Vilja eyða kynbundnum launamun

Stjórnmálaflokkarnir eru samstíga um að vilja eyða kynbundnum launamun. Þetta kemur fram í svörum frá þeim sjö flokkum sem mælst hafa með yfir 5% fylgi í skoðanakönnunum við fyrirspurnum mbl.is. Spurt var annars vegar til hvaða aðgerða stjórnmálaflokkarnir vildu grípa til þess að taka á kynbundnum launamun og hins vegar hvenær þeir gerðu ráð fyrir því að hann heyrði sögunni til.

Flokkarnir eru hins vegar ekki að öllu leyti sammála um það með hvaða hætti eigi að ná því markmiði að eyða kynbundnum launamun. Talað er meðal annars um jafnlaunavottun í þeim efnum, vitundarvakningu, jafnlaunadag og afnám launaleyndar. Sömuleiðis opinbert eftirlit sem og lækkun opinberra gjalda til fyrirtækja sem sýna fram á árangur í þessum efnum.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hugarfarsbreyting nauðsynleg til árangurs

„Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja jöfn tækifæri allra. Laun eiga að endurspegla hæfni, ábyrgð, vinnuframlag og frammistöðu launþega en aldrei kyn. Markmið Sjálfstæðisflokksins er að hvergi sé munur á launum kynjanna. Næsta verkefni í jafnréttismálum er að takast á við kynbundinn launamun,“ segir í svari frá flokknum.

„Það er algjörlega óviðunandi að ekki skuli vera greidd sömu laun fyrir sambærileg störf, en það er einungis hluti af lausninni að setja lög og reglur um aðgerðir. Það verður jafnframt að koma til hugarfarsbreyting til þess að við náum árangri til langs tíma.“

Sjálfstæðisflokkurinn var einnig spurður að því hvenær hann sæi fyrir sér að kynbundinn launamunur heyrði sögunni til: „Sem allra allra fyrst. Við eigum að vera búin að sjá til þess að þessi munur sé ekki til staðar. Næsta stóra skref sem stíga þarf í jafnréttisbaráttunni er að eyða kynbundnum launamun.“

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eftirlit geti rannsakað launamál fyrirtækja

Píratar vilja að gerðar verði breytingar á kjarasamningum til þess að tryggja launajafnrétti. Afnema skuli launaleynd „og stuðla að gagnsæi og sanngirni í launamálum með því að skylda fyrirtæki og stofnanir til að gera öllu starfsfólki aðgengilegar nákvæmar og réttar upplýsingar um launakjör alls starfsfólks.“

Eftir sem áður megi fyrirtæki „skylda starfsfólk sitt til að meðhöndla upplýsingar þessar sem trúnaðarmál nema í samskiptum við hið opinbera, við stéttarfélög og þegar kemur að eigin kjörum.“ Þá verði séð til þess „að eftirlitsaðili hafi heimild til þess að rannsaka launamál fyrirtækja til að leita skýringa á óútskýrðum launamun.“

Píratar telja að með samstilltu átaki væri hægt að útrýma kynbundnum launamun á skömmum tíma „en því miður hefur viss tregða í málaflokknum staðið í vegi fyrir þessum nauðsynlegu framförum. Við sjáum fyrir okkur að ef tillögur Pírata í málaflokknum yrðu að veruleika væri stóru skrefi náð í þágu jafnréttis á Íslandi.“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Eggert

Fræða þurfi vinnuveitendur og launafólk

„Launamunur kynjanna er bara ein birtingarmynd af kerfisbundnu óréttlæti í samfélagi sem metur konur ekki til jafns við karla. Launamunur getur birst á tvo vegu, annars vegar í kynbundnum launamun og hins vegar í kynskiptum vinnumarkaði,“ segir í svari Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Auka þurfi fræðslu bæði vinnuveitenda og launafólks um vandamálið til þess að koma í veg fyrir kynbundinn launamun.

