Sanna slær met Davíðs

Sanna Magdalena Mörtudóttir.
Sanna Magdalena Mörtudóttir. Vefur Sósíalistaflokksins

Sanna Magdalena Mörtudóttir er yngsti fulltrúinn sem kjörinn hefur verið í borgarstjórn, slær met Davíðs Oddssonar frá 1974. Þetta kemur fram í færslu Gunnars Smára Egilssonar á Facebook-síðu Sósíalistaflokksins í morgun. Sanna er fædd í byrjun maí árið 1992 og því 26 ára að aldri. Davíð var einnig 26 ára þegar hann var kjörinn í borgarstjórn fyrst árið 1974 en þar sem hann á afmæli í janúar er hann heldur eldri í árinu en Sanna á kjördag.

Sósíalistaflokkurinn fékk 6,4% atkvæða í Reykjavík og einn borgarfulltrúa. Í færslu sinni segir Gunnar Smári að aðeins hafi vantað  778 atkvæði til að Daníel Örn Arnarson, sem skipaði annað sæti á lista sósíalista, myndi fella áttunda mann Sjálfstæðisflokksins.

„Sósíalistar fengu meira en tvöfalt meira fylgi en allir nýju flokkarnir til samans. Flokkurinn fékk fleiri atkvæði en fjórir þingflokkar; Framsókn, Flokkur fólksins, VG og Miðflokkurinn. Og varð fimmti atkvæðamesti flokkurinn í Reykjavík á eftir Sjálfstæðisflokki, Samfylkingu, Viðreisn og Pírötum.

Ef skoðuð er breytingin frá 2014 þá óx Viðreisn mest eða um 8,2 prósentustig, þá sósíalistar um 6,4, Miðflokkur um 6,1, Sjálfstæðisflokkur um 5,1, Flokkur fólksins um 4,3 og Píratar um 1,8 prósentustig. Framsókn tapar mestu, 7,5 prósentustigum, Samfylkingin 6,0, VG 3,7 og Alþýðufylkingin 0,1.

Af þeim flokkum sem náðu kjöri var Sósíalistaflokkurinn eini flokkurinn sem ekki er á þingi. Aðrir nýir flokkar í borgarstjórn eru ýmist klofningsframboð úr eldri flokkum eða voru með í framboði fólk sem hafði setið á þingi eða í borgarstjórn fyrir aðra flokka,“ segir enn fremur í færslu Gunnars Smára Egilssonar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert