Útilokar samstarf við Sjálfstæðisflokkinn

Sanna Magdalena Mörtudóttir.
Sanna Magdalena Mörtudóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er stórsigur hjá okkur sósíalistum vegna þess við erum glænýr flokkur með lítið sem ekkert fjármagn á bak við sig. Það er glæsilegt að sjá almenning standa saman, rísa upp gegn óréttlætinu og ná þessum árangri,“ segir Sanna Magda­lena Mörtu­dótt­ir, oddviti Sósíalistaflokksins í Reykjavík. 

Sósíalistaflokkurinn fékk 6,4% atkvæða í Reykjavík, sem var ávísun á eitt sæti í borgarstjórn. Greint var frá því í dag að Sanna Magda­lena Mörtu­dótt­ir væri yngsti full­trú­inn sem kjör­inn hef­ur verið í borg­ar­stjórn en hún sló met Davíðs Odds­son­ar frá 1974. Hún segist mjög ánægð með það að hafa slegið metið. 

„Það er jákvætt að sjá ungt fólk í stjórnmálum, sérstaklega í ljósi þess að ég er kona og af blönduðum uppruna vegna þess að það þarf að auka sýnileika kvenna og dökkra einstaklinga í svona stöðu á Íslandi.“

Aðspurð segir Sanna að samstarf við Sjálfstæðisflokkinn, stærsta flokkinn í borginni, sé útilokað. 

„Við töluðum um í kosningabaráttunni að þeir sem ganga erinda auðvaldsins væru andstæðinga almennings og að við gætum ekki fundið sameiginlega fleti.“

Hún segir að í viðræðum um myndun meirihluta í borgarstjórn leggi flokkurinn áherslu á þrjú mál. Valdið til fólksins, húsnæði fyrir alla og mannsæmandi kjör fyrir alla. „Það eru vandamálin sem grasrótin hefur sagt að þurfi að leysa þannig að við setjum gríðarlega áherslu á að því verði framfylgt almennilega.“

Hún segir að flokkurinn hafi skýr markmið og að þeim verði náð í samvinnu við almenning en ekki með valdboði að ofan sem almenningur á að sætta sig við. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert