Bjarni: Ekki auðsótt að mynda ríkisstjórn

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ræddi við fjölmiðla fyrir utan Valhöll …
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ræddi við fjölmiðla fyrir utan Valhöll í hádeginu. mbl.is/Eggert

„Ég ætla ekki að tilkynna neitt. Við ætlum bara að halda enn einn fundinn,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, þegar hann kom á þingflokksfund flokksins í hádeginu í dag.

„Ég get svo sem sagt að í þeim samtölum sem ég hef átt við formenn annarra flokka þá hafa línurnar smám saman verið að skýrast. Það er eftir sem áður staðan að það er ekki alveg auðsótt að mynda ríkisstjórn,“ bætti Bjarni við en hann fékk stjórnarmyndunarumboðið fyrir viku.

„Mér finnst að það þurfi annaðhvort að setja af stað einhverjar slíkar viðræður í þessari viku eða horfast í augu við það að menn náðu þessu ekki saman,“ sagði Bjarni þegar hann var spurður að því hvort formlegar viðræður myndu hefjast í vikunni.

Formaðurinn sagðist ekki hafa útilokað að honum tækist ekki að mynda ríkisstjórn. „Ég hef aldrei útilokað það. Ég hef alltaf sagt að þetta sé krefjandi. Ég hef bundið vonir við þann tón sem hefur verið sleginn af mörgum að menn vilji vinna með þá niðurstöðu sem við fengum í kosningunum; að menn sýni samstarfsvilja. Mér finnst menn hafa gert fullmikið af því í næsta orði að útiloka ýmsa valkosti og það þrengir stöðuna mikið.“

Sjálfstæðisflokkurinn hefur rætt við Viðreisn og Bjarta framtíð en samtals verða þeir þingflokkar með 32 þingmenn á þingi; eins manns meirihluta. Bjarni segir þingmannafjöldann ekki vera það eina sem standi í veginum.

„Það er ekki bara það að sú ríkisstjórn væri með tæpan meirihluta, menn verða líka að ná saman málefnalega. Af þeim samtölum sem hafa átt sér stað eru vissulega margir snertifletir en alls ekki sjálfgefið að menn nái sér saman um megináherslur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert