Fulltrúar Karlalistans söfnuðu undirskriftum fyrir framboðið í Austurstræti í dag og gáfu jafnframt börnum bækur. Framboðinu var vel tekið að sögn Gunnars Kristins Þórðarsonar, oddvita Karlalistans, og sagði hann fleiri konur skrifa undir en karla.
„Þetta gengur vel, við erum búnir að safna um 60 undirskriftum síðastliðna 2 tíma. Við erum komnir með vel yfir 100 undirskriftir og við þurfum 160, ég held við klárum þetta bara í dag og skilum inn framboðslista og undirskriftum á föstudaginn“ segir Gunnar í samtali við mbl.is.
Gunnar segir undirskriftasöfnunina hafa fengið góðar móttökur. „Það er ánægjulegt hversu margar konur eru að styðja okkur. Fólk stendur hér alveg í löngum röðum að skrifa undir hjá okkur, með börnin sín og barnabörn. Jafnvel fleiri konur en karlar“ segir hann
Spurður hvort það sé af ásettu ráði að safna undirskriftum fyrir framboðið 1. maí, svarar Gunnar því játandi. „Það er lífskjarabarátta umgengnisforeldra, það er kjarabarátta sem á heima á 1. maí. 50% umgengnisforeldra eru á vanskilaskrá og við viljum að það sé tekið tillit til félagslegra aðstæðna þeirra við innheimtu meðlaga. Við viljum að umgengnisforeldrar fái aðgang að velferðarkerfinu eins og foreldrar, við leggjum áherslu á félagsþjónustuna. Taka verður tillit til félagslegra- og heilsufarslegra aðstæðna og að félagsþjónustan komi til móts við fátæka feður sem geta ekki tekið börnin sín vegna fátæktar.“