Sú færsla stærstu stjórnmálaflokkanna á Facebook, sem flestir hafa líkað við á síðustu fjórum árum, er myndband af Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, að baka og skreyta köku af mikilli natni. Þá vekja færslur um kjaramál eldri borgara gjarnan sterk viðbrögð hjá Facebook-fylgjendum flokkanna.
Þetta er niðurstaða athugunar sem Agnar Freyr Helgason, nýdoktor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, gerði sér til gamans. Honum datt að það gæti verið áhugavert að skoða hvernig flokkunum gengi á Facebook, og ákvað að svara spurningunni: Hvað kveikir í fylgjendum flokkanna á Facebook?
Til að geta svarað spurningunni sótti hann allar færslur sem birst hafa á aðalsíðum stærstu stjórnmálaflokka landsins, níu talsins, frá upphafi árs 2013 til dagsins í gær. Gögn fyrir þrjá nýjustu flokkana ná þó eðlilega bara yfir hluta tímabilsins. Hann birti niðurstöðurnar á heimasíðu sinni.
Myndbandið af Bjarna að baka köku er frá því í október árið 2016 og var birt tveimur vikum fyrir síðustu kosningar. Það sló í gegn og fékk 1.354 „læk“. Næstu tvær færslur á listanum eru einnig frá Sjálfstæðisflokknum, en þær eru meira almenns eðlis. Í fjórða sætinu er færsla frá Flokki fólksins um málefni forsvarsmanna flokksins vegna afturvirkrar skerðingar stjórnvalda á ellilífeyrisgreiðslum. Fékk sú færsla 856 „læk“.
Agnar segir það afar athyglisvert að svo mörgun líki við þessa færslu, en það geti mögulega endurspeglað að eldra fólk sé pólitískt virkt á Facebook og jafnframt mikilvægi málefninsins í hugum Facebook-fylgjenda flokkanna.
Næstu færslur á eru frekar almenns eðlis og snúa helst að einstaka frambjóðendum, fylgiskönnunum og hvatningu til að mæta á kjörstað.
Agnar segir Facebook gera fólki það nokkuð auðvelt að nálgast gögn um opnar síður á samfélagsmiðlinum. Auðvelt sé að greina fjölda notenda sem líkar við færslur, deilir eða gerir athugasemdir. Hann tekur þó fram að gögnin eru ekki persónugreinanleg.
„Það má vel ímynda sér að hægt sé að nota þessi gögn til að greina málefnaáherslur flokkanna, upplegg þeirra í kosningabaráttu, strategísk viðbrögð við utanaðkomandi atburðum og svo framvegis,“ segir Agnar.
Það kom honum reyndar á óvart hve fáir notendur „læka“ almennt við færslur flokkanna, en meðalfærslan fær aðeins 34 „læk“. Á þessu rúmlega fjögurra ára tímabili, sem athugunin nær yfir, hafa flokkanir aðeins sett 36 sinnum inn færslur sem hafa fengið meira en 500 „læk“.
Stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins virðast hvað duglegastir láta velþóknun sína í ljós með því að ýta á „læk“ hnappinn, en 22 af færslunum 36 birtust á síðu flokksins.
Stuðningsmenn flokkanna eru enn lélegri við að deila færslum flokkanna, en aðeins 12 færslur hafa fengið yfir 300 deilingar. Að meðaltali er hverri færslu hins vegar aðeins deilt 5 sinnum.
Tvær færslur ná þó yfir 1.000 deilingum. Það er annars vegar vantrausyfirlýsing stjórnarandstöðunnar þann 4. Apríl 2016, sem var deilt 1.326 sinnum.
Hins vegar tæplega tveggja ára gömul færsla Samfylkingarinnar þar sem birtar eru myndir af þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem höfnuðu tillögu stjórnarandstöðunnar um afturvirkar kjarabætur til aldraðra og öryrkja. Færslunni var deilt 1.268 sinnum.
Mynbandið af Bjarna að baka köku náði svo þriðja sætinu með 922 deilingar.