Ráðherrar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í nýrri ríkisstjórn flokksins með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG, verða auk hennar Svandís Svavarsdóttir sem verður heilbrigðisráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson sem fer með umhverfismálin sem utanþingsráðherra. Þá verður Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis.
Þetta tilkynnti Katrín fjölmiðlum eftir þingflokksfund VG sem hófst klukkan 11:30. Guðmundur hefur verið framkvæmdastjóri Landverndar. Þingmennirnir Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, sem greiddu atkvæði gegn stjórnarsáttmálanum á fundi flokksráðs VG, hafa að sögn Katrínar lýst því yfir að þau hlíti þeirri niðurstöðu og verði áfram hluti þingflokksins.
Spurð hvers vegna leitað var út fyrir þingflokkinn sagði Katrín verkefnin fram undan væru ærin og ekki síst á sviði umhverfismála. Aðpspurð sagði hún að það hefði vissulega einnig spilað inn í að ákveðin óvissa hafi verið um stuðning tveggja þingmanna flokksins. Þá meðal annars með tilliti til mönnunar þingnefnda.
Ný ríkisstjórn tekur við á ríkisráðsfundi á Bessastöðum í dag.