Áframhaldandi áhersla á að setja heilbrigðismálin í forsæti er góðs viti. Það sé líka góð vísbending um að Vinstri grænum sé alvara með heilbrigðismálin að flokkurinn hafi tekið að sér þennan óvinsæla ráðherra stól. Þetta sagði Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, á Alþingi í kvöld.
Ekki sé síður góðs viti að Svandís Svavarsdóttir hafi verið gerð að heilbrigðisráðherra, því „hún er virkilega fær í að ná sínu fram. Þetta gefur mér von,“ sagði Jón Þór.
Samræður sínar við forsvarsfólk heilbrigðisstofnanna um fjárlagafrumvarpið í dag bendi hins vegar til þess að þar ríki enn óviss hvort að framlög nýrrar stjórnar dugi til að halda í horfinu, hvað þá að hefja endurreisn.
„Það sem er lykilatriðið núna er að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hæstvirt eigi mjög ýtarlegt samtal og samstarf við forsvarsfólk heilbrigðisþjónustunnar um hvað vantar til að hefja endurreisn heilbrigðiskerfisins, eins og 86.000 landsmenn skrifuðu undir í stærstu undirskrifasöfnun Íslandssögunnar.“
Kjaramál séu ekki síður mikilvægur málaflokkur og hækkun á launum ráðamanna langt umfram almenna launaþróun á kjördag fyrir ári hafi skapað mikið ósættið á vinnumarkaði og sett í uppnám yfir 70% kjarasamninga.
„Píratar kölluðu eftir leiðréttingu, lögðu fram frumvarp um leiðréttingu, eins og fyrst Davíð Oddsson og svo Halldór Ásgrímsson gerðu á sínum tíma, en málið var svæft í nefnd. Svo að lokum þá samþykkti verkalýðsfélag VR að kæra Kjararáð með mér. Og já, ég borga það úr eigin vasa. Launahækkunin sem ég fékk sem þingmaður fyrir ári fer í að kæra þá hækkun, og fá hana ógilda,“ sagði Jón Þór.
Kvað hann því næst töluverðan vilja þurfa til að ná þeim yfirlýsta vilja forsætisráðherra að efla og styrkja Alþingi. Steingrímur J. Sigfússon sé hins vegar íhaldsmaður og því veki skipun hans sem forseta Alþingis spurningar. „En gefum honum sjens. Sjáum hvernig hann tekur t.d. í kröfuna um gegnsæi þingstarfanna,“ sagði Jón Þór.
„Að lokum er fíllinn á stjórnarheimilinu svo náttúrulega Sigríður Á. Anderssen sem áfram situr sem dómsmálaráðherra hæstvirt með stuðningi Katrínar Jakobsdóttur hæstvirts forsætisráðherra og þingmanna Vinstri Grænna enn sem komið er.
Sem dómsmálaráðherra braut hún lög við skipun dómara í Landsrétt, samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í haust.
Og ef Hæstiréttur staðfestir dóminn þá eru eflaust fáir sem í alvöru treysta Sigríði fyrir því að misnota ekki vald sitt sem dómsmálaráðherra.
Ofan á þetta leggst svo leynimakk ráðherrans hæstvirts með upplýsingar vegna uppreist æru kynferðisafbrotamanna.
Við munum beita eftirlitshlutverki okkar sem þingmenn til að rannsaka verklag og ákvarðanir ráðherra í þessum málum.
Við Píratar erum á vaktinni.“