Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, segir samkomulag um meirihlutaviðræður Samfylkingarinnar, Viðreisnar, VG og Pírata ekki vera í anda úrslita kosninganna því þar hafi verið ákall um breytingar.
„Þessi meirihluti kolféll. Hann á í raun og veru miklu frekar að fara í frí heldur en að snúa til baka,“ segir Eyþór.
„Það að reisa hann upp á ný er kannski ekki það sem fólkið þarf. Fólk þarf breytingar og við sáum samhljóm með nýju framboðunum sem gagnrýndu, bæði frá hægri og vinstri. Við skulum sjá hvernig þetta fer hjá þeim en þetta er alla vega tilraun til þess að framlengja líf fallins meirihluta.“
Spurður hvort samkomulagið um viðræðurnar hafi komið á óvart segir hann alltaf möguleika hjá fólki að reyna aðrar leiðir. „Ég hefði haldið að það væri miklu skynsamlegra að fá ferskan og nýjan meirihluta eins og kosningarnar bentu til. Það væri hollt fyrir þá flokka sem töpuðu kosningunum að horfa inn á við og taka sér frí.“