Frumvarp um afnám uppreistar æru verður að öllum líkindum lagt fram á fundi forseta Alþingis með formönnum flokkanna, sem er nýhafinn.
„Við munum fara yfir þrjú til fjögur mál. Málefni útlendinga, lögmannsréttindi, stjórnarskrá og síðan skilst okkur að Sigríður [Á. Andersen dómsmálaráðherra] komi með frumvarp um afnám uppreistar æru,“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, skömmu fyrir fundinn.
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra sagði að fundurinn legðist ágætlega í sig. „Það er alltaf gott að menn hittist og ræði málin. Við formennirnir munum ræða svipuð mál og við höfum verið að ræða síðustu daga. Við munum skoða mál sem mögulega næst samstaða um að þurfi og sé hægt að klára áður en þingi sé slitið. Maður er bjartsýnn þegar menn eru ennþá að tala saman."
Þetta er þriðji fundurinn sem forseti Alþingis á með formönnum flokkanna þar sem farið er yfir hvort samstaða náist um ákveðin mál áður en þingi verður frestað.
Síðasti fundur var haldinn á miðvikudag.