Sigmundur Davíð ræður kosningastjóra

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, stofnandi Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, stofnandi Miðflokksins. mbl.is/Golli

Svanur Guðmundsson hefur tekið til starfa sem kosningastjóri Miðflokksins, flokks Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Hann segir við mbl.is að flokkurinn muni bjóða fram í öllum kjördæmum. Von sé á framboðslistum og málefnaskrá fyrir vikulok, sú vinna sé mjög vel á veg komin.

Sigmundur Davíð sagði sig úr Framsóknarflokknum á dögunum. Hann mældist með 7,3% fylgi í fyrstu skoðanakönnuninni sem birtist eftir að hann stofnaði Miðflokkinn. Svanur, sem áður var kosningastjóri Framsóknarflokksins – og flugvallarvina, segir að markið sé sett hátt. Í borginni hafi Framsóknarflokkurinn mælst um 3% þegar hann kom að málum en hafi að lokum, þremur vikum síðar, fengið 11% kosningu. Fylgið hafi þrefaldast.

Svanur segist að sama skapi stefna á að þeim takist að þrefalda fylgi Miðflokksins – og setur markið á 21%. „Við erum að ná verulega vel til fólks og það eru allir jákvæðir,“ segir hann. Hann hefur ekki upplýsingar um fjölda þeirra sem skráð hafa sig í flokkinn enda hafi aðstandendur hans ekki haft undan að taka við skráningum. „Við erum búin að vera að nota eitt netfang og það hafa fleiri hundruð manns sent okkur pósta þar sem það óskar eftir að skrá sig í flokkinn.“

Flokkurinn hefur að sögn Svans fengið húsnæði á Akureyri og Selfossi en að leit standi yfir að heppilegu húsnæði í Reykjavík. Hann segir aðspurður að allir sem vinni að stofnun Miðflokksins flokks geri það enn sem komið er í sjálfboðavinnu.

Svanur er eiginmaður Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur, sem dró sig úr framboði fyrir Framsóknarflokkinn á dögunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert