Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, hefur endurgreitt MS þær 200 þúsund krónur sem framboð hans í leiðtogakjöri flokksins hlaut frá fyrirtækinu í styrk.
Að sögn Egils Sigurðssonar, formanns stjórnar MS, fékk Eyþór styrkinn fyrir mistök eða misskilning. Nokkur óánægja ríkti með styrkinn á Facebook-síðu kúabænda og gagnrýndu margir þeirra ákvörðunina um að veita hann.
Styrkveitingin fór ekki fyrir stjórn MS og var því ekki samþykkt af henni. „Svona peningastyrkir hafa ekki tíðkast frá okkur til stjórnmálaflokka eða stjórnmálastarfs á undangengnum árum eða langt árabil,“ segir Egill, sem kveðst hafa farið yfir málið og segir það einsdæmi í fyrirtækinu.
Hann bætir við að Eyþór hafi sjálfur haft samband við MS og endurgreitt styrkinn í morgun.
„Það mun hér eftir sem hingað til ekki tíðkast að við séum að styrkja svona pólitísk framboð.“
Egill ætlar að fara yfir málið á næsta stjórnarfundi MS 24. maí. „Ég tel málinu lokið og að það geti allir verið þokkalega sáttir við það.“
Framboð Eyþórs í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins kostaði samtals rúmlega 4,9 milljónir króna. Fjárframlög til framboðsins námu tæpum 3,4 milljónum, þar af voru eigin framlög Eyþórs 1 milljón króna.