullu af núverandi ríkisstjórn. Við viljum breyta því og nýta fyrirliggjandi upplýsingar til að búa til heildstætt, tímasett aðgerðaplan svo tryggt verði að Ísland nái þeim markmiðum sem við erum skuldbundin til að uppfylla.
Við munum einbeita okkur að grænum breytingum á öllum innviðum samfélagsins með sérstakri áherslu á orkuskipti í samgöngum og fiskveiðum, bætta nýtingu allra afurða (skólp og sorp þar með talið) og nýsköpun í líftækni. Til að draga samhliða úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landi og hraða upptöku kolefnis mun Björt framtíð einnig setja endurheimt raskaðra vistkerfa í forgang. Endurheimt votlendis er ein aðgerð til að draga úr nettólosun en með landgræðslu og skógrækt er hægt að binda kolefni í jarðvegi og gróðri um allt að 5 t/ha árlega. Samkvæmt skýrslu frá Landgræðslunni eru 800.000 hektarar illa farins lands <400 metrum tækir til endurheimtar og því ekki eftir neinu að bíða.
Framsóknarflokkurinn
Framsóknarmenn vísa til sóknaráætlunar sem fráfarandi ríkisstjórn samþykkti síðasta vetur og leggja áherslu á að fylgja þurfi henni eftir á næsta kjörtímabili. Jafnframt vísar svar flokksins í sameiginlegt markmið ESB og Noregs um 40% samdrátt í losun fyrir árið 2030.
Framsóknarflokkurinn fagnar því að fjármagn hefur verið sett í uppbyggingu hraðhleðslustöðva fyrir rafbíla á landsvísu og að áhersla sé á að draga úr losun í samgöngum, sjávarútvegi og landbúnaði. Framsóknarflokkurinn telur að til þess að árangur náist sé mikilvægt að unnið sé í samvinnu við sjávarútveg og landbúnað, rétt eins og Sóknaráætlun loftslagsmála gerir ráð fyrir.
Framsóknarflokkurinn telur að aukið fjármagn sem hefur verið sett til bindingar á kolefni til landgræðslu og skógræktar og endurheimt votlendis verði til þess að virkja fleiri aðila til að taka þátt og minnka nettólosun. Þá munu aðgerðir stjórnvalda til að draga úr matar- og plast skila sér í betri nýtingu, en flokkurinn leggur áherslu á að minnka matarsóun á Íslandi um helming á næstu fjórum árum.
Píratar
Píratar eru með tímasett markmið og aðgerðaáætlun til að mæta þeim.
Markmið:
Losun gróðurhúsalofttegunda minnkuð um 40% árið 2025
Engin svartolía í íslenskri landhelgi árið 2025
Ísland jarðefnaeldsneytislaust árið 2040
Nær engin losun gróðurhúsalofttegunda árið 2040.
Aðgerðir:
Endurheimt votlendis lokið árið 2025.
Rafbílavæðing.
Byggja upp göngustíga og reiðhjólastíga
Tryggja visthæfa, góða og hagkvæma kosti í almenningssamgöngum.
Innleiða 6. viðauka Marpol samningsins svo hafið umhverfis Ísland verði ECA svæði.
Visthæfni íslenska flotans tryggð með viðeigandi orkuskiptum.
Efla skógrækt og landgræðslu.
Stofna þjóðgarð á miðhálendinu
Horfið verði frá frekari stóriðju.
Samfylkingin
Samfylkingin vill efla almenningssamgöngur, stuðla að orkuskiptum í samgöngum, endurheimta votlendi, styðja við landgræðslu og skógrækt og með nýjum leiðum á borð við niðurdælingu og framleiðslu metanóls úr koltvísýringi.
Samfylkingin vill að ráðist verði í aðgerðir til að draga úr losun þannig að framlag okkar verði aldrei minna en ríkja Evrópusambandsins. Samfylkingin leggur áherslu á að aðild að Evrópusambandinu veitir Íslendingum einstakt tækifæri til að hafa áhrif á þróun norðurslóða til framtíðar í gegnum stefnumótun sambandsins. Loftslagsmál eru lykilþáttur í þessu sambandi og þar á Ísland að gegna mikilvægu hlutverki. Sem fullgilt aðildarríki að ESB fengjum við mikilvæga bandamenn og sterkari samningsstöðu í umhverfismálum, bæði á norðurslóðum og á alþjóðavettvangi.
Sjálfstæðisflokkurinn
Parísarsamkomulagið kveður á um 40% samdrátt í losun koltvísýrings í Evrópu fram til ársins 2030. Það er vel raunhæft að draga verulega úr losun hér á landi. Um 72% af heildarlosun koltvísýrings stafar frá framræstu landi. Endurheimt votlendis er fljótlegasta, árangursríkasta og ódýrasta leiðin til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Endurheimt votlendis varð árið 2013 viðurkennd af loftslagnefnd Sameinuðu þjóðanna sem mótvægisaðgerð í loftslagsmálum að frumkvæði Íslendinga. Við ættum að skoða vel möguleikann á því að færa fé sem núna er nýtt til þess að niðurgreiða dýrt innflutt lífeldsneyti í átak við endurheimt votlendis.
Viðreisn
Langstærstu tækifærin felast í endurheimt votlendis enda losar framræst votlendi 72% af öllum gróðurhúsalofttegundum hér á landi. Í bili er Ísland að auka losun á jarðefnaeldsneyti, fyrst og fremst vegna stefnunnar í ferðamálum. Þótt flugvélaeldsneyti sé utan útreiknaðs útblásturs, breytir það ekki þeirri staðreynd að hann eykst með vaxandi fjölda ferðamanna til Íslands.
Um leið og Viðreisn viðurkennir ört vaxandi mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir íslenskt efnahagslíf, telur flokkurinn að jafna þurfi kolefnisspor hennar með mótvægisaðgerðum.Nærtækustu aðferðirnar til þess felast í blöndu af rafvæðingu bílaflotans, skógrækt, endurheimt votlendis og framleiðslu á endurnýjanlegri orku til atvinnustarfsemi sem annars væri knúin mengandi jarðefnaeldsneyti, enda virðir mengun engin landamæri. Þá hyggst flokkurinn innleiða græna skatta sem hvata til að draga úr mengun. Viðreisn hefur ekki sett sér tímasett markmið en verði flokkurinn í ríkisstjórn, mun hann leitast við að hraða mótvægisaðgerðum, m.a. til að uppfylla skuldbindingar Parísarsamkomulagsins.
Vinstri græn
Íslandi ber að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, frá stóriðju og víðar og binda kolefni með ýmsum mótvægisaðgerðum gegn uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Vinstri græn vilja að Ísland beiti sér fyrir því að losun gróðurhúslofttegunda frá flugi og skipum verði talið með í losunarbókhaldi þjóða.
Vinstri græn vilja að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2050 og taki þar mið af niðurstöðum vísindamanna. Til þess að verða kolefnishlutlaust samfélag þarf að breyta miklu og aðlaga innviði. Það er mikil vinna fyrir höndum en tæknin er þegar til staðar. Við teljum að árið 2050 sé hentugt markmið, því það gefur okkur góðan tíma til að breyta innviðum og aðlaga samfélagið að nýjum og betri háttum. Það gerum við með því að hverfa frá áformum um olíuvinnslu, skipta jarðefnaeldsneyti út fyrir endurnýjanlega orkugjafa í samgöngum og iðnaði, binda kolefni með mótvægisaðgerðum og strika öll frekari áform um mengandi stóriðju út af borðinu. Vinstri græn vilja að Ísland beiti sér fyrir því að jarðefnaeldsneyti verði ekki unnið á Norðurslóðum og beiti sér á alþjóðavettvangi fyrir því að halda hlýnun jarðar undir 1,5°C og undirgangist alþjóðlegar skuldbindingar sínar á borð við Parísarsamkomulagið að fullu.
Efla þarf rannsóknir á áhrifum hlýnunar á vistkerfi lands og sjávar með sérstakri áherslu á súrnun sjávar en einnig þarf að huga að viðbrögðum vegna hækkunar sjávarborðs um allt land. Vinstri græn vilja líka skipuleggja þéttbýli betur þannig að almenningssamgöngur, hjólreiðar og ganga verði raunhæfir valkostir og skoða eigi alvarlega sporbundnar almenningssamgöngur í almannaeign á Suðvesturhorninu. Beita beri hagrænum hvötum í enn meira mæli og byggja upp innviði til að græn samgöngutæki verði hagkvæmasti kosturinn.
3) Hvert ætti hlutverk ríkisins að vera í baráttunni gegn loftslagsbreytingum?
Flokkarnir kveða misjafnlega sterkt að orði um hvert hlutverk ríkisins eigi að vera í aðgerðum til að berjast gegn hnattrænni hlýnun. Vinstri græn og Viðreisn segja beinum orðum að ríkið þurfi að draga vagninn hvað þetta varðar og Björt framtíð fullyrðir beinlínis að Parísarsamkomulagið verði að móta efnahagslegan langtímastöðuguleika og framtíðarhagkerfi Íslands.
Samfylking telur hlutverk ríkisins mikilvægt og Píratar vísa til þess að það gangi fram með góðu fordæmi og tryggi nauðsynlega innviði til grænni lifnaðarhátta. Sjálfstæðismenn telja ríkið þurfa að hafa loftslagsmarkmið í huga við allar ákvarðanir og hafi forgöngu um upplýsingar um stöðu umhverfismál en framsóknarmenn að ríkið eigi að taka þátt í alþjóðasamstarfi og rannsaka og vakta loftslagsbreytingar.
Björt framtíð
Björt framtíð telur að Parísarsamkomulagið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda verði einfaldlega að móta efnahagslegan langtímastöðugleika og framtíðarhagkerfi Íslands. Umhverfis- og loftslagsmál eru ekki lengur einkamál hugsjónafólks, þau eru lykilforsendur framtíðarhagvaxtar og lífsafkomu okkar. Ríkið á að setja sér metnaðarfull markmið og miða við að árið 2050 verði Ísland búið að innleiða að fullu grænt lágkolefnishagkerfi sem byggir á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, fullnýtingu afurða og öflugri nýsköpun á sviði líftækni og hugvits.
Framsóknarflokkurinn
Framsóknarflokkurinn telur að hlutverk ríkisins ætti að vera að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi, rannsaka og vakta og lýsir ánægju að auknu fjármagni var veitt til loftslagsmála. Brýnt er að stofnanir á vegum ríkisins rannsaki og vakti loftslagsbreytingar til að takast á við strangari skuldbindingar.
Píratar
Píratar telja að stjórnvöld skuli ganga fram með góðu fordæmi í rekstri hins opinbera, allri stefnumörkun og ákvarðanatöku. Stjórnvöld eiga að tryggja nauðsynlega innviði fyrir rafbílavæðingu og umhverfisvænni lífsstíl. Stjórnvöld skulu nota hagræna hvata til að draga úr útstreymi mengunar í umhverfið. Með því að hvetja almenning og fyrirtæki með ívilnunum fyrir aðgerðir í þágu umhverfisins og að sama skapi letja aðila til mengunarvaldandi starfsemi og framkvæmda er hægt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Aðilar sem losa mengandi efni út í umhverfið beri því ætíð kostnað af slíku.
Samfylkingin
Hlutverk ríkisins er mikilvægt. Ekki bara til að marka stefnu heldur til koma með fjármagn í nauðsynleg verkefni og búa til hagræna hvata sem styðja við umhverfisvænar sjálfbæra hegðun.
Sjálfstæðisflokkurinn
Ríkið hefur bæði beinu og óbeinu hlutverki að gegna. Hið opinbera, bæði ríki og sveitarfélög, verður jafnan að taka tillit til hins yfirlýsta markmiðs Íslands við allar ákvarðanir sem teknar eru. Hin mikla losun gróðurhúsalofttegunda sem stafar frá framræstu landi má að mestu leyti rekja til umfangsmikilla niðurgreiðslna til framræslu lands sem stóð yfir í áratugi. Í nýgerðum búvörusamningum var fallið frá styrkjum til viðhalds þessara skurða. Þetta er dæmi um ákvörðun sem hefur bein áhrif í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Ríkið hefur einnig þeim skyldum að gegna að stuðla að því að nýjustu upplýsingar um stöðu umhverfismála og árangursríkustu leiðir að bættu umhverfi liggi ávalt fyrir á hverjum tíma.
Viðreisn
Ríkið þarf óhjákvæmilega að vera í forystu í þessari baráttu. Það felur m.a. í sér að standa fyrir aðgerðum til að draga úr okkar hlut í áhrifum af hnattrænni notkun jarðefnaeldsneytis, ýmist með því að draga úr notkun þess að eða með því að standa fyrir eða stuðla að mótvægisaðgerðum. Það er stefna Viðreisnar að ríkið sjái til þess að þeir sem menga greiði fyrir nauðsynlegar mótvægisaðferðir.
Vinstri græn
Við höfum því miður ekki tíma til þess að bíða eftir því að einstaklingar eða markaðurinn taki við sér og leysi loftslagsvandann af sjálfsdáðum. Ríkið þarf að draga vagninn og það er hlutverk þess að skapa umhverfi sem hvetur til betri hátta og beinir neyslu að loftslagsvænum vörum. Það má til dæmis gera með skattaívilnunum fyrir grænar lausnir og sköttum á mengandi starfsemi. Ríkið þarf alltaf að vera með „grænu gleraugun“ á nefinu við allar ákvarðanatökur og skoða þær út frá loftslagsáhrifum. Græn pólitík er framtíðarpólitík!
4) Rannsóknir benda til þess að skilja þurfi meirihluta olíu, kola og gass eftir í jörðu ef markmið um að halda hnattrænni hlýnun innan við 2°C á að nást. Er það samræmanlegt loftslagsskuldbindingum Íslands að stefna að olíuvinnslu á Drekasvæðinu? Ætlar flokkurinn að beita sér fyrir olíuvinnslu þar?
Aðeins Framsóknarflokkurinn lýsir því að hann styðji áframhaldandi olíuleit og vinnslu á Drekasvæðinu. Björt framtíð, Píratar, Samfylkingin og Vinstri græn lýsa sig andsnúin frekari leit og vinnslu og telja hana ekki samræmast markmiðum í loftslagsmálum.
Viðreisn og Sjálfstæðisflokkur segjast aftur á móti ekki hafa það sérstaklega á stefnuskrá sinni að vinna olíu á Drekasvæðinu en telja slíka vinnslu ekki endilega stangast á við loftslagsskuldbindingar. Sjálfstæðisflokkurinn segist ekki ætla að rifta núverandi samningum við fyrirtæki sem leita að olíu.
Björt framtíð
Björt framtíð telur olíuvinnslu á Drekasvæðinu ekki samræmanlega loftslagsskuldbindingum Íslands og mun beita sér fyrir því að svæðið verði látið óhreyft. Ísland sem forystuland á sviði endurnýjanlegra orkugjafa á mun frekar að leiða græna nýsköpun sem gagnast uppbyggingu lágkolefnishagkerfa heimsins.
Framsóknarflokkurinn
Ákvörðun var tekin fyrir fimm árum síðan, á síðasta kjörtímabili, að setja af stað undirbúningsvinnu varðandi rannsóknir og vinnslu. Þá var vinna sett í gang í stjórnsýslunni til að undirbúa umhverfið. Framsóknarflokkurinn hefur stutt áframhald þeirra vinnu og hefur henni verið sinnt innan ráðuneyta og stofnana.
Píratar
Ísland á að taka skýra afstöðu gegn frekari olíuleit og olíuvinnslu í efnahagslögsögunni. Slíkt gengur gegn markmiðum Pírata um að vernda lofthjúp jarðar.
Samfylkingin
Samfylkingin var fyrst íslenskra stjórnmálaflokka til að álykta gegn olíuvinnslu á Drekasvæðinu og við leggjumst gegn olíuvinnslu í íslenskri lögsögu.
Sjálfstæðisflokkurinn
Síðasta ríkisstjórn gaf út leyfi til olíuleitar og til vinnslu olíu í takmarkaðan tíma ef olía finnst. Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki hafa frumkvæði að því að rifta þeim samningum en hefur ekki áætlun um að hafa sérstakt frumkvæði að olíuvinnslu. Olíuvinnsla þarf ekki að stangast á við markmið Parísarsamkomulagsins. Það er nokkuð til þess vinnandi að draga úr notkun kolaorku. Við sumar aðstæður er olía eini raunhæfi kosturinn þótt þróun nýrra orkugjafa muni vonandi skila sér í öðrum kostum.
Viðreisn
Viðreisn hefur það ekki á stefnuskrá sinni að beita sér fyrir olíuvinnslu á Drekasvæðinu, þó svo að framleiðsla á olíu og gasi í íslenskri lögsögu fari ekki í bága við loftslagsskuldbindingar. Þær skuldbindingar lúta að notkun eldsneytis en ekki að framleiðslu þess. Hættulegustu gróðurhúsaáhrifin stafa reyndar af bruna kola, m.a. við raforkuframleiðslu. Olía og einkum gas eru mun skárri í þessu tilliti.
Samkvæmt alþjóðlegum spám um orkunotkun og framleiðslu næstu áratugi eru allar líkur á að kolabruni muni lítt minnka. Verði dregið úr framleiðslu á olíu og gasi, er afar líklegt að kolanotkun muni vaxa, enda bendir ekkert til þess að orka úr endurnýjanlegum orkulindum geti vaxið nógu hratt, nema til komi byltingarkenndar, vistvænar orkulausnir á sviði kalds samruna o.s.frv.
Vinstri græn
Vinstri græn eru algjörlega andvíg öllum áformum um olíuleit og vinnslu og ályktuðu m.a. á landsfundi sínum í október 2015 gegn hugmyndum um vinnslu jarðefnaeldsneytis á íslensku yfirráðasvæði, þar með talið fyrirhugaðri olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Landsfundurinn ítrekaði mikilvægi þess að horfið verði af braut olíuvinnslu og hvatti til einarðrar baráttu fyrir umbreytingu Íslands í samfélag án jarðefnaeldsneytis, Frekari olíuvinnsla er tímaskekkja nú þegar aldrei hefur verið meiri þörf á að sporna við hlýnun jarðar.
Ríki heims hafa samþykkt að halda hlýnun jarðar undir 2°C og stefna að því að takmarka hana við 1,5°C. Það alþjóðlega markmið er með öllu ósamrýmanlegt áformum að leita að og vinna meira jarðefnaeldsneyti til að brenna. Við það má bæta að við vinnslu og flutning á olíu verða stundum slys og lekar sem valda gríðarlegum skaða í náttúrunni. Stórt olíuslys við Íslandsstrendur yrði mjög dýrkeypt og gæti valdið óafturkræfum skaða á lífríki við landið, bæði á ströndum og í hafi, og haft slæmar efnahagslegar afleiðingar í för með sér. Það eru líka táknræn og fordæmisgefandi skilaboð til alþjóðasamfélagsins ef Ísland kýs að nýta ekki mögulegar olíu- og/eða gaslindir í lögsögu sinni.