„Þeir brugðust sem stóðu manni næst“

Ræðu Bjarna var varpað á skjáinn og streymt á netinu.
Ræðu Bjarna var varpað á skjáinn og streymt á netinu. mbl.is/Golli

„Þeir brugðust sem stóðu manni næst.“ Þetta sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á kosningafundi flokksins sem haldinn var á Hótel Nordica fyrr í dag. Vísaði hann þar til þeirrar ákvörðunar Bjartrar framtíðar að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu og yfirlýsinga forystumanna Viðreisnar um að það hafi einnig staðið til hjá þeim.

Bjarni sagði ríkisstjórnina hafa verið myndaða vegna þess að annað stjórnarsamstarf hafi ekki staðið til boða. Mátti greina afsökunartón í rödd formannsins en hann sagðist frá upphafi hafa vitað að veikleiki þessarar stjórnar lægi í því að litlir flokkar standi oft illa í mótvindi. Þannig komi fát á þá ef fylgið mælist undir 5% of lengi.

„En ef einhver hefði sagt mér að þessi ríkisstjórn myndi falla í einhverri netkönnun 50 manna þá hefði ég aldrei farið í þessa stjórn,“ sagði Bjarni.

Í nýrri könnun á fylgi flokkanna, sem birtist í Morgunblaðinu í morgun, mælist stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn 23% sem er minna en í þingkosningunum 2009 er flokkurinn fékk sína verstu kosningu. Bjarni sagði að Sjálfstæðismenn ættu þó ekki láta fylgiskannanir trufla sig. „Einungis viku fyrir kosningar [í fyrra] var staðan talsvert verri.“ Var fylgið þá á svipuðum slóðum og nú.

Kynferðisbrotamenn finni ekki skjól í flokknum

Bjarni sagði andstæðinga Sjálfstæðisflokksins reyna að halda því fram að kynferðisbrotamenn eigi eitthvert skjól í flokknum og flokksmenn fái að heyra að þeir finni ekki til með þolendum. Sagði Bjarni það af og frá. Flokkurinn stæði með þolendum og aðstandendum þeirra. „Við vitum að þolendur eru alls staðar í samfélaginu, og líka með okkur hér í dag.“

Benti hann á að Sjálfstæðisflokkurinn hefði leitt ríkisstjórn þegar hegningarlög voru endurskoðuð árið 2006, er nauðgunarhugtakið var útvíkkað og refsingar hertar. 

„Þegar þeir vilja fara niður á þetta plan þá tökum við umræðuna hingað upp,“ sagði Bjarni og vitnaði þar til þekkts frasa sem Mihelle Obama notaði fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í fyrra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka