Helga Vala: Skerða átti lífskjör

Helga Vala Helgadóttir, lögfræðingur og frambjóðandi Samfylkingarinnar.
Helga Vala Helgadóttir, lögfræðingur og frambjóðandi Samfylkingarinnar.
Helga Vala Helgadóttir, sem skipar fyrsta sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík Norður segir að fráfarandi ríkisstjórn hafi ætlað að skerða lífskjör þeirra sem minnst hafa á milli handanna. 
Hún skrifar pistil á miðopnu Morgunblaðsins í dag þar sem hún fjallar um komandi þingkosningar en næstu vikur munu frambjóðendur þeirra stjórnmálaflokka, sem eiga fulltrúa á Alþingi eða mælast með það mikið fylgi að þeir kæmu fólki á þing í komandi kosningum, rita þessa pistla í stað starfsfólks á ritstjórn Morgunblaðsins og mbl.is.
„Nú göngum við til kosninga. Kosningarnar komu ekki til af engu. Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sprakk eftir einungis átta mánaða stafstíma. Þessi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar var vissulega ekki stöndug, en hún náði með undraverðum árangri að hrista af sér þann stuðning sem hún hafði í upphafi. Á endanum var einungis þriðjungur þjóðarinnar tilbúinn til stuðnings og var þannig vægast sagt í litlum metum hjá þjóðinni.

En hvers vegna skyldi það hafa verið? Nú er því haldið á lofti í aðdraganda kosninga að fráfarandi ríkisstjórn hafi gert margt í þágu þjóðarinnar. Að „met hafi verið sett í útgjaldaaukningu“ og að jöfnuður hafi aldrei verið meiri. Þetta er bara ekki alveg rétt. Það kann vel að vera að Íslandsmet hafi verið slegið í útgjaldaaukningu en það var, ef marka má fyrstu og einu fjárlög stjórnarinnar ekki beint í almannaþágu.

Ljóst er að þrátt fyrir eindreginn vilja þjóðarinnar um að heilbrigðismálin yrðu tekin föstum tökum, sem og loforð þar um frá fráfarandi stjórnarflokkum í aðdraganda kosninga 2016, sýndu nýframlögð fjárlög að efndir voru engar. Langstærstur hluti viðbótarframlags til heilbrigðiskerfis var merktur byggingu Landspítala en einungis 39 milljónir áttu að fara til allra sjúkrahúsa landsins. Þá var viðbótarframlag til framhaldsskóla eingöngu 81 milljón. Áfram ætluðu stjórnarflokkar svo að lækka vaxtabætur til íbúðareigenda sem og átti tekjuskerðing barnabóta að miðast við eingöngu 250 þúsund króna mánaðartekjur, sem er undir lágmarkslaunum. Er þá ótalið frítekjumark eldri borgara sem enn skyldi miðast við 25 þúsund krónur en það var lækkað úr 109 þúsund í 25 þúsund krónur um síðustu áramót.

Á sama tíma og fráfarandi ríkisstjórn ætlaði þannig að skerða lífskjör þeirra landsmanna sem minnst hafa á milli handanna átti að einhenda sér í lækkun virðisaukaskatts þvert ofan í eindregnar ráðleggingar þeirra sem fyrir fjárlaganefnd komu vegna þensluhvetjandi áhrifa sem aftur kemur illa við almenning,“ skrifar Helga Vala Helgadóttir en pistilinn er hægt að lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert