„Mér líður ólýsanlega eiginlega,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins sem jafnframt skipar 2. sæti í Reykjavíkurkjördæmi norður. Samkvæmt fyrstu tölum er hún örugg inn á þing, og kveðst hún afar ánægð með það. „Ég er til í nýja starfið og ætla að gera mitt allra besta.“
„Ég er mjög örugg inn sem 2. þingmaður Reykjavík norður og það er auðvitað bara svolítið ótrúlegt. Maður er búinn að vera að stefna á þetta í svolítið langan tíma í prófkjöri og kosningabaráttu en það er ótrúlegt að þetta sé að gerast og að kosningabaráttan sé að klárast með svona frábærum hætti,“ segir hún.
Áslaug segir niðurstöðuna vera skýr skilaboð þjóðarinnar. „Þetta er það sem maður hefur verið að finna í baráttunni. Fólk vill vera jákvætt og bjartsýnt fyrir framtíðinni og það höfum við verið að stóla inn á í baráttunni,“ segir hún og heldur áfram:
„Maður þorði ekki að vona að þetta yrði niðurstaðan. Við erum að sjá þetta gríðarlega fylgi en þetta eru auðvitað bara fyrstu tölur og við bíðum þolinmóð eftir restinni. En þetta gefur okkur skýr skilaboð um að við séum á réttri leið og að fólk vilji áframhaldandi bjartsýni og framtíðarsýn.“
„Það mætti segja að Sjálfstæðisflokkurinn væri að toppa á réttum tíma,“ segir Áslaug og heldur áfram: „Þetta eru kannski frekar skýr skilaboð til okkar um að fólk sé ánægt með störf okkar á þessum síðustu þremur árum og að það vilji hafa okkur leiðandi í næstu ríkisstjórn. Við erum ekki að fara að umbylta Íslandi heldur ætlum við að halda áfram á þessari braut og halda áfram að byggja upp.“