Pálmey Gísladóttir, formaður Dögunar, gat ekki kosið sjálfa sig í morgun, þar sem hún er búsett í Reykjavíkurkjördæmi norður en flokkur hennar bauð einungis fram í Suðurkjördæmi. Dagurinn leggst vel í Pálmeyju, sem segir kosningabaráttuna hafa verið andstyggilega.
„Þetta eru mjög sérstakar aðstæður, ég veit ekki hvort það hefur nokkurn tímann komið fyrir að formaður geti ekki kosið flokkinn sinn. Við náttúrulega bjóðum bara fram á Suðurlandinu í þessum kosningum,“ segir Pálmey, sem gefur ekki upp hvað hún kaus fyrst hún gat ekki kosið sinn eigin flokk.
Spurð um kosningabaráttuna segir Pálmey hana hafa verið andstyggilega. „Við sáum það bara í þættinum í gærkvöldi. Mér finnst þetta vera frasakosningabarátta, það snýst allt um að koma að frösum en ekki málefnum. Þetta hefur verið frekar neikvætt og óttalega leiðinlegt. Ég hélt kannski að við værum komin yfir þetta en það er greinilegt að það er svolítið langt í land ennþá.“
Skoðanakannanir gefa ekki til kynna að Dögun nái manni á þing en flokkurinn hyggst halda starfi sínu áfram. „Dögun heldur bara sínu striki. Við áttum ekkert von á kosningum núna í haust frekar en aðrir. Við vorum að undirbúa okkur fyrir sveitastjórnarkosningar og stefnum á að bjóða fram á landsvísu í vor.“
Pálmey er ánægð með stefnuskrá Dögunar og segir flesta flokka hafa tekið hluta málefnanna upp í sína stefnuskrá. „Það er eiginlega fljótlegra að telja upp þá flokka sem hafa ekki tekið upp málefni okkar og eignað sér þau, þannig að það er augljóst að málefnin okkar eru góð og það er eitthvað gott sem við erum að gera. Við hefðum náttúrulega viljað fá tækifæri til að tala fyrir málefnunum okkar sjálf en svona eru hlutirnir.“
Spurð hvaða flokkar hafi eignað sér málefni Dögunar segist Pálmey vilja láta það liggja á milli hluta. „Þeir sem standa að flokkunum vita hverjir það eru. Við höfum haft samfélagsbanka, burtu með verðtrygginguna, húsnæðismál og óhagnaðardrifin leigufélög og fleiri mál á okkar stefnuskrá frá upphafi. Það hefði svo sem verið hægt að gera einn flokk úr öllum þessum flokkum sem eru með sambærileg málefni en það þarf alltaf að vera að bítast um bitana,“ segir Pálmey, en að hennar sögn ræddu fulltrúar Dögunar við Samfylkinguna og Sósíalistaflokkinn um samstarf. „Síðan kom í ljós að Sósíalistaflokkurinn ætlaði sér ekkert í framboð og Samfylkingin hafði ekki pláss fyrir okkur á sínum listum þannig að við fórum bara fram í einu kjördæmi.“