Ekki var laust við að afsökunartónn hafi verið sleginn í stefnuræðu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra vegna nýrrar stjórnar. Þetta sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í ræðu sinni á Alþingi í kvöld. Hún kvaðst þó vera stolt yfir því að Katrín Jakobsdóttir sé orðin forsætisráðherra. „Það er ekki bara töff, heldur er hún mannkostamanneskja sem vonandi tekst að taka utan um - ekki bara stjórnarflokkana, sem sannarlega veiti ekki af, heldur samfélagið allt.“
Stjórnin hefði heldur ekki orðið að veruleika án Katrínar og því megi spyrja hve stórt hlutverk málefnin leiki í raun og veru. „Fyrir ríkisstjórnarflokkana voru stjórnarmyndunarviðræðurnar því að vissu leyti ákveðnir Hungurleikar; það að lifa af í stjórnmálum,“ sagði Þorgerður Katrín.
Sagan eigi líka til að endurtaka sig og rifjaði hún upp vantraustsræðu Vilmundar Gylfasonar á ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen. „Nú, 35 árum eftir ræðu Vilmundar, vilja margir meina að aftur hafi náðst sögulegar sættir andstæðra póla í pólitík. Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur eru saman í ríkisstjórn,- sú saga er óvenjuleg né ný af nálinni en sú saga heldur nú áfram í boði Vinstri Grænna. Enda er ekki laust við að ákveðinn afsökunartónn hafi þess vegna verið sleginn í stefnuræðu hæstvirts forsætisráðherra.“
Pólitíska landslagið sé þó vissulega eilítið sérkennilegt þessa dagana og skiljanlegt að kallað sé eftir breyttum áherslum og krafa gerð um að flokkar geti starfað saman þvert á flokkslínur. „Við erum öll orðin frekar þreytt á þessu og kannski þess vegna er mögulega auðveldara að selja okkur hugmyndina um rótgrónu flokkana sem geta reyndar verið svo sorglega fyrirsjáanlegir. Allt á að gera fyrir alla - það má alls ekki rugga neinum bát - allra síst ef það kallar á umbætur eða kerfisbreytingar, - hvað þá kerfisbreytingar hjá besta vini aðal,“ sagði Þorgerður Katrín.
Pólitísk ró og friður á þingi sé vissulega af hinu góða en, bætti hún við, við skulum „samt hafa augun opin og sofna ekki á verðinum. Við megum ekki gleyma því hvers vegna við stöndum hér í dag. Hvers vegna við erum að bjóða nýja ríkisstjórn velkomna, nú í annað sinn á innan við ári. Við getum ekki horft framhjá þeirri ástæðu né sett pottlokið á önnur þau mál sem stjórnarflokkarnir eiga erfitt með að leysa sín á milli - og - við skulum muna til hvers vegna við stígum öll yfir höfuð út í pólitík.“
Þegar stór orð ýmissa þingmanna fyrr á árinu sem hafi þá verið í minnihluta og sem séu sumir hverjir orðnir ráðherrar í dag séu skoðuð, þá sé ljóst að hugsjónir hafa vikið, „prinsipp hafi verið brotin á síðustu vikum. Það er hægt að kalla þetta hvað sem er, málamiðlanir, tilslakanir eða hvað annað en prinsipp hafa verið brotin. Framhjá því verður ekki litið,“ sagði Þorgerður Katrín.
Stjórnmálamenn verði að líta inn á við og hlúa að hinum raunverulegu innviðum. „Á sama tíma er það í okkar verkahring að huga að þeim meinum sem þar leynast.“
Sjálf vilji hún sjá samfélag sem hvorki samþykkir ofbeldi og valdbeitingu né sé það samfélag þar sem gagnsæi er lítið og setið er á skýrslum, minnisblöðum, upplýsingum. „Eftir #MeToo byltinguna, kærkomna byltingu, hljótum við hér í þinginu að vera sammála um mikilvægi þess að ráðast að rótum vandans og uppræta það kerfislæga samfélagsmein sem hefur fengið að grassera alltof lengi. Við verðum að spyrja hvað við getum lagt af mörkum í þeirri baráttu og þar þarf ríkisstjórnin að gera meira en sýna vinalegan lit.“