Þorgerður Anna Gunnarsdóttir
„Við höfum átt góða fundi með flestum oddvitunum og þeir hafa verið mjög góðir. Samskiptin hafa verið opin og góð og þetta er niðurstaðan okkar núna og það er sátt um hana,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, í samtali við mbl.is.
Hún tilkynnti fyrir skömmu að formlegar meirihlutaviðræður Viðreisnar, Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna hæfust á morgun. Samtals fengu flokkarnir fjórir tólf sæti af 23 í borgarstjórn.
„Við ætlum bara að vinna þetta hratt og örugglega en gera það vel,“ segir Þórdís Lóa. Flokkarnir þrír sem Viðreisn ætlar í viðræður við mynduðu meirihluta á síðasta kjörtímabili en töpuðu meirihluta sínum í borgarstjórnarkosningunum á laugardaginn.