„Þessi ummæli eru ekki stóra málið á dagskrá íslenskra stjórnmála“

Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins.
Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Staðan er þessi að við erum að vinna mjög góðan sigur, við erum að halda okkar þingstyrk,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, í samtali við mbl.is þar sem hún er spurð út í ummæli Sigmundar Davíðs formanns Miðflokksins.

„Það eru stór verkefni sem bíða í stjórnmálum. Þessi ummæli eru ekki stóra málið á dagskrá íslenskra stjórnmála í dag,“ segir Lilja.

Sigmundur sagði, í ræðu sinni í  gær, Lilju vera bandamann Miðflokksins og vísaði til hennar sem „Miðflokksmanneskjunnar í Framsóknarflokknum.“  

Framsóknarflokkurinn náði að halda öllum sínum 8 þingmönnum inni á þingi sem gerir hann að þriðja stærsta þingflokknum. „Við tökum það traust sem kjósendur hafa sýnt okkur mjög alvarlega. Markmiðið er að mynda öfluga ríkisstjórn í landinu sem þjónar heimilunum og vinnur að hag allra landsmanna,“ segir Lilja.

Vill mynda ríkisstjórn um málefni

„Þú veist hvernig þetta er, það eru mjög margir að tala saman,“ segir Lilja aðspurð hvort Framsóknarflokkurinn hafi hafið viðræður við aðra flokka um hugsanlega stjórnarmyndun. Lilja segir þó ljóst hver forgrunnur ríkisstjórnarsamstarfs með Framsókn sé.

„Ég vil mynda ríkisstjórn um þessi málefni sem við höfum verið að tala fyrir og það eru heilbrigðiskerfið, styrkja menntakerfið, innviðauppbygging og endurskipulagning fjármálakerfisins.“

Eru þið þá að leita meira til vinstri?

„Það er ekki tímabært að segja neitt slíkt. Það eru bara þessi mál sem við erum búin að setja á oddinn, þau skipta öllu máli.“ Þá segir Lilja stjórnarmyndunarviðræður byggjast á því með hverjum þau eru líkleg til þess að ná árangri í stjórnmálum á Íslandi og sú vinna skilji eitthvað eftir sig.

„Kjósendur vilja bara að við vinnum vinnuna okkar,“ segir Lilja að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert