Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir engin tímamörk vera á óformlegum viðræðum við Vinstri-græna og Framsóknarflokk um mögulegt samstarf í ríkisstjórn.
„Við teljum hins vegar að við þurfum einhvern lágmarkstíma til að sitja yfir helstu málefnum sem flokkarnir vilja leggja áherslu á. Þar er margt sem sameinar flokkana en líka einhver mál sem okkur greinir á um,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is. Þingflokkurinn fundaði í Valhöll í morgun þar sem farið var yfir stöðu viðræðnanna og hvort forsendur væru fyrir stjórnarsamstarfi þessara þriggja flokka. Fram hefur komið að óformlegar viðræður formannanna muni halda áfram í dag.
Spurður hvort munur sé á þessum viðræðum og þeim sem hann átti við sömu flokka, og aðra, fyrir ári, segist hann finna fyrir því að menn taki það alvarlega að láta reyna á valkosti og vinni hratt. Menn einbeiti sér að því að mynda sterka stjórn en geri einstök stefnumál flokkanna ekki að aðalatriði.
„Mér finnst að við öll, sem erum á þessu sviði, finnum til ábyrgðar við þessar aðstæður. Það er ekki gott að vera með mörg mál í biðstöðu vegna ástandsins í stjórnmálunum þannig að ég finn fyrir því að menn taka það alvarlega að láta reyna á valkosti í þessari stöðu og vinna hratt. Einbeita sér að því sem mestu skiptir, festast ekki í smáatriðum og mynda sterka stjórn. Þarna finnst mér vera meiri samhljómur en átti við fyrir ári þegar einstök stefnumál flokkanna urðu að aðalatriði.“
Bjarni segir vel gerlegt að ná pólitískum stöðugleika. Það sé hins vegar nýtt í stöðunni að nú þurfi að lágmarki þrjá flokka. Spurður hvort það sé ekki mikilvægt að vinna hratt til að tryggja bæði pólitískan og efnahagslegan stöðugleika, í ljósi þess að samningar séu að losna á vinnumarkaði, segir hann:
„Pólitískur óróleiki getur leitt til efnahagslegs óstöðugleika en það getur líka verkað öfugt því ef hér verður t.d. enginn friður á vinnumarkaði getur það haft slæmar afleiðingar fyrir stjórnmálin og því þurfum við að leita að breiðari stöðugleika en þessum pólitíska. Við þurfum að leggja okkur fram til að fá niðurstöðu á vinnumarkaðnum. Pólitískur og efnahagslegur stöðugleiki helst því oft í hendur. Það er vel gerlegt að ná hvoru tveggja, þess vegna er ég í þessu.“