„Vinnuveitendur þurfa að vera meðvitaðir um þessa slagsíðu sem verður oft og leiðrétta markvisst fyrir henni. Þá þarf sérstaklega að auka fræðslu um jafnréttislögin sem samþykkt voru árið 2008 og bönnuðu launaleynd. Ríkið þarf jafnframt að útbúa verkfæri fyrir launagreiðendur sem hjálpar þeim að taka á kynbundnum launamun, líkt og jafnlaunavottun. Samhliða því þarf að þróa löggjöf þannig að fyrirtæki og opinberar stofnanir sjái sér hag í að taka þátt í að útrýma honum.“

Vinstri-græn segja að óskandi væri að hægt yrði að útrýma kynbundnum launamun með einu pennastriki strax á morgun en málið væri töluvert flóknara en svo. „Kynbundið óréttlæti er því miður inngróið mein í samfélaginu sem mun taka tíma að uppræta. Í ár eru 40 ár síðan jafnréttislögin voru sett og enn búi kynin ekki við jafnan rétt og stöðu. Við viljum ekki bíða í önnur 40 ár eftir því að framlag kvenna til samfélagsins sé metið til jafns við karla.“

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar.
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Viðhorfsbreyting tekur of langan tíma“

Viðreisn bendir á það í sínu svari að flokkurinn hafi þegar samið frumvarp sem kveði á um lagaskyldu allra opinberra stofnana og einkafyrirtækja með fleiri en 25 starfsmenn að láta fara fram árlega jafnlaunavottun sem unnin sé árlega af óháðum aðila „rétt eins og er um gerð ársreikninga og öllum finnst algjörlega sjálfsagt að fyrirtæki þurfi að vinna. Það sama ætti að gilda um þessa vottun.“

„Kostnaður við slíka vottun er ekki mikill, en gera mætti ráð fyrir um 3000 kr. á hvern starfsmann í fyrsta sinn sem vottunin er unnin en eftir það um 1000 kr, þó vissulega fari það eftir aðstæðum hverju sinni. Þrátt fyrir lágan kostnað við vottunina er ávinningurinn fyrir konur á vinnumarkaði aftur á móti umtalsverður í ljósi þeirrar staðreyndar að óútskýrður launamunur er enn 10%. Það er einfaldlega ekki boðleg staða árið 2016,“ segir ennfremur.

Hvað varðar þá spurningu hvenær kynbundnum launamun heyri sögunni til miðað mvið tillögur flokksins segir í svari Viðreisnar að árangurinn til þessa hafi verið of lítill og tekið of langan tíma. „Viðhorfsbreyting tekur einfaldlega of langan tíma og löggjöfin verður að þessu leyti einnig tæki til að hafa áhrif á viðhorfin. Erfitt sé að segja hversu fljótt hægt verði að útrýma kynbundnum launamun. „Þessi aðgerð ætti hins vegar að flýta verulega fyrir í þeim efnum.“

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Haldinn verði árlega jafnlaunadagur

„Framsóknarflokkurinn vill fara í markvisst kynningarstarf á faggildri vottun jafnlaunakerfa, bæði í fyrirtækjum og stofnunum. Við viljum safna upplýsingum um þau fyrirtæki og stofnanir sem hafa farið í gegnum jafnlaunakerfið og gera þær upplýsingar opinberar til að gefa skýrari mynd um þróun jafnréttismála á Íslandi. Að haldinn verði árlegur jafnlaunadagur sem nýttur verði til vitundarvakningar um jafnlaunamál og jafnrétti á vinnumarkaði.“

Fram kemur ennfremur í svari Framsóknarflokksins að með tilkomu Jafnlaunastaðals sé fyrst hægt að vinna markvisst að því að útrýma launamun kynjanna. „Ef rétt er haldið á málum má ætla að launamunur kynjanna heyri sögunni til á komandi misserum. Það er þó töluverð vinna fólgin í því að fara í gegnum það ferli sem jafnlaunastaðallinn kallar eftir en það er þess virði ef stofnanir- og fyrirtæki vilja sannarlega jöfn laun óháð kyni.“

Varðandi það hvenær Framsóknarflokkurinn sér fyrir sér að kynbundnum launamun verði eytt sgeir í svari flokksins: „Það er gríðarlega erfitt og ómögulegt að leggja mat á það hvenær kynbundinn launamunur muni heyra sögunni til, en að sjálfsögðu mun flokkurinn gera allt sem hægt er til þess að útrýma kynbundinn launamun á sem styðstum tíma.“

Óttar Proppé, formaður Bjartar framtíðar.
Óttar Proppé, formaður Bjartar framtíðar. mbl.is/Styrmir Kári

Mismunandi verðmat starfa hefur mikil áhrif

„Launaupplýsingar þurfa að vera aðgengilegar, opinberar og greindar eftir kyni. Aukin krafa á birtingu kyngreindra launagagna skapar aðhald á að lögum og því að samningum sé framfylgt. Jafnlaunastaðall er mikilvægt tæki í baráttunni gegn kynbundnum launamun, en einnig þarf að draga úr kynskiptingu vinnumarkaðarins, þ.e. að störf séu í karllæg/kvenlæg. Stefna í kjarasamningum þarf að endurspegla vilja til að eyða kynbundnum launamun,“ segir í svari Bjartrar framtíðar.

Launamunur felist að stóru leyti í mismunandi verðmati starfa eftir geirum sem haldist í hendur við kynskiptan vinnumarkað. Aðgerðir sem dragi úr skiptingu vinnumarkaðar séu því mikilvægar. Ennfremur þurfi að hækka hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi. Lágar greiðslur í fæðingarorlofi virki letjandi á karla að taka sinn hluta orlofsins. Lög um fæðingarorlof eiga að tryggja barni jafnar samvistir við báða foreldra og auka jafnrétti kynja á vinnumarkaði.“

Til að kerfið uppfylli lögin þurfi því að gera báðum foreldrum raunverulega kleift að nýta fullan rétt sinn. Þannig sé réttur barna best tryggður sem og jafnrétti á vinnumarkaði. Einnig þurfi að brúa bilið frá fæðingarorlofi að leikskólabyrjun með aðkomu ríkisins. „Það er ógerningur að tímasetja það hvenær fullnaðarsigur mun nást þar sem um er að ræða samspil milli ríkis og sveitarfélaga og vinnumarkaðarins. Það er hins vegar afar brýnt að ráðist verði strax í ofangreindar aðgerðir til að taka fyrstu skrefin.“

Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar.
Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert

Vill útrýma kynbundnum launamun á morgun

Samfylkingin hyggst taka á kynbundnum launamun meðal annars með því að tvöfalda fjárframlög til jafnréttismála á fjárlögum samkvæmt svari flokksins. Samfylkingin hafi lagt áherslu á jafnlaunavottun og jafnlaunaátak á síðasta kjörtímabili og undir forystu hans hafi kynbundinn launamunur lækkað á núverandi kjörtímabili og séí dag lægri en hjá ríkinu og öðrum sveitarfélögum.

„Við viljum hvetja fyrirtæki og stofnanir til að útrýma launamuni kynjanna með beinum aðgerðum og ríkisstofnanir geta gert sitt, til dæmis með lækkun opinberra gjalda til fyrirtækja sem standa sig vel eða áminningum til opinberra stofnanna. Ólaunað vinnuframlag kvenna og álagið sem því fylgir er enn verkefni sem við verðum að taka á, og að meta hefðbundin kvennastörf að verðleikum.“

Fara verði í jafnlaunaátak og styðja við viðhorfsbreytingu gagnvart konum á vinnumarkaði sem skili þeim í stjórnunar- og ábyrgðarstöður til jafns við karla og á sömu launum og þeir. „Ef framheldur sem horfir verður jafnrétti náð eftir 50 ár. Við verðum að flýta þessari þróun. Óútskýrður launamunur er 18% í dag. Við viljum útrýma honum á morgun!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert