Helga Vala og Ágúst Ólafur leiða í Reykjavík

Ágúst Ólafur Ágústsson, Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, Logi Einarsson, Páll Valur …
Ágúst Ólafur Ágústsson, Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, Logi Einarsson, Páll Valur Björnsson og Helga Vala Helgadóttir. mbl.is/Eggert

Ágúst Ólaf­ur Ágústs­son, fyrr­ver­andi alþing­ismaður, og Helga Vala Helga­dótt­ir, lögmaður og leik­kona, munu leiða lista Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í Reykja­vík­ur­kjör­dæmun­um tveim­ur í kom­andi alþing­is­kosn­ing­um. Fram­boðslist­ar flokks­ins voru samþykkt­ir á fundi á Reykja­vík Natura í dag. Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá Sam­fylk­ing­unni.

Helga Vala leiðir list­ann í Reykja­vík norður en í 2. sæti á eft­ir henni sit­ur Páll Val­ur Björns­son, fyrr­ver­andi þingmaður Bjartr­ar framtíðar. Sat hann á þingi frá ár­inu 2013 til 2016 fyr­ir flokk­inn.

Ágúst Ólaf­ur leiðir í Reykja­vík suður og á eft­ir hon­um kem­ur Jó­hanna Vig­dís Guðmunds­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri við Há­skól­ann í Reykja­vík. Ágúst Ólaf­ur er fyrr­ver­andi alþing­ismaður og vara­formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. Ágúst hef­ur upp á síðkastið verið aðjunkt við Há­skóla Íslands. Hann er fyrr­ver­andi efna­hags­ráðgjafi for­sæt­is­ráðherra, sat í bankaráði Seðlabanka Íslands og vann um tíma hjá Sam­einuðu þjóðunum í New York. Ágúst Ólaf­ur hef­ur hlotið viður­kenn­ingu Barna­heilla fyr­ir að vinna sér­stök störf í þágu barna og hafa með störf­um sín­um bætt rétt­indi og stöðu barna. Ágúst er lög­fræðing­ur og hag­fræðing­ur að mennt.

Helga Vala Helgadóttir og Ágúst Ólafur Ágústsson.
Helga Vala Helga­dótt­ir og Ágúst Ólaf­ur Ágústs­son. Ljós­mynd/​Sam­fylk­ing­in

Helga Vala Helga­dótt­ir er héraðsdóms­lögmaður og leik­kona auk þess sem hún er umboðsmaður rokk­hljóm­sveit­ar­inn­ar Mammút. Helga Vala starfaði um ára­bil á fjöl­miðlum þar sem hún sinnti dag­skrár­gerð af ýms­um toga áður en hún sneri sér að fullu að lög­mennsku en hún er eig­andi Völvu lög­manna. Í lög­manns­störf­um sín­um hef­ur Helga Vala meðal ann­ars sinnt rétt­ar­gæslu fyr­ir brotaþola kyn­ferðis­brota, sinnt mann­rétt­inda­mál­um og mál­efn­um út­lend­inga, barna- og fjöl­skyldu­rétti auk ann­ars.Síðustu ár hef­ur Helga Vala sinnt fjöl­mörg­um trúnaðar­störf­um, meðal ann­ars setið í stjórn Fé­lags ís­lenskra leik­ara, í Þjóðleik­hús­ráði og Höf­und­ar­rétt­ar­ráði. Árin 2009-2010 var Helga Vala formaður Sam­fylk­ing­ar­fé­lags­ins í Reykja­vík.

Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir.
Jó­hanna Vig­dís Guðmunds­dótt­ir. Ljós­mynd/​Sam­fylk­ing­in

Jó­hanna Vig­dís Guðmunds­dótt­ir er fram­kvæmda­stjóri Tengsla hjá Há­skól­an­um í Reykja­vík en þar hef­ur hún starfað síðastliðin sex ár. Þar áður starfaði Jó­hanna Vig­dís sem fram­kvæmda­stjóri Lista­hátíðar í Reykja­vík, sem markaðsstjóri Borg­ar­leik­húss­ins og sem for­stöðumaður markaðsmá­la Straums-Burðaráss fjár­fest­inga­banka. Jó­hanna Vig­dís er menntuð í bók­mennta­fræði frá Há­skóla Íslands, með MSc-gráðu í menn­ing­ar­fræði frá Ed­in­borg­ar­há­skóla og MBA-gráðu frá Há­skól­an­um í Reykja­vík. Í störf­um sín­um und­an­far­in ár hjá Há­skól­an­um í Reykja­vík hef­ur Jó­hanna Vig­dís lagt höfuðáherslu á upp­bygg­ingu alþjóðlegs sam­starfs og verk­efni sem snúa að því að auka veg stúlkna og kvenna í tækni­grein­um.

Páll Valur Björnsson er í öðru sæti í Reykjavík norður …
Páll Val­ur Björns­son er í öðru sæti í Reykja­vík norður fyr­ir Sam­fylk­ing­una. Ljós­mynd/​Sam­fylk­ing­in

Páll Val­ur Björns­son er fyrr­ver­andi alþing­ismaður og sat áður í bæj­ar­stjórn Grinda­vík­ur. Páll Val­ur er menntaður grunn­skóla­kenn­ari og starfar nú sem kenn­ari við Fisk­vinnslu­skól­ann í Grinda­vík en hef­ur áður meðal ann­ars sinnt kennslu í Grunn­skóla Grinda­vík­ur og Njarðvík­ur­skóla. Páll Val­ur lagði í þing­störf­um sín­um mikla áherslu á mann­rétt­indi, vel­ferðar­mál og ekki síst á mál­efni barna. Páli Vali voru á síðasta ári veitt Barna­rétt­inda­verðlaun ung­mennaráðs UNICEF á Íslandi, Barna­heilla og ráðgjaf­ar­hóps umboðsmanns barna fyr­ir óþreyt­andi bar­áttu sína fyr­ir hags­muni barna, ekki síst þeirra sem höll­um fæti standa í sam­fé­lag­inu. 

List­arn­ir í heild:

Reykja­vík suður:

  1. Ágúst Ólaf­ur Ágústs­son há­skóla­kenn­ari
  2. Jó­hanna Vig­dís Guðmunds­dótt­ir fram­kvæmda­stjóri
  3. Ein­ar Kára­son rit­höf­und­ur
  4. Ell­ert B. Schram formaður Fé­lags eldri borg­ara í Reykja­vík og fyrrv. alþing­ismaður
  5. Vil­borg Odds­dótt­ir fé­lags­ráðgjafi hjá Hjálp­ar­starfi kirkj­unn­ar
  6. Þór­ar­inn Eyfjörð fram­kvæmda­stjóri SFR stétt­ar­fé­lags og leik­stjóri
  7. Inga Auðbjörg Kristjáns­dótt­ir vefsmiður, kaos-pi­lot og at­hafna­stjóri Siðmennt­ar
  8. Guðmund­ur Gunn­ars­son fyrrv. formaður Rafiðnaðarsam­bands Íslands
  9. Mar­grét M. Norðdahl mynd­list­ar­kona
  10. Reyn­ir Sig­ur­björns­son raf­virki
  11. Sig­ríður Arn­dís Jó­hanns­dótt­ir verk­efna­stjóri þjón­ustumiðstöðvar Miðborg­ar og Hlíða
  12. Tóm­as Guðjóns­son stjórn­mála­fræðinemi
  13. Kol­brún Birna Hall­gríms­dótt­ir laga­nemi
  14. Hlal Jarah veit­ingamaður á Mandi
  15. Ragn­heiður Sig­ur­jóns­dótt­ir upp­eld­is­fræðing­ur
  16. Reyn­ir Vil­hjálms­son eðlis­fræðing­ur og fram­halds­skóla­kenn­ari
  17. Halla B. Thorkels­son fyrr­ver­andi formaður Heyrn­ar­hjálp­ar
  18. Ída Finn­boga­dótt­ir mann­fræðing­ur og vara­formaður Ungra jafnaðarmanna í Reykja­vík
  19. Sig­urður Svavars­son bóka­út­gef­andi
  20. Signý Sig­urðardótt­ir viðskipta­fræðing­ur
  21. Björg­vin Guðmunds­son viðskipta­fræðing­ur og fyrrv. borg­ar­full­trúi
  22. Jó­hanna Sig­urðardótt­ir fyrrv. for­sæt­is­ráðherra

Reykja­vík norður:

  1. Helga Vala Helga­dótt­ir lögmaður og leik­kona
  2. Páll Val­ur Björns­son grunn­skóla­kenn­ari
  3. Eva Bald­urs­dótt­ir lög­fræðing­ur
  4. Þór­ar­inn Snorri Sig­ur­geirs­son sagn­fræðing­ur og formaður Ungra jafnaðarmanna
  5. Nikólína Hild­ur Sveins­dótt­ir mann­fræðinemi
  6. Þröst­ur Ólafs­son hag­fræðing­ur
  7. Sig­ríður Ásta Eyþórs­dótt­ir (Sassa) iðjuþjálfi í Haga­skóla
  8. Hall­grím­ur Helga­son rit­höf­und­ur og mynd­list­armaður
  9. Anna Mar­grét Ólafs­dótt­ir leik­skóla­stjóri
  10. Óli Jón Jóns­son kynn­ing­ar- og fræðslu­full­trúi BHH
  11. Edda Björg­vins­dótt­ir leik­kona og menn­ing­ar­stjórn­andi
  12. Birg­ir Þór­ar­ins­son (Biggi veira) tón­list­armaður í GusGus og DJ
  13. Jana Thuy Helga­dótt­ir túlk­ur
  14. Leif­ur Björns­son rútu­bíl­stjóri og leiðsögumaður
  15. Vanda Sig­ur­geirs­dótt­ir upp­eld­is- og mennt­un­ar­fræðing­ur
  16. Herv­ar Gunn­ars­son vél­stjóri
  17. Áshild­ur Har­alds­dótt­ir flautu­leik­ari
  18. Þorkell Heiðars­son líf­fræðing­ur og tón­list­armaður
  19. Ingi­björg Guðmunds­dótt­ir hjúkr­un­ar­fræðing­ur
  20. Gunn­ar Lár­us Hjálm­ars­son (Dr. Gunni) tón­list­armaður
  21. Sig­ríður Ingi­björg Inga­dótt­ir hag­fræðing­ur og fyrrv. þing­kona
  22. Dag­ur B. Eggerts­son borg­ar­stjóri
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert