Mjög hátt hlutfall útstrikana

Alþingi Íslands.
Alþingi Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Gestur Jónsson, formaður yfirkjörstjórnar í Norðausturkjördæmi, segir að mjög mikið hafi verið um útstrikanir í alþingiskosningunum á laugardag, en samtals var um 1.253 útstrikanir að ræða í kjördæminu.

„Þetta er mjög hátt hlutfall útstrikana, miðað við það sem áður hefur verið,“ segir Gestur í samtali við mbl.is.

mbl.is hefur áður greint frá því að áberandi mest hafi verið um útstrikanir á lista Framsóknarflokksins, en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, er oddviti flokksins í kjördæminu. Flokkurinn hlaut 4.542 atkvæði þar á laugardag, eða 20% atkvæðanna.

Niðurstaðan kynnt á mánudag

Gestur segir að yfirkjörstjórn Norðausturkjördæmis hafi sent niðurstöður sínar til landskjörstjórnar í gærkvöldi, sem yfirfari nú þau gögn sem send hafi verið. Á meðan landskjörstjórn hafi ekki lokið störfum, sé frekari flokkun á útstrikunum eftir stjórnmálaflokkum ekki gefin upp.

Þórhallur Vilhjálmsson, ritari landskjörstjórnar, sagði að stjórnin yfirfæri nú gögn af öllu landinu og áætlað væri að gefa það út á mánudaginn, þann 7. nóvember, hver niðurstaðan væri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert