Léttir til að loknum kosningum

Vonandi komast allir á kjörstað á laugardag þrátt fyrir að …
Vonandi komast allir á kjörstað á laugardag þrátt fyrir að spáin sé ekki spennandi. Ljósmynd/Gunnar Gunnarsson

Veðurspáin fyrir kjördag er frekar óspennandi og að sögn Haralds Eiríkssonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands, verður leiðindaveður um allt land á laugardag en spáin er mun betri fyrir sunnudag.

„Það hvessir með rigningu og slyddu sunnan- og vestanlands en fyrir norðan verður væntanlega slydda og snjókoma fram eftir degi. En það á einnig að hlýna þar þegar líður á daginn þannig að þetta er ekkert alslæmt,“ segir Haraldur.

Að sögn Haralds gæti verið tvísýnt með flug og eins gæti færð spillst á fjallvegum fyrir norðan og á Vestfjörðum. En um kvöldið verður veðrið gengið niður og það hlýnar,“ segir Haraldur.

Kjörstaðir eru almennt opnir til klukkan 22 og á Austurlandi …
Kjörstaðir eru almennt opnir til klukkan 22 og á Austurlandi eru kjörkassar fluttir til Egilsstaða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Veðurspáin fyrir helgina:

Á laugardag:
Gengur í austan og suðaustan 13-18 m/s með slyddu og síðar rigningu, fyrst suðvestanlands, en slyddu eða snjókomu fyrir norðan fram eftir degi. Hlýnandi veður, rigning um allt land um kvöldið og fer að draga úr vindi.

Á sunnudag:
Sunnan- og suðvestanátt, víða 8-15 m/s og rigning eða skúrir, en léttir til á NA-verðu landinu. Hiti yfirleitt 3 til 8 stig.

Í frétt Morgunblaðsins í dag kemur fram að yfirkjörstjórn í Norðausturkjördæmi er viðbúin því að hugsanlega þurfi að fresta talningu einhvers hluta atkvæða úr kjördæminu, hamli veður og færð því að hægt verði að flytja kjörgögn t.d. af Austurlandi á talningarstað á Akureyri á laugardagskvöldið. Veðurspá fyrir norðanvert landið gefur tilefni til að ætla að þessi staða geti komið upp, því spáð er snjókomu og síðar slyddu um norðanvert landið á laugardag.

„Hér er fólk við öllu búið og við fylgjumst grannt með veðurspám og öðru,“ segir Gestur Jónsson, formaður yfirkjörstjórnar, í samtali við Morgunblaðið.

Löng leið að austan

Norðausturkjördæmi er víðfeðmt, nær yfir svæðið frá Siglufirði suður á Djúpavog, og kjósendur á svæðinu eru 29.569. Á Austfjörðum, þar sem kjörstaðir eru almennt opnir til kl. 22, eru kjörkassar með atkvæðaseðlum fluttir til Egilsstaða og þaðan svo með flugvél til Akureyrar. Yfirleitt hefur vélin farið í loftið um miðnætti og þá er hægt að byrja að telja atkvæðin á Akureyri um klukkan 1 um nóttina. Nú gæti hins vegar orðið tvísýnt með flug og ef flytja þarf kjörgögn með bíl til Akureyrar tekur það langan tíma ef eitthvað er að færð. Hugsanlega kæmi sendingin að austan ekki fyrr en undir morgun og þá eru talning og afstemming eftir.

Samkvæmt þeim verkreglum sem yfirkjörstjórnir starfa samkvæmt er heimild fyrir því að fresta talningu atkvæða ef óviðráðanlegar aðstæður krefjast. „Við leggjum mikið upp úr því að blanda atkvæðum víða að úr kjördæminu vel saman við talningu. Við hrærum vel í og viljum að með því sjáist í stórum dráttum þegar tölur koma hvernig landið liggur,“ útskýrir Gestur Jónsson. Hann segir yfirkjörstjórn funda í dag þar sem meðal annars verði teiknuð upp áætlun um vinnubrögð og annað, þurfi að fresta talningu atkvæða fram á sunnudaginn.

Finna aðra færa leið

En hver er staðan í öðrum landsbyggðarkjördæmum? Kristján G. Jóhannsson er formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi. Hann segir að veðurútlit fyrir svæðið sé þokkalegt og því hafi hann ekki áhyggjur af því að talning tefjist af þeim sökum. Einasta sé að færð á hæstu fjallvegum á Vestfjörðum gæti teppst, en þá muni lögreglan sem flytur kjörgöngin væntanlega finna aðra færa leið.

 Telja má víðar

Í Suðurkjördæmi, rétt eins og nyrðra, er yfirkjörstjórn við því búin að hugsanlega þurfi að fresta talningu atkvæða vegna veðurs eða annarra aðstæðna. Karl Gauti Hjaltason, formaður kjörstjórnarinnar, bendir á að í kosningalögum sé heimild fyrir því að telja atkvæði víðar en á miðlægum stað, ef svo ber undir. Fela megi umdæmiskjörstjórn þetta hlutverk. Í Suðurkjördæmi gæti þetta átt við um til dæmis Vestmannaeyjar og Höfn í Hornafirði. Aldrei hafi þó komið til þess að slíkar kjörstjórnir væru skipaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert