Póst- og fjarskiptastofnun hefur hafnað umsókn Reykjavíkurborgar um undanþágu frá banni við óumbeðnum fjarskiptum, en borgin vill senda hópskilaboð á unga kjósendur í Reykjavík í þeim yfirlýsta tilgangi að auka kjörsókn vegna borgarstjórnarkosninganna síðar í þessum mánuði.
Fram kemur í ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar að það sé mat hennar að í gildi séu sérreglur þegar kemur að undanþágu frá banni við slíkum sendingum í þágu vísindarannsókna en stofnunin hafi ekki heimild að öðru leyti til þess að veita slíkar umsóknir.
Fyrir vikið er umsókn Reykjavíkurborgar hafnað en bent á að Persónuvernd hafi heimild samkvæmt lögum til þess að veita undanþágu frá sambærilegu ákvæði í lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
Fram kemur í ákvörðuninni að ef slík heimild verði veitt sé það álit Póst- og fjarskiptastofnunar að sending slíkra skilaboða eigi sér lögmæta stoð samkvæmt öðrum lögum og brjóti þannig ekki í bága við ákvæði fjarskiptalaga.