Skapa svigrúm og nýtt þing tekur afstöðu

Með frumvarpinu eru gerðar tvenns konar breytingar til bráðabirgða.
Með frumvarpinu eru gerðar tvenns konar breytingar til bráðabirgða. mbl.is/Golli

Frum­varp um breyt­ing­ar á lög­um um út­lend­inga er annað þeirra frum­varpa sem stend­ur til að af­greiða á Alþingi í dag áður en þing­störf­um lýk­ur. Frum­varpið þarf að fara í gegn­um þrjár umræður og hljóta af­greiðslu í nefnd áður en það verður að lög­um. Katrín Jak­obs­dótt­ir, þingmaður Vinstri grænna, er flutn­ings­maður frum­varps­ins. Meðflutn­ings­menn koma úr öll­um flokk­um nema Sjálf­stæðis­flokki.

Með frum­varp­inu eru lagðar til tvenns kon­ar breyt­ing­ar til bráðabirgða á lög­um um út­lend­inga, sem taka til barna sem hafa sótt um alþjóðlega vernd hér á landi fyr­ir gildis­töku lag­anna og hafa ekki þegar yf­ir­gefið landið.

Frest­ir stytt­ir í 9 og 15 mánuði

Ann­ars veg­ar er lagt til að frest­ur verði stytt­ur úr tólf mánuðum í níu þegar kem­ur að því að taka um­sókn um vernd til efn­is­legr­ar meðferðar. Í því felst að hafi meira en níu mánuðir liðið frá því að um­sókn barns um alþjóðlega vernd barst fyrst ís­lensk­um stjórn­völd­um skuli al­mennt taka hana til efn­is­legr­ar meðferðar. 

Hins veg­ar er lagt til að frest­ur verði stytt­ur úr átján mánuðum í fimmtán þegar kem­ur að því að veita barni dval­ar­leyfi á grund­velli mannúðarsjón­ar­miða. Í því felst að heim­ilt verður að veita barni, sem sótt hef­ur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niður­stöðu í máli sínu á stjórn­sýslu­stigi inn­an fimmtán mánaða frá því að það sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi, dval­ar­leyfi á grund­velli mannúðarsjón­ar­miða, að upp­fyllt­um öðrum skil­yrðum. 

Í báðum til­fell­um væri þá talið eðli­legt að for­eldr­ar, sem fara með for­sjá barna, og systkini eft­ir at­vik­um, fái sömu meðferð, að upp­fyllt­um skil­yrðum. 

Skapa svig­rúm fyr­ir nýtt þing til að taka af­stöðu

Í grein­ar­gerð með frum­varp­inu seg­ir að ætla megi að kær­u­nefnd út­lend­inga­mála hafi við gildis­töku lag­anna þegar fellt úr­sk­urði úr gildi um að synja um efn­is­meðferð eða dval­ar­leyfi í til­vik­um ein­hverra barna. Með frum­varp­inu verður þess­um börn­um tryggður rétt­ur til end­urupp­töku á sín­um mál­um, en veitt­ur er tveggja vikna frest­ur frá gildis­töku lag­anna til að fara fram á end­urupp­töku. Nýti barnið ekki heim­ild­ina inn­an frests­ins stend­ur úr­sk­urður kær­u­nefnd­ar og fæli það í sér að barn­inu yrði gert að yf­ir­gefa landið.

Þá er í grein­ar­gerðinni áréttaður vilji lög­gjaf­ans að ávallt skuli taka til efn­is­legr­ar meðferðar um­sókn­ir um alþjóðlega vernd ef um­sækj­andi er í sér­stak­lega viðkvæmri stöðu.

Lagt er til að breyt­ing­arn­ar sem í frum­varp­inu fel­ast taki aðeins til um­sókna sem bár­ust fyr­ir gildis­töku lag­anna. Með breyt­ing­un­um skap­ast hins veg­ar níu mánaða svig­rúm frá gildis­töku til að ákveða æski­legt fram­hald. Að mati flutn­ings­manna frum­varps­ins er eðli­legt að veita slíkt svig­rúm svo unnt verði að meta áhrif breyt­ing­anna og að nýtt þing geti tekið af­stöðu til þess hvernig mál­inu verði fram haldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert