Gerum skynsemi almenna og breytum fyrri vinnubrögðum og viðhorfum. Þetta sagði Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, á Alþingi í kvöld. Píratar séu oft taldir róttækir og það ýmist talið þeim til skammar eða tekna. „Jafnrétti kynjanna hefur í gengum söguna þótt rótæk og fráleit pæling,“ sagði hann þó að sé ekki í dag.
„Hvort kalla eigi nýja stjórnarskrá róttæka eða ekki er svosem enn meira álitamál, enda virðist sú hugmynd einhvern veginn hafa verið bæði sjálfsögð og róttæk frá lýðveldisstofnun. Þetta er ekki allt alveg klippt og skorið,“ sagði Helgi Hrafn.
Fyrstu þrír liðirnir í stefnuskrá hinna róttæku Pírata séu sömuleiðis almenn skynsemi.
„Vel upplýstar ákvarðanir hljóma vel þar til þarf að gera hlutina strax,“ sagði Helgi Hrafn. Þá verði róttækt að skoða hlutina betur.
„ Að gefa hugmyndum séns sem í fyrstu virðast óæskilegar hljómar líka vel, alveg þar til pólitískur andstæðingur segir eitthvað sem er auðvelt að dæma og gera lítið úr. Þá verður róttækt að velta hugmynd andstæðingsins alvarlega fyrir sér.“
Eins hljómi vel að taka afstöðu til hugmynda án tillits til þess hvaðan þær komi – allt þar til Sjálfstæðisflokkur tali um fiskveiðar, VG um náttúruvernd eða Píratar um nýja stjórnarskrá. „Það verður róttækt að taka undir með andstæðingum.“
Sagði Helgi Hrafn róttækt í pólitík að skipta um skoðun. Í pólitík sé svo mikilvægt að slá fyrsta tóninn, segja sína útgáfu af sögunni fyrst.
„Gildi á borð við þau, að taka upplýstar ákvarðanir, hlusta á mótrök og taka þau til greina, bera virðingu fyrir staðreyndum og að geta skipt um skoðun, eru jafnan kölluð almenn skynsemi. En þegar á hólminn er komið reynist sú skynsemi róttæk,“ sagði Helgi Hrafn. „Breytum því. Breytum því hér, í dag, núna. Ég legg til að við gerum skynsemina almenna, kæru landsmenn. Ég legg til að við reynum það öll.“