„Það stoppar ekki síminn hjá mér“

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar. mbl.is/Kristinn Magnúsosn

„Ég er næstum komin á þann stað að fá einhvern í það að svara í símann hjá mér,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, í samtali við mbl.is og hlær eftir að hafa beðist velvirðingar á að hafa ekki svarað fyrra símtali blaðamanns. Þeir sem hringdu væru reyndar að meirihluta fjölmiðlamenn en ekki stjórnmálamenn.

„Ég er annars bara venjuleg manneskja og var að koma úr búðinni og er að setja í vél því ég hef varla verið heima hjá mér síðustu vikurnar,“ segir Þórdís. Varðandi pólitíkina segir hún að ekki séu fyrirhugaðir neinir formlegir fundir í dag með þátttöku Viðreisnar en hún hafi verið í sambandi við aðra oddvita í Reykjavík símleiðis. „Það stoppar nánast ekki síminn hjá mér.“

„Það eru í rauninni bara allir að þreifa á öllum. Þannig er staðan hjá okkur líka,“ segir Þórdís. „Þannig verður þetta væntanlega í dag. Ég á alveg von á því að einhverjir séu að hittast og ég á að sama skapi alveg von á því að hitta einhverja þegar líða tekur á daginn. Ég er alveg viss um að það gerist eitthvað en það klárast ekki í dag.“

„Ég er alls ekki svartsýn á að það gangi“

Verkefnið sé að mynda starfhæfan meirihluta og það taki væntanlega smá tíma að ljúka þeirri vinnu. „Ég er alls ekki svartsýn á að það gangi. Við erum auðvitað búin að vera mjög mikið saman að undanförnu oddvitanir, í pallborðum og víðar, og við vitum alveg út frá kosningabaráttunni nokkurn veginn hvar línurnar liggja.“

Snertifletir séu hjá Viðreisn við flesta hinna flokkanna. „Við eigum til dæmis samleið með Vinstri-grænum í umhverfismálum, Pírötum í rafrænum áherslum og Sjálfstæðisflokknum þegar kemur að markaslausnum. Ég tel að við getum alveg klárað þetta saman. Við erum ekki að tala um margra mánaða stjórnmálakreppu í borginni.

Viðreisn er í ákveðinni lykilstöðu í borginni og gæti samið bæði til hægri og vinstri. Flokkurinn fékk tvo borgarfulltrúa kjörna af 23.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert