Agnes Bragadóttir
Forysta Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hefur hafnað því að taka upp stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins ræddu á fundi í gær um kosti þess og galla að reyna stjórnarmyndun með Viðreisn og Bjartri framtíð.
Mikill þrýstingur mun hafa verið á Katrínu Jakobsdóttur, formann VG, að ljá ekki máls á viðræðum við fráfarandi stjórnarflokka, ekki síst úr ungliðahreyfingu flokksins og grasrót. Birtist það, samkvæmt heimildum blaðsins, í hótunum um afsagnir úr trúnaðarstöðum fyrir flokkinn.
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem rætt var við höfðu litla sem enga trú á því að nokkuð bitastætt kæmi út úr viðræðum við Viðreisn og Bjarta framtíð. Fari það svo að Bjarni meti stöðuna þannig að ekki sé vænlegt til árangurs að taka upp formlegar viðræður á hann þann kost einan að skila umboðinu. Líklegt er talið að Katrín Jakobsdóttir muni þá reyna myndun fimm flokka vinstristjórnar, segir í frétt Morgunblaðsins í dag.