Endar í uppstillingu í Eyjum

Ekki bærust nógu mörg framboð til röðunar á lista Sjálfstæðiflokksins …
Ekki bærust nógu mörg framboð til röðunar á lista Sjálfstæðiflokksins í Eyjum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Ekki bárust nógu mörg framboð til röðunar á lista Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum og var því ákveðið að fara í uppstillingu. Aðeins sjö framboð bárust en þau þurftu að vera tíu að lágmarki, samkvæmt samþykkt aðalfundar fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Vestmannaeyjum.

Þetta kemur fram á vef Eyjafrétta. 

Samkvæmt heimildum mbl.is var því ákveðið á fundi á þriðjudag að fara í uppstillingu. Sama nefnd og valin var til þess að annast framkvæmd röðunar sér nú um uppstillingu á listann.

Fjórir sitjandi bæjarfulltrúar gáfu kost á sér

Fjórir sitjandi bæjarfulltrúar hafa sagt frá því opinberlega að þeir gæfu kost á sér á röðun listans. Það eru þau Elliði Vignisson bæjarstjóri, Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Trausti Hjaltason og Birna Þórsdóttir. Þá tilkynnti varabæjarfulltrúinn Margrét Rós Ingólfsdóttir að hún gæfi kost á sér í röðun. Ekki hefur verið gefið út opinberlega hvaða tveir aðrir einstaklingar gáfu kost á sér. 

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, gaf kost á sér við röðun …
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, gaf kost á sér við röðun á lista. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Töluvert hefur gengið á varðandi lista flokksins en í Morgunblaðið greindi frá því fyrr í mánuðinum að óánægðir sjálf­stæðis­menn í Vest­manna­eyj­um væru að ræða um að bjóða fram sérlista við kom­andi bæj­ar­stjórn­ar­kosn­ing­ar. Ástæðan sé óánægja með að ekki skuli hafa verið ákveðið að efna til próf­kjörs við val á lista flokks­ins.

Uppstilling, röðun eða prófkjör?

En í desember bárust fréttir af því að Sjálfstæðiflokkurinn ætlaði í prófkjör í Vestmannaeyjum, í fyrsta skipti frá árinu 1990. Það reyndist þó ekki svo. 

Á fundi fulltrúaráðs í desember bar flutt til­laga um upp­still­ingu sem hlaut 57% at­kvæða. Það dugði ekki til sök­um þess að auk­inn meiri­hluta þarf, eða 2/​3 at­kvæða, til þess að bregða frá al­mennri reglu Sjálf­stæðis­flokks­ins. Próf­kjör eru al­menna regl­an við val á lista flokks­ins.

Þá var boðað til fundar þann 10. janúar þar sem flutt var til­laga um próf­kjör og náði hún ekki ein­föld­um meiri­hluta, 26 kusu með en 28 á móti. Þá hafi þriðja til­laga verið flutt um röðun á lista og var hún samþykkt með 75% at­kvæða. 

Val á listanum endar því í uppstillingu, sem er sú tillaga sem fyrst var borin upp þegar val á lista flokksins var á dagskrá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka