Vonar að fulltrúar hlusti og skilji

Eyþór segist bjartsýnn á að kjörnir fulltrúar hlusti á íbúana.
Eyþór segist bjartsýnn á að kjörnir fulltrúar hlusti á íbúana. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er allavega drukkið kaffi og talað í síma,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, þegar blaðamaður spyr hvort einhverjar viðræður séu hafnar á milli flokka um myndun nýs meirihluta í borginni. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 30,8 prósent atkvæða og jók fylgi sitt um fimm prósent frá árinu 2014.

Eyþór segir engar formlegar viðræður hafnar en fólk sé eðlilega að tala saman. Þá ætlar borgarstjórnarhópur flokksins að hittast í hádeginu. Hann segir þó alveg möguleika á því að formlegar viðræður á milli flokka um meirihlutasamstarf hefjist í dag, en það skýrist betur þegar líður á daginn.

„Niðurstöðurnar voru skýrar og nú bara vonandi að þeir sem voru kjörnir í borgarstjórn leysi þetta rétt. Það er krafa um breytingar og áhersla á málefni fólksins. Nú er bara spurning hvort fólk sem er kosið í borgarstjórn skilji og hlusti á íbúana,“ segir Eyþór og bendir á að Sjálfstæðisflokkurinn sé stærsti flokkurinn borginni. Það sé því eðlilegt að stokka upp. „Við teljum að við eigum að leiða framhaldið ásamt fleiri flokkum. Að við séum ekki að framlengja í einhverju sem var hafnað,“ segir hann og vísar þess að meirihlutinn í borginni féll, en bæði Samfylkingin og Vinstri græn töpuðu fylgi frá því í kosningunum 2014.

Aðspurður hvort hann óttist að fráfarandi flokkar nái að mynda nýjan meirihluta með aðkomu einhverra af nýju flokkunum, segir hann: „Ég er alltaf bjartsýnn og vona að fólk hafi skynsemi og hlusti á íbúana.“

Eyþór segir óvenjulegt að fjórir nýir flokkar koma inn og að niðurstaðan hafi verið óvænt fyrir marga, en engu að síður mjög skýr. Þá segir hann Sjálfstæðisflokkinn ekki ætla að útiloka samstarf við neinn fyrirfram.

„Við viljum vinna með þeim sem vilja breyta í borginni og þessi fjögur nýju framboð sem komu fram voru með skýra sýn á það. Við útlokum ekki neinn, við teljum að það sé ekki þroskamerki.“

Hann segir Sjálfstæðisflokkinn til að mynda eiga samleið með Viðreisn, Miðflokki og Flokki fólksins, en þeir flokkar hafi gagnrýnt núverandi stöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